Þetta átti ekki að koma á óvart, en er skynsamlegt að draga að greiða?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.3.2012. Efnisflokkur: Skuldir þjóðarbúsins

Merkilegt að það komi stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands á óvart að færa þurfi íslenskar eignir hrunbankanna yfir í erlendan gjaldmiðil.  Þetta hljómar pínulítið svoleiðis.

Héldu menn virkilega að þessir peningar myndu bara liggja inni á reikningum? 

Samantektin á innlendum eignum hrunbankanna í greinargerðinni með frumvarpinu um breytingu á lögum um gjaldeyrishöftin sýna að þær eru alls 1.166 ma.kr.  Inni í þeirri tölu er skuldabréf sem Landsbankinn þarf að greiða Landsbanka Íslands.  Af þessum 1.166 ma.kr. þarf að greiða erlendum kröfuhöfum 783 ma.kr., sem er "aðeins" 47% af vergri þjóðarframleiðslu.  Á móti kemur að erlendar eignir þrotabúanna nema 1.702 ma.kr. og menn hafa fengið út að 254 ma.kr. af þeirri upphæð renni til innlendra kröfuhafa.  (Af hverju draga menn ekki 254 ma.kr. frá 783 ma.kr. og segja einfaldlega að greiða þurfi 519 ma.kr. út úr landinu?)

Fyrir utan þessa upphæð er fleira misjafnlega þolinmótt fjármagn erlendra aðila sem vill líklegast úr landi á næstu árum.  Vegur þar náttúrulega þyngst endurgreiðslur á lánum frá AGS og öðrum sem lögðu til pening í gjaldeyrisvarasjóðinn.

Gjaldeyrisforði þjóðarinnar var 1.081 ma.kr. 31. janúar sl., þar af 957 ma.kr. í SDR körfu og 124 ma.kr. utan þessarar körfu.  (Samsetning körfunnar er ákveðin af AGS til 5 ára í senn.)  Strangt til tekið væri hægt að nota þessa peninga til að losa um gjaldeyrishöftin.  Slíkt hefði þó mikið rask í för með sér í formi gríðarlegrar gengislækkunar.  Spurningin er bara hvort það sé ekki nákvæmlega það sem við þurfum.

Ég lagði það til í nóvember 2008, að búinn yrði til tveggja vikna gluggi upp úr miðjum janúar 2009, þar sem öllum, sem vildu fara, yrði hleypt með fjármuni sína úr landi.  Skilyrðið væri bara að þeir yrðu að fara á því gengi sem þá væri í boði.  Síðan í lok tímabilsins yrði genginu handstýrt í sama gildi og það stóð í áður en glugginn opnaðist.  Ég held ennþá að þetta hefði verið góður kostur.  Eina sem þurfti að gera samhliða þessu var að taka úr sambandi verðtrygginguna, þannig að losun fjármagns úr landi kæmi ekki niður á skuldum heimilanna.  Ástæðan fyrir því að ég lagði til seinni hluta janúar var að þá er yfirleitt minnstur innflutningur til landsins.

En þetta var ekki gert og í staðinn erum við með gjaldeyrishöft þremur árum síðar, höfum látið eignir útlendinga hér á landi safna vöxtum sem í sumum tilfellum nema um og yfir þriðjungi af höfuðstóli skuldanna og höfuðstóll skuldanna er enn fastur.  Tær snilld!  Eftir því sem peningarnir eru fastir hér lengur á flottum vöxtum og með gjaldeyrishöftum, þá þurfa eigendur þeirra svo sem ekkert að kvarta.  Ef allt gengur upp og krónan styrkist, þá fá þeir fleiri evrur, dollara, pund, franka og jen fyrir krónurnar sínar, en ef því opnuðum allt upp á gátt og hleyptum þeim úr landi með gengisvísitöluna í 350.  Önnur aðferð er að nota grísku leiðina, þ.e. hleypa þeim út með helminginn gegn því að þeir felli hinn helminginn niður.

Höftin eru ekki að virka, eins og við viljum.  Viðurkennum það bara.  Afnemum þau með einu pennastriki, en kippum verðtryggingunni úr sambandi um leið.  Eina annað sem við getum gert er að taka upp aðra mynt og fá lán hjá viðkomandi seðlabanka svo hægt sé að skipta innlendum eignum erlendra kröfuhafa í nýju myntina.  Hugsanlega gætum við fiffað þetta sem rafpeninga, en það væri náttúrulega bara blekking.

Hvernig sem allt horfir við, þá verða gjaldeyrishöft hér þar til við tökum upp alþjóðlega viðurkennda mynt eða að viðskiptajöfnuður við útlönd helst lengi svo jákvæður, að hægt er að byggja upp góðan gjaldeyrisforða.  Ok, þar til við tökum upp alþjóðlega viðurkennda mynt, hvenær sem það verður.  (Gætum líka greitt AGS okurvexti á lánum frá sjóðnum í 20-30 ár og vonað hið besta.)

Færslan var skrifuð við fréttina: Stoppa útgáfu skuldabréfa