Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 15.4.2012.
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur birt minnisblað um hugsanleg áhrif dóms Hæstaréttar nr. 600/2011 frá 15. febrúar sl. Samkvæmt frétt á visir.is er niðurstaðan ótvíræð:
Fjármálaeftirlitið (FME) telur að áhrif gengislánadóms Hæstaréttar frá 15. febrúar síðastliðnum og endurreikningar lána vegna hans ógni ekki fjármálastöðugleika.
Samkvæmt minnisblaði FME þá gætu áhrifin af dómnum líklegast orðið til þess að kröfuvirði áður gengistryggðra lána lækkaði um tæplega 165 ma.kr. miðað við bókfært virði þeirra 31.12.2011. Einnig kemur fram að bankarnir hafi þegar lækkað lánin um 70,5 ma.kr. og líklegt er að 94,5 ma.kr. muni bætast við þegar öll kurl eru komin til grafar. Af þessum 165 ma.kr. þá eru 46,8 ma.kr. endurgreiðslur sem þurfa að eiga sér stað, en 118,1 ma.kr. leiðir til lækkunar á bókfærðu virði opinna samninga. Auk þess kemur fram að ríflega 31,1 ma.kr. er vegna lána einstaklinga, en tæplega 133,8 ma.kr. vegna lána lögaðila.
Nú verð ég að viðurkenna, að ég veit ekki hverju skal trúa. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fjármálafyrirtækja, þá var búið að niðurfæra lán einstaklinga vegna gengisdóma um 145,5 ma.kr. um síðustu áramót. Ekki var gefið upp hver niðurfærsla lána fyrirtækja var mikil, en gera má ráð fyrir að sú tala hlaupi ekki á lægri tölu og líklegast mun hærri. Núna bætast við allt að 165 ma.kr., þannig að ekki er óvarlegt að áætla að niðurfærsla vegna gengisdóma sé vel yfir 500 ma.kr. og bara vegna heimilanna upp á 176,6 ma.kr.
Í svari FME til nefndarsviðs Alþingis frá 27. júlí 2010 vegna spurninga frá viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd Alþingis, þá kemur fram að áhrif gengisdóma Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 sem gengur 16. júní 2010 gætu orðið 347,7 ma.kr. ef miðað væri við að samningsvextir héldust á lánunum, en 142 ma.kr. ef óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands kæmu á lánin. Þá var að mat efnahags- og viðskiptaráðherra, FME og Seðlabankans að hærri talan myndi valda of þungu höggi á bankakerfi, ef samningsvextir héldust, eða eins og haft var eftir Gylfa Magnússyni í Morgunblaðinu 25. júní 2010:
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, telur að fjármálakerfi landsins muni vart þola áfallið ef allt fer á versta veg frá sjónarhóli lánveitenda hvað varðar gengistryggð lán í íslenskum krónum.
Og síðan eru það tilmæli FME og SÍ frá 30. júní 2010 en í þeim segir:
Tilmælunum er ætlað að skapa festu í viðskiptum á fjármálamarkaði og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Stöðugleiki fjármálakerfisins eru mikilvægir almannahagsmunir sem Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að standa vörð um. Með tilmælunum eru þessar eftirlitsstofnanir að sinna lagaskyldu sem á þeim hvílir.
Tilmælin byggja á þeirri afstöðu fyrrgreindra eftirlitsstofnana að hvorki séu lagaleg né efnahagsleg rök fyrir því að vaxtakjör sem áður tóku mið af erlendum millibankavöxtum haldist áfram eftir að tenging þess hluta höfuðstólsins sem bar slíka vexti við viðkomandi gjaldmiðil hefur verið rofin með dómi Hæstaréttar. Eftirlitsstofnanirnar telja að slík túlkun á niðurstöðu Hæstaréttar, væri hún framkvæmd til hins ýtrasta, fæli í sér svo stórt högg á eigið fé fjármálafyrirtækja að ríkissjóður þyrfti að leggja þeim til umtalsvert nýtt fé. Það er kostnaður sem aðrir samfélagsþegnar bera á endanum.
Takið sérstaklega eftir þessu:
Eftirlitsstofnanirnar telja að slík túlkun á niðurstöðu Hæstaréttar, væri hún framkvæmd til hins ýtrasta, fæli í sér svo stórt högg á eigið fé fjármálafyrirtækja að ríkissjóður þyrfti að leggja þeim til umtalsvert nýtt fé.
Já, fyrir tæplega 22 mánuðum, þá var talið að lækkun vaxta upp á 347,7 ma.kr. í stað 142,0 ma.kr.fæli í sér svo stórt högg á eigið fé fjármálafyrirtækja að það skerti getu þeirra til að starfa sem fjármálafyrirtæki. En núna er 165 ma.kr. högg ekki talið ógna fjármálastöðugleika. Kannski eru það þessir 35 ma.kr. sem skipta öllu máli!