Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.3.2012.
Nú er fyrstu viku Landsdómsins lokið og heilmargt hefur verið sagt. Menn segja sína sögu sem nánast alltaf er eitthvað stílfærð. Af þeim framburðum sem ég hef komist í að kynna mér, þá held ég að aðeins ein manneskja hafi komið fyrir dóminn og sagt satt og rétt frá án stílfærslu, þ.e. hún sagði nákvæmlega frá hlutunum eins og þeir gerðust á hennar vakt. Þessi manneskja er Sylvía Kristín Ólafsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður viðbúnaðarsviðs Seðlabanka Íslands. Allir aðrir framburðir segja, að mínu áliti, breytta sögu af því sem gerðist, oftast til að beina ábyrgðinni frá sér.
Þessi færsla er þó ekki um hvernig menn kjósa að muna liðinn tíma. Hún er heldur ekki um Landsdóm. Og þess síður um kærur á hendur Geir. Hún er um þann þvergirðingshátt sem fólst í því að grípa ekki til aðgerða til að lina fallið. Hún er um þá sjálfsögðu kröfu til mikilvægra fyrirtækja og stofnana í þessu þjóðfélagi, að þau undirbúi sig fyrir hið "ófyrirséða".
Framburður Sylvíu
Mig langar að vitna í Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur, eins og mbl.is hefur eftir henni:
Kem inn í SÍ eftir að míníkrísan 2006 kom til. Í nóvember 2007 gerðum við okkur grein fyrir þessari hættu. Vorum að gera lausafjárpróf og álagspróf. Stigmagnaðist eftir því sem fram leið á árið 2008.
Rijfar upp að það var gerð viðlagaæfing hjá stjórnvöldum 2007. „Það var talað um það þannig að við ættum að undirbúa okkur undir áfallið eins og það gæti gerst... Markaðsfjármögnunin var veikur punktur hjá bönkunum á þessum tíma. Markaðarnir voru þeim nær lokaðir.“
Kvaðst þekkja til starfa [samráðs]hópsins úr fjarlægð. Var kölluð til af fólki í fjármálaráðuneytinu og tók þátt í gerð sviðsmynda. Gerir ráð fyrir að þessi sviðsmyndagerð hafi ratað inn í samráðshópinn. Sagði þar hafa verið rædda valmöguleika sem væru tiltækir ef til fjármálaáfalls kæmi. „Það varð snemma ljóst að úrræðin og kostirnir voru fáir og enginn þeirra góður í raun og veru,“ sagði Sylvía Kristín. Sagði það svo hafa verið vilja sinn að til yrði kallaður aðgerðahópur því samráðshópurinn hafi frekar verið umræðuvettvangur. „En það var kannski auðveldara í orði en á borði að koma með hugmyndir á þessu stigi málsins.“
Kveðst ekki hafa litið á það sem hlutverk samráðshópsins að leggja fram viðbúnaðaráætlun. „Fyrst fannst mér það vanta... en svo sáum við að heimildir hans til slíks voru ekki til staðar.“
Segir að út frá störfum sínum hjá slökkviliðinu sé það ljóst að allt snúist ekki um viðlagaáætlun heldur frekar það að menn séu vanir að vinna saman. Lýsti svo yfir athugasemdum með að viðbragðsáætlun hefði skilað miklu.
Sigríður spurði út í viðbúnað við greiðslumiðlun og lýsti Sylvía Kristín þá því yfir að hún teldi að þrekvirki hefði verið unnið í Seðlabankanum við að tryggja hana í hruninu.
„Það voru allir komnir að borðinu eftir Glitnishelgina og þá er málið komið úr höndum Seðlabankans,“ sagði Sylvía Kristín um hina örlagaríku helgi.
Auðvitað veit ég ekkert hvort hún sé að segja alveg satt og rétt frá, en út frá mínum störfum á sama sviði, þá er lógík í hinum tilvísuðu orðum.
Greinilegar gloppur í ferlinu
Þegar farið er yfir framburð Sylvíu þá sjást vel gloppurnar sem virðast hafa verið í ferlinu. Stærsta gloppan er: Hvar voru bankarnir?
Já, Seðlabankinn og ráðuneytin voru í vinnu við að undirbúa hugsanlegt hrun fjármálakerfisins. Byrjað var að vinna við þetta eftir "míníkrísuna" 2006, en hvers vegna var ekki gerð krafa um að bankarnir færu í svona vinnu á sama tíma. Af hverju áttu stjórnvöld að undirbúa sig, en ekki bankarnir?
Svo vill til að ég á örlitla aðkomu að þessu máli frá hlið eins bankans. Hún felst í því að haustið 2005 veitti ég Landsbanka Íslands hf. ráðgjöf á svið stjórnunar rekstrarsamfellu. Vissulega sneri verkefnið til að byrja með að upplýsingatæknimálum og síðan að erlendum dótturfyrirtækjum og útibúum bankans, en hugmyndir voru uppi um að skoða innlenda starfsemi út frá því að tryggja samfeldan rekstur einstakra útibúa og þar með aðalbankans. Búið var að safna miklum upplýsingum um erlendu starfsemina, þegar verkefninu var frestað vegna þess að önnur þóttu brýnni. Þráðurinn var tekinn upp í ágúst 2008, en þá var einfaldlega of stuttur tími til stefnu.
Bankarnir voru ekki með
Ef Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlit og stjórnvöld hefðu skikkað bankana út í sömu vinnu og Sylvía var ráðin til hjá Seðlabanka Íslands, þá er ég viss um að margt hefði farið á annan veg. Ég held nefnilega að það sé algjört kjaftæði sem komið hefur fram í framburði mjög margra fyrir Landsdómi, að ekki hafi verið hægt að bjarga bönkunum. Hvernig vogar fólk sér að segja þetta, þegar fyrirliggur hið augljósa: Ekki var gerð nægilega alvarleg tilraun til þess og það sem mestu skiptir. Bankarnir sjálfir voru ekki þátttakendur í þessari tilraun.
Þetta er náttúrulega alveg stórmerkilegt. Hugmyndin er að bjarga fjármálakerfi landsins, en fjármálakerfið er ekki haft með í undirbúningnum svo nokkru nemur! Það var nefnilega með í áætlun vegna fuglaflensu.
Hvaða vinna er í gangi núna?
Í ljósi sögunnar væri áhugavert að vita hvaða vinna við viðbragðsáætlanir er í gangi núna. Ég tek eftir því að Sylvía Kristín Ólafsdóttir er flutt til Luxemborg. Vona ég að einhver hafi tekið við keflinu af henni. Um daginn kom út skýrsla almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um ógnir og hættur auk yfirlits yfir áhættumat fyrir grunninnviði Íslands. Að baki skýrslunni er örugglega heilmikil vinna sem ekki er ætluð almenningi, en aftur spyr ég: Hvar eru fjármálafyrirtækin sjálf?
Fyrir um 30 mánuðum átti ég fund með Birnu Einarsdóttur vegna skulda heimilanna og stjórnun rekstrarsamfellu barst í tal. Ég hvatti hana til að láta þau mál vera hluta af endurreisn bankans. Þ.e. ekki endurreisa bankann nema fara strax í að skilgreina úrræði sem ættu að styrkja innviði bankans og koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Að hennar ósk sendi ég henni efni og vona að það hafi komið bankanum að einhverjum notum.
Um það leiti þegar Höskuldur H. Ólafsson tók við hjá Arion banka var ég á fullu að vinna m.a. neyðarhandbók fyrir VALITOR með viðbragðsáætlunum og síðan hafa bæst við endurreisnaráætlanir. Ég veit því að Höskuldur er mjög meðvitaður um þessa hluti. Sama á við um yfirmann áhættustýringar hjá bankanum, Gísla Óttarsson. Ég vona bara að þeir hafi þetta nógu ofarlega á forgangslista hjá sér.
Landsbanki Íslands var eini bankinn sem var byrjaður á þessum málum fyrir hrun (svo ég best veit), en öryggisstjórinn þeirra þá er farinn til annarra verka. Þekki ég ekki til hvernig þessum málum er háttað hjá þeim núna. Aftur vona ég að þessi mál séu nógu ofarlega á lista hjá nýjum stjórnanda.
Búið ykkur fyrir hið "ófyrirséða"
Menn geta ekki leyft sér að fljóta aftur sofandi að feigðarósi. Þó við fáum vonandi ekki sams konar hrun aftur, þá mun eitthvað annað áfall dynja yfir. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær. Síðasta áfall kostaði eigendur, kröfuhafa og þjóðfélagið örugglega yfir 10.000 milljarða. Hluta af þessu hefði mátt koma í veg fyrir með því að leggja innan við 100 milljónir í forvarnavinnu. Það er ákaflega lítil upphæð miðað við tjónið sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.
Þetta á ekki bara við um bankana. Hér á landi eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem eru þjóðhagslega mikilvæg. Gera á þá afdráttarlausu kröfu til þeirra, að áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu sé háttað þannig, að þau lifi af áföll og ekki bara það, að þau komist nokkuð klakklaust út úr öllum helstu áföllum sem yfir þau geta dunið. Slíkt gerist ekki nema menn hafi unnið heimavinnuna. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á ekki að sjá um þá vinnu fyrir þessi fyrirtæki og stofnanir. Deildin á aftur að skilgreina úrræði og viðbrögð, ef áætlanir fyrirtækjanna og stofnananna reynast ekki fullnægjandi, t.d. ef áhrif af atburði eru hreinlega svo mikil að ekki er hægt að ætlast til þess að einstök fyrirtæki eða stofnanir ráði við afleiðingarnar.
Svona að lokum. Það er ekkert til sem heitir ófyrirséð. Eingöngu atburðir sem við höfum ekki lagt okkur fram við að láta okkur detta í hug. Atburðir geta verið óvæntir, ólíklegir og hvað það nú er sem dregur úr áhuga okkar að skoða þá, en ekkert er ófyrirsjáanlegt! EKKERT!