Dómur Hæstaréttar er mjög skyr: Vextir verða eingöngu leiðréttir til framtíðar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.3.2012. Efnisflokkur: Gengistrygging, Kröfuréttur

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 um vaxtaútreikning áður gengistryggðra lána er mjög skýr:

..þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðila að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu.  Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem [...] lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.

Þetta er eins skýrt og frekast er hægt að komast að orði.  Dómurinn segir að rangur lagaskilningur um vextina verði ekki leiðréttur nema til framtíðar. Hann segir ekkert um það hvort lán þurfi að vera í skilum eða ekki, en vissulega var hann að fjalla um lán í skilum.  Það bara skiptir ekki máli, þar sem það þykir standa nær varnaraðila að bera þann vaxtamun sem deilt eru um í málinu og rangur lagaskilningur um vexti lánsins verður bara leiðréttur til framtíðar.

Rangi lagaskilningurinn felst í fleiru en fullnaðarkvittuninni, eins og Hæstiréttur nefnir.  Hann fellst raunar fyrst og fremst í skuldbindingunni sem birtist á greiðslutilkynningunni. Eða eins og Hæstiréttur segir: 

Voru sóknaraðilar því í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar [um vexti] sem þeir höfðu gengist undir gagnvart varnaraðila..

Þetta atriði er síðan grundvöllur þess að fullnaðarkvittanir fælu í sér að ekki væri hægt að rukka meira, en ekki að fullnaðarkvittun þyrfti líka að vera til staðar eins og segir í framhaldinu:

..og þar með í góðri trú um að fyrrnefndar greiðslur þeirra fælu í sér fullar og réttar efndir af þeirra hálfu. 

Í rökfræði væri talað um að hér væru tvær yrðingar.  Fyrri er góð trú um lögmæti skuldbindingar og sú síðari góð trú um fullar og réttar efndir.  Það sem meira er, að fyrri yrðingin er sterkari yrðingin af þessum tveimur, þar sem sú síðari gildi "þar með", þ.e. síðari yrðingin gildi vegna þess að sú fyrri gildir en ekki öfugt.  Hæstiréttur segir að skuldbindingin sé mikilvægari þátturinn, en fullnaðarkvittunin væri svona eins og kremið ofan á kökuna.

Ætli menn að fara að deila um það hver skuldbindingin hafi verið, þá svarar Hæstiréttur því líka í næstu setningu á undan, því sem nefnt er að ofan:

Við mat á því hvort svo hagi til í máli þessu að heimilt sé að víkja fá meginreglunni er fyrst til þess að líta, að þegar sóknaraðilar á einstökum gjalddögum frá stofndegi kröfunnar og fram til 14. febrúar 2011 greiddu afborganir og vexti af skuldabréfi nr. 712986 gengu báðir aðilar út frá því að útreikningur varnaraðila á fjárhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild.

Skuldbindingin felst í því að báðir aðilar hafi haldið að fjárhæð afborgana og vaxta væri gild fram til 14. febrúar 2011.  Hæstiréttur notar þetta atriði til að styðja við það sem á eftir kom og ég nefni að ofan.  (Vissulega er þetta rangt hjá Hæstarétti, þar sem sóknaraðilar gerðu jú athugasemd við fjárhæð skuldarinnar, m.a. á grunni ákvæða vaxtalaga nr. 38/2001 og síðar á grunni niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010.)

Höfum í huga að í málinu er bara deilt um vextina.  Ekki er deilt um að höfuðstóll lánsins lækki til samræmis við dóma nr. 92/2010 og 153/2010.  Úr því var kljáð í máli nr. 604/2010.  Enn og aftur vil ég því taka fram að niðurstaða Hæstaréttar um vextina er mjög skýr:

það þykir standa nær varnaraðila að bera þann vaxtamun sem deilt eru um í málinu og rangur lagaskilningur um vexti lánsins verður bara leiðréttur til framtíðar

Færslan var skrifuð við fréttina: Þeir sem ekki greiddu sitja í súpunni