Erindið um vaxtadóma Hæstaréttar í Grasrótarmiðstöðinni

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.2.2012.

Í dag hélt ég erindi um vaxtadóma Hæstaréttar í Grasrótarmiðstöðinni.  Fjölmiðlar sýndu þessu engan áhuga og er það furðulegt.

Meginniðurstöður mínar eru:

  1. Dómur nr. 471/2010, fyrsti vaxtadómur Hæstaréttar, stenst enga skoðun. 

    1. Málið:  Rétturinn var blekktur á margan hátt til að komast að þeirri niðurstöðu sem hann komst.  Höfum í huga að Lýsing valdi málið, Lýsing ákvað að málið væri gott fordæmi, Lýsing valdi verjandann, færa má rök fyrir því að Lýsing hafi valið dómarann í héraðsdómi og Lýsing ákvað dómskröfur.  Málið hafði nákvæmlega EKKERT fordæmisgildi fyrir yfir 95% allra gengistryggðra lánasamninga. 

    2. Dómskröfur:  Þær voru mjög ófullkomnar og þeim beinlínis ætlað að leiða Hæstarétt að þeirri niðurstöðu sem hann komst að.  Gríðarlegt gap er á milli síðustu þrautavarakröfu Lýsingar og kröfu varnaraðila.  Nú er t.d. búið að koma í ljós að þetta gap var í andstöðu við kröfurétt.  Eftir er að fá úr því skorið hvort það sé einnig í andstöðu við neytendarétt.

    3. Rökstuðningur Hæstaréttar:  Hvernig komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að 3. og 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 ættu að gilda um þetta mál?  Það er mér gjörsamlega ómögulegt að skilja.  Höfum í huga að þessar greinar eru í II. kafla laganna og efni hans er frávíkjanlegt ásamt efni IV. kafla.  Um þessa tvo kafla segir í 2. gr.:  "Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara."  Já, 3. og 4. gr. vaxtalaga gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum.  Samt ákvað Hæstiréttur að láta innihald ófrávíkjanlegrar greinar laganna, þ.e. 2. gr., víkja fyrir innihaldi greinar sem skýrt er sagt til um að séu ekki bara frávíkjanlegar, heldur eru sett mjög ströng skilyrði um hvenær megi nota, þ.e. 3. og 4. gr.  Dómur Hæstaréttar er því beinlínis rangur út frá lögunum, þar sem samningarnir eru til staðar, þ.e. lánssamningarnir, venjurnar eru til staðar, þ.e. kröfuréttur, og lögin eru til staðar, þ.e. nr. 7/1936 "samningalög" og nr. 121/1994 um neytendalán.

    4. Hæstiréttur átti að vísa málinu frá eða að minnsta kosti draga fram atriði er varða neytendavernd sem ekki voru höfð uppi:  Samkvæmt niðurstöðu Evrópudómstólsins í málum C-240/98 til C-244/98, almennt vísað til sem Océano, kemst dómstóllinn að því að brotinn hafi verið réttur á neytandanum, þegar málið var sótt í Barcelona en ekki þar sem varnarþing neytandans var.  Þessi niðurstaða kemur einnig fram í máli C-473/00 Cofidis.  (Varnarþing lántakans í máli nr. 471/2010 var á Akureyri.)  Í máli Océano segir Evrópudómstóllinn auk þess í 26. mgr. úrskurðarins (fengið úr BS ritgerð Aðalsteins Sigurðssonar) "að markmiði 6. gr. tilskipunar 93/13, að tryggja að óréttmætir skilmálar í neytendasamningum séu ekki bindandi fyrir neytendur, verði ekki náð ef neytandinn sjálfur er gerður ábyrgur fyrir því að vekja athygli dómstóls á óréttmæti samningsákvæða" og síðan segir Aðalsteinn:  "Það sé því tilhlýðileg aðferð til að ná markmiðum 6. gr. tilskipunarinnar og 7. gr. hennar að dómstólar meti að eigin frumkvæði réttmæti skilmála neytendasamningum. (28. mgr. úrskurðarins)  Siðan má velta fyrir sér áhrifum Luganosamningsins og fordæmisgildi úrskurða Evrópudómstólsins hér á landi.   (Ég fjallaði ekki um innihaldi þessa liðar í erindinu í dag.)

  2. Dómur nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012 kveður úr um "að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar."  Er hægt að hafa þetta skýrar?  Eingöngu má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar.  Þetta er að mínu mati niðurstaða Hæstaréttar.  Allt tal um fullnaðarkvittanir, greiðslur, gjalddagatilkynningar, að lántaki sé í skilum og allt það, er hluti af rökleiðslu dómsins, en niðurstaðan er að eingöngu má leiðrétta rangan lagaskilning til framtíðar.  Vakti ég athygli á því að hvorki LEX lögmannsstofa né Sigurjón Högnason (sem hélt erindi hjá KPMG í gær, vísað til umfjöllunar á mbl.is) vöktu athygli á þessu atriði, en eyddu löngu máli í rökleiðslu Hæstaréttar.

Erindið var með spurningum nærri því tvær og hálf klukkustund.  Spunnust oft góðar umræður og vona ég að allir hafi skemmt sér vel.

Glærurnar sem ég notaði í dag hanga við þessa færslu.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu: