Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.4.2012. Efnisflokkur: Lánasöfn, Leiðrétting, Skuldaúrræði
Eitt er það FME og aðrir opinberir aðilar eru orðnir ansi góðir í. Það er að velja orð, þannig að hægt sé að fela sannleikann. Minnisblaðið sem FME gaf út vegna áhrifa af dómi Hæstiréttar í máli nr. 600/2011 er engin undantekning frá þessum orðaleik. Eins og ég segi í nýlegri facebook færslu:
Mér sýnist FME vera í orðaleik. Minnisblaðið miðar við hve mikið kröfuvirðið lækkar niður fyrir bókfært virði. Ekki hve mikið kröfuvirðið lækkaði, en hægt er að ráða það af orðum FME að kröfuvirðið í árslok 2011 hafi verið talsvert umfram bókfært virði. Tjón fjármálafyrirtækjanna er því 165 ma.kr. plús mismunurinn á kröfuvirði og bókfærðu virði 31/12 2011 og átti þessi mismunur að vera uppistaðan í hagnaði bankanna næstu árin.
Samkvæmt upplýsingum í minnisblaðinu var bókfært virði þeirra lána sem FME telur falla undir dóminn frá 15. febrúar um 668 ma.kr. hinn 31.12.2011. Já, bókfærða virðið er þetta, en síðan segir FME að kröfuvirðið muni lækka um 165 ma.kr. niðurfyrir þetta bókfærða virði. Áhugavert væri að vita hvert kröfuvirðið var um áramót, því það er munurinn á kröfuvirðinu þá og kröfuvirðinu núna sem skiptir máli.
Þessi aðferð að tala um bókfært virði í stað kröfuvirðis hefur áður verið notuð. Það var í svari FME til nefndarsviðs Alþingis hinn 27. júlí 2010. Þá var tilgreint að bókfært virði lána fyrirtækja hefði verið hinn 31.03.2010 840,9 ma.kr., húsnæðislán einstaklinga voru upp á 78,5 ma.kr., bílalán einstaklinga voru 61,4 ma.kr. og önnur lán einstaklinga voru 45,7 ma.kr. eða alls 1.026,5 ma.kr. Ég hef ekki á reiðum höndum upplýsingar um hvað fjármálafyrirtækin segjast hafa lækkað lán fyrirtækja mikið, en í upplýsingum á heimasíðu Samtaka fjármálafyrirtækja, þá hafa þau fært niður bílalán einstaklinga um 38,5 ma.kr. um síðustu áramót og fasteignalán þeirra um 108 ma.kr. eða alls um 146,5 ma.kr. Vissulega hafa einhverjir vextir lagst á þessi lán frá 31.03.2010, en ef við drögum 108 ma.kr. frá 78,5 ma.kr. þá kemur í ljós að fjármálafyrirtækin hafa lækkað gengistryggð fasteignalán heimilanna um 29,5 ma.kr. meira en nam bókfærðu virði þeirra meðan þau voru ennþá gengistryggð, báru gengistryggða vexti og voru reiknuð út samkvæmt uppsprengdu gengi.
Kannski er best ég setji þetta upp á skýrari hátt:
Samkvæmt þessu er búið að leiðrétta lán sem voru bókfærð á 140 ma.kr. hinn 31. mars 2010 um 146,5 ma.kr. og þegar lán sem bókfærð voru á 45,7 ma.kr. og vöxtum er bætt við þau lán sem eru í bókum fjármálafyrirtækjanna, þá var bókfært virði þeirra samt upp á 117,5 ma.kr. um síðustu áramót.
Sko, ef ég dreg 146,5 ma.kr. frá 185,6 ma.kr. þá fæ ég út mismun upp á 39,1 ma.kr.
Greinilegt er að stærsti hluti "niðurfærslu" fjármálafyrirtækjanna á áður gengistryggðum lánum einstaklinga/heimilanna hefur átt sér stað á heim hluta lánanna sem telst munurinn á bókfærðuvirði og kröfuvirði. Aðeins 46,5% niðurfærslunnar hefur samkvæmt þessu komið fram í þeim hluta lánanna sem færður er sem eign hjá fjármálafyrirtækjunum, en 53,5% eru tekin af tölu sem hvergi kemur fram opinberlega heldur er hluti af rassvasabókhaldi fyrirtækjanna. Ætli slíkt rassvasabókhald standist alþjóðlega reikningsskilastaðla?
Nú vil ég skora á fjármálafyrirtækin og samtök þeirra að hætta að ljúga að almenningi í landinu. Segið okkur satt og rétt frá því hver er bókfærð staða áður gengistryggðra lána, hvert er kröfuvirði þeirra, hvað hafa fyrirtækin fært kröfuvirðið niður um mikið ársfjórðung fyrir ársfjórðung frá yfirtöku lánanna og hve mikil er niðurfærslan á bókfærða virði lánanna. Loks mættu þau segja okkur hvernig bókfærða virðið er fengið, hvernig kröfuvirðið er fengið og hve stór hluti meintrar niðurfærslu er í raun og veru afskrift sem átti sér stað hjá hrunbönkunum, þ.e. Glitni, Kaupþingi og Landsbanka Íslands. Er til of mikils ætlast að bankarnir segi okkur sannleikann?