Birt á Moggablogginu 24.3.2012 - Efnisflokkur: Hugleiðing
Upp á síðkastið hafa komið upp atvik og fram ummæli sem ég verð nú bara að segja, að valda óhug hjá mér. Þegar háttsemin eða ummæli eru borin upp á viðkomandi, þá er svarið "Djók, ég var bara að fíflast" eða eitthvað í þessa áttina. Ef það er ekki húmor, þá er sagt að umræðan hafi átt sér stað á lokaðri vefsíðu, viðkomandi hafi verið sofandi, klassískt er "hún vildi þetta, en vissi það bara ekki" og nú síðast sá ég afsökunina "þú verður að skilja í hvaða samhengi þetta var sagt".
Með þessu eru menn (og konur) að réttlæta nauðganir, tilraunir til nauðgana, ósmekklegar vefsíður, tilraunir til mannráns og hugsanlega hópnauðgun, ósmekkleg ummæli, morðhótanir og hvað það nú var sem fólki datt í hug. Þessi svarti húmor sem virðist tröllríða samfélaginu er greinilega farinn að ganga lengra en í gamla daga. Þá var svarta húmornum beint gegn einhverjum sem maður þekkti. Í dag snýst þetta um ókunnuga einstaklinga. Ung stúlka á gangi á Fríkirkjuvegi, þeir sem lesa upp Passíusálma, femínistar eða ekki femínistar.
Svartur húmor er ekki húmor nema gagnvart einstaklingi sem maður þekkir og veit að getur tekið gríninu. Um leið og honum er beint gegn ókunnugum án þess að viðkomandi skilji samhengið, þá er það ekki húmor. Það heitir meinfýsni, árás, ærumeiðin, hótun, siðbrot eða eitthvað í þá áttina. Þeir sem ekki skilja þess línuna milli svarts húmors í hópi vina og svarts húmos sem beint er gegn ókunnugum eru í vondum málum.
Tilefni skrifa minna eru tvær fréttir í vefmiðlum í dag og í gær. Fyrri er um fávita sem töldu það saklaust grín að þykjast ætla að draga með valdi unga stúlku inn í bíl fullan af ungum karlmönnum. Þessi stúlka var svipt öryggi sínu í mjög langan tíma. Hún mun líklegast aldrei aftur þora að ganga ein um miðbæ Reykjavíkur að kvöldi til. Ég er ekki einu sinni viss um að ég myndi vilja að eldri dóttir mín gerði það og er ég viss um að fleiri hugsa eins. Sagt er að þetta hafi hugsanlega verið gert í gríni. Er það víst? A.m.k. eru viðkomandi svo miklir heiglar að þeir þora ekki að gefa sig fram við lögreglu og hvað þá að biðja stúlkuna afsökunar á athæfi sínu. Bjó kannski eitthvað annað að baki?
Hin er umfjöllun Eiríks Jónssonar um ummæli Egils Ólafssonar, formanns Vantrúar, á vef félagsins fyrir fjórum vikum, þar sem Egill segir: "Til að taka af öll tvímæli þá vill ég láta banna Passíusálmana. Og ekki bara það, ég vil taka alla þá sem hafa tekið þátt í flutningi þeirra af lífi." Þessi orð sem dæma sig sjálf hafa leitt til viðbragða frá konu sem hefur lesið Passíusálm í útvarpi, en hún segir að kannski sé best að leita eftir "pólitísku hæli í Kaupmannahöfn", eins og Eiríkur setur það fram. Viðbrögðin láta ekki á sér standa og Eiríkur og hugsanlega viðkomandi kona eru sökuð um húmorsleysi.
Hann er orðinn merkilegur þessi "húmor" í dag, þar sem bara "innvígðir og innmúraðir" skilja brandarana en þó er þeim beint gegn einstaklingum sem ekki eru "innvígðir og innmúraðir". Málið er að þó þetta séu brandarar í huga þess sem lætur vitleysuna út úr sér eða framkvæmir hlutinn, þá er þetta langt frá því að vera fyndið í huga þess, sem vitleysunni er beint að. Það vill svo til að hópnauðganir eru allt of algengar hér á landi. Stúlka á gangi á Fríkirkjuvegi sem reynt er að draga af bláókunnugum inn í bifreið á ferð getur ekki búist við neinu öðru en að tilgangurinn hafi verið að nauðga henni. Morðhótanir settar fram í "gríni" eru ekki grín fyrir þann sem "gríninu" er beint að, ef ekkert bendir til þess að um grín sé að ræða. Einn broskarl hefði dugað til að breyta skilaboðunum á augabragði.
Nú hef ég ekkert upp á Vantrú að klaga annað en einhliða málflutning, en hann er þeirra réttur. Ég veit ekki betur en að innan Vantrúar sé þverskurður af þjóðfélaginu, þ.e. fólk í alls konar stöðu. Það þýðir að "grínhótun" frá Vantrú er jafnmikið "grín" og frá einstaklingum í kristnum söfnuði, múslima, hindúa eða búddista.
Áður en hér hellist yfir fólk haldið heilagri reiði, þá er punktur minn í þessu öll:
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.