Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.3.2012. Efnisflokkur: Gengistrygging, Kröfuréttur
Laugardaginn 25. febrúar hélt ég erindi í Grasrótarmiðstöðinni um gengisdóma Hæstaréttar. Erindið var tekið upp og hefur Rakel Sigurgeirsdóttir klippt það til og birt á vefnum. Langar mig að birta upptökuna hér og fjalla lítillega um hvern hluta.
I. Nokkrir tímamótadómar Hæstaréttar frá hruni fram til dóms nr. 600/2011
Í fyrsta hlutanum kynni ég helstu dóma sem fallið hafa um gengistryggða láns- og leigusamninga. Flesta tel ég vera mjög skýra og rökrétta, en einn tel ég vera á mörkunum að standast og annan tel ég hreinlega vera rangan, þ.e. vaxtadóminn nr. 471/2010 frá 15. september 2010. Eftir um 8 og hálfa mínútu byrja ég svo að fjalla um dóm nr. 600/2011. (Ath. ég misrita númer dómsins í yfirskrift á glærum, en dómurinn er nr. 600/2011, en hvorki 600/2012 né 600/2010.)
Hér er svo yfirlit yfir dóma bæði héraðsdóms og Hæstaréttar sem gengið hafa og ég veit af:
Hæstiréttur
hrd. 92/2010 frá 16. júní 2010
hrd. 153/2010 frá 16. júní 2010
hrd. 315/2010 frá 16. júní 2010
hrd. 317/2010 frá 16. júní 2010
hrd. 347/2010 frá 16. júní 2010
hrd. 471/2010 frá 16. september 2010
hrd. 603/2010 frá 14. febrúar 2011
hrd. 604/2010 frá 14. febrúar 2011
hrd. 30/2011 frá 8. mars 2011
hrd. 31/2011 frá 8. mars 2011
hrd. 155/2011 frá 9. júní 2011
hrd. 282/2011 frá 20. október 2011
hrd. 600/2011 frá 15. febrúar 2012
Héraðsdómur
E-4501/2009 frá 3. desember 2009
E-7206/2009 frá 12. febrúar 2010
Z-4/2009 frá 23. mars 2010
X-35/2010 frá 30. apríl 2010
A-10/2010 frá 18. maí 2010
E-8546/2009 frá 30. júní 2010
E-4787/2010 frá 23. júlí 2010
E-4029/2009 frá 17. ágúst 2010
X-97/2009 frá 28. september 2010
X-93/2009 frá 29. september 2010
E-260/2010 frá 29. október 2010
A-79/2010 frá 15. nóvember 2010
E-771/2010 frá 30. nóvember 2010
E-1998/2010 frá 21. janúar 2011
E-2770/2010 frá 21. janúar 2011
E-2769/2010 frá 21. janúar 2011
E-5215/2010 frá 18. febrúar 2011
X-559/2010 frá 23. febrúar 2011
X-19/2010 frá 4. mars 2011
E-573/2009 frá 30. mars 2011
E-2070/2010 frá 8. apríl 2011
X-77/2011 frá 15. apríl 2011
X-532/2010 frá 19. apríl 2011
E-146/2010 frá 24. júní 2011
Við þennan lista af héraðsdómum væri hægt að bæta við helling af dómum sem snúið hefur verið af síðari Hæstaréttardómum.
II. Dómur númer 600/2011
Í þessari klippu er eingöngu fjallað um dóm nr. 600/2011 og ekkert annað. Legg ég mikla áherslu á muninn á rökleiðslu og niðurstöðu. Tel ég t.d. niðurstöðuna vera að rangur lagaskilningur verði bara leiðréttur til framtíðar og skipti þá ekki máli hvort viðkomandi lántaki hafi fullnaðarkvittun í höndunum eða ekki.
III. Þýðing dómsins og álit Sigurjóns Högnasonar og lögmanna LEX
Í þessum hluta byrja ég að fjalla um þýðingu dómsins, þ.e. hver eru áhrif hans á lántaka. Hvað á lántaki að greiða, hvað á hann ekki að greiða, hvaða upphæðir koma til lækkunar á höfuðstóli og hvaða upphæðir hafa ekki áhrif á eftirstöðvar og þar með framtíðar. Höfum í huga að þetta er mín sýn á niðurstöðu dómsins, en ég tel líkur á því að lántakar eigi jafnvel betri rétt þegar öll kurl verða komin til grafar.
Daginn áður en erindið var flutt hafði KPMG verið með fund um dóminn þar sem Sigurjón Högnason, lögfræðingur (og líklegast starfsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja), hafði greint frá sinni skoðun á fordæmisgildi dómsins og sama dag sendi LEX lögmenn frá sér álitsgerð unna að beiðni SFF. Fjalla ég um skoðun Sigurjóns og álit LEX sem mér finnst hvorutveggja vera nokkuð halt undir fjármálafyrirtækin. Örfá orð af þessari umfjöllun flæða yfir í byrjun hluta IV.
IV. Var Hæstiréttur blekktur og þá hvernig
Hér byrja ég að fjalla um muninn á mismunandi túlkunum, þ.e. hvað kostar mismunandi túlkun. Tölurnar eru svakalegar, mun hærri en bankarnir hafa viljað viðurkenna. Yfirleitt hafa bankarnir laumað inn frétt ef tölur eru út úr kú, en nú er það ekki gert. Þeir hafa þegar viðurkennt að dómar Hæstaréttar hafi kostað þá um 200 ma.kr. og spurningin er bara hve mikið á eftir að koma upp úr hattinum.
Alvarlegast finnst mér þó hve Hæstiréttur lét blekkjast í máli nr. 471/2010 og byrja ég að fjalla um það í þessum hluta.
V. Grunnvillur í rökleiðslu Hæstaréttar og ábyrgð Lýsingar
Í þessum hluta held ég áfram með það sem ég kalla grunnvillur í rökleiðslu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Mest púður fer í að fjalla um hvers vegna Hæstiréttur mátti ekki samkvæmt lögunum dæma "seðlabankavexti" á gengistryggðu lánin, þ.e. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu setja mjög strangar skorður á það hvenær nota má ákvæði II. kafla laganna, þ.e. "því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venjum eða lögum." Samkvæmt þessu mátti Hæstiréttur ekki dæma seðlabankavexti á áður gengistryggð lán. Svo einfalt er það.
Stærsta ruglið í þessu öllu er þó hvernig stóð á því að mál nr. 471/2010 skyldi yfirhöfuð hafa orðið að örlagavaldi þeirra lántaka sem tekið höfðu lán með ólöglegri gengistryggingu. Er það þvílík steypa og frekja að hálfa væri nóg.
VI. Kvörtunin til þriggja stofnana ESB
Byrjað er að benda á að Frjálsi fjárfestingabankinn hafi dregið til baka í febrúar 2011 áfrýjun á því atriði sem dæmt var um í febrúar 2012.
Loks er fjallað um kvörtun lánþega til ESA, Evrópuþingsins og framkvæmdarstjórnar ESB.
Hugsanlega eiga fleiri bútar eftir að bætast við og verða þeir líka birtir hér ef svo verður.