Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.39.2012. Efnisflokkur: Nýir bankar
Óhætt er að segja að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 telst tímamót. Ekki sá hluti sem snýr að því að fjármálafyrirtæki megi hafa samstarf, það er nú gegn um gangandi rugl í íslensku samkeppnisumhverfi sem verður að fara að stoppa. Nei, það eru hin ströngu skilyrði sem Samkeppniseftirlitið setur samstarfinu.
Í stuttu máli er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem hér segir (tekið af vef eftirlitsins):
Samkeppniseftirlitið heimilar fjármálafyrirtækjum afmarkað samstarf sem miðar að því að hraða úrvinnslu skuldamála sem varða gengisbundin lán, í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar sl.
Við ákvörðunina er horft til mikilvægis þess að hraða endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja. Er heimildin bundin ítarlegum skilyrðum sem lúta að formi og umgjörð samstarfsins og háttsemi bankanna í tengslum við úrvinnslu umræddra lána.
Áhersla er lögð á að neytendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar í ávinningi samstarfsins. Er leitast við að tryggja það með skilyrðum sem kveða á um þátttöku umboðsmanns skuldara í samráðinu og fulltrúa Neytendastofu og talsmanns neytenda einnig gert mögulegt að taka þátt. Einnig er sett það skilyrði að samstarfið bindi ekki hendur einstakra lánveitenda til þess að veita viðskiptavinum sínum betri kjör auk þess sem samstarfsaðilum er bannað að krefjast málskostnaðar í dómsmálum sem höfðuð verða í kjölfar samvinnunnar.
Ennfremur er það skilyrði sett að fjármálafyrirtækin fresti fullnustuaðgerðum vegna krafna sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar, meðan á samstarfinu stendur. Samstarfið er afmarkað að öðru leyti við fjármálafyrirtæki sem veitt hafa útlán sem fallið geta undir fyrrgreindan dóm Hæstaréttar og ber hverju þessara fyrirtækja að skipa fastan fulltrúa sem sinnir samstarfinu fyrir þeirra hönd. Jafnframt skal skrásetja samstarfið og halda gögn um fundi og ákvarðanir. Er með þessu reynt að girða fyrir að samstarfið leiði til víðtækara samráðs.
Tímamótin í þessari ákvörðun er aðkoma þeirra sem eiga að gæta hagsmuna neytenda að úrvinnslunni, að neytendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar í ávinningi samstarfsins, bannað er að krefjast málskostnaðar í dómsmálum (væri betra ef fjármálafyrirtækin bæru allan málskostnað) og frestun fullnustuaðgerða vegna krafna sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar nr. 600/2011 (betra ef næði til allra mála sem eru afleiðingar krafnanna, þar sem yfirdráttur á 10. veðrétti greiðist hugsanlega upp þegar krafa sem fellur undir dómin er gerð upp á lægri eftirstöðvum).
Ákvörðunin sigur Hagsmunasamtaka heimilanna
Ekkert fer á milli mála að hin ströngu skilyrði eru Hagsmunasamtökum heimilanna að þakka. Þau mótmæltu einhliða samstarfi og bentu á þá hættu sem það hefði í för með sér. Þau færðu rök fyrir því að aðilar sem bera eiga hagsmuni neytenda fyrir brjósti þurfi að koma að málinu. Síðast var það ekki gert og þá varð niðurstaðan ákaflega einhliða, svo ekki sé tekið sterkar til orða.
Örlítið um ákvörðunina
Þó ákvörðunin sé í flestum atriðum hið besta skjal þá eru nokkur atriði sem ég hnýt um. Ég hef þegar bent á tvö að ofan, þ.e. málskostnaðurinn og umfang fullnustu aðgerða.
Mér finnst eðlilegt að fjármálafyrirtækin borgi allan lögfræðikostnað vegna mála sem fara þarf hugsanlega í til að fá álitaefni útkljáð. Þau hafa lögfræðideildir bak við sig með oft marga lögfræðinga á launum. Eigi að gæta fullkomins jafnræðis í dómsmálum, þá þurfa lántakar að eiga sama möguleika á lögfræðiaðstoð. Tiltölulega fáir lögfræðingar hafa sérhæft sig í þessum málum og eru þeir oft í sjálfboðavinnu, þar sem skjólstæðingar þeirra hafa ekki burði til að greiða allan kostnað sem fellur til. Gera má ráð fyrir að lögfræðiskostnaður í einu máli hlaupi á nokkrum milljónum sé rétt að málum staðið. Eigi lántakar að fá réttláta málsmeðferð, þá verða þeir að hafa efni á aðstoð lögmanns sem getur undirbúið fullnægjandi vörn. Því finnst mér sanngjarnt að fjármálafyrirtæki taki á sig lögfræðikostnað lántakanna í prófmálum.
Varðandi að fresta fullnustuaðgerðum vegna krafna sem falla (hugsanlega/líklega) undir fordæmi dóms Hæstaréttar nr. 600/2011, þá megum við ekki gleyma því að í mörgum málum reyna fjármálafyrirtækin að sneiða hjá því að stefna vegna gengistryggðra lána og taka í staðinn mál sem hafa komið til sem afleiðing af hinum ólöglegu gengistryggðu lánum. Þannig er klassískt að taka fyrir yfirdráttarskuld, vanskil á verðtryggðu láni eða jafnvel að notað er tækifærið þegar fasteignagjöld eru í vanskilum til að láta ólögleg áður gengistryggð mál fljóta með. Í mjög mörgum tilfellum leiða vanskil á einu láni til annarra vanskila. Því er ekki hægt að skilja fullnustuaðgerðir vegna gengistryggðra lána frá fullnustuaðgerðum vegna annarra lána og segja að þetta séu óskyldir hlutir. Þetta er allt samhangandi og því þarf að hætta öllum fullnustuaðgerðum séu áður gengistryggð lán meðal vanskilaskulda viðkomandi skuldara.
Þriðja atriðið sem mér finnst athugunarvert eru eftirfarandi orð í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins:
Ljóst er að réttaróvissa hefur skapast í þjóðfélaginu í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 um endurútreikning lána sem fjármálafyrirtækin veittur (sic) lántakendum í erlendri mynt og getur Samkeppniseftirlitið því tekið undir nauðsyn þess að úr þeim verði skorið sem allra fyrst og með sem skilvirkustum hætti án þess þó að réttarstaða skuldara, neytandans, skerðist að nokkru leyti.
Ég hef aldrei geta skilið það, að dómur Hæstaréttar búi til réttaróvissu sem ekki var til fyrir. Það liggur í hlutarins eðli, að málinu var vísað til dómstóla vegna réttaróvissu. Hæstiréttur skar úr um þá réttaróvissu og henni var eitt. Þar með varð a.m.k. einni réttaróvissu færra.
Þetta orðalag Samkeppniseftirlitsins segir allt til um hvorum megin eftirlitið stendur í þessu máli. Það stendur með fjármálafyrirtækjunum. Hið sanna í þessu máli er, að dómur Hæstaréttar staðfestir að umtalsverð réttaróvissa var og er ennþá til staðar.
Ákvörðunarorð Samkeppniseftirlitsins
Mér finnst hér í lokin rétt að birta í heild ákvörðunarorð ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins í máli 4/2012. Er þau að finna neðst í því skjali sem ég vísa fremst í þessari færslu:
III.
Ákvörðunarorð:
Með heimild í 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 veitir Samkeppniseftirlitið Samtökum fjármálafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna og Dróma hf. heimild til samstarfs í tilefni af dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Heimildin tekur til samstarfs um eftirfarandi:
a) túlkun dómsins;
b) aðferðir við endurútreikning á þeim lánum sem hafa að geyma óskuldbindandi ákvæði um gengistryggingu og dómur Hæstaréttar tekur til;
c) endurskoða þá endurútreikninga sem þegar hefur farið fram á framangreindum lánum og kanna áhrif dómsins á þau;
d) greiningu þeirra álitaefna sem nauðsynlegt er að láta reyna á fyrir dómi;
e) val á málum sem hentugust eru til þess að bera undir dómstóla með álitaefni skv. d-lið í huga:
f) val á málsástæðum sem reyna þarf á í dómsmálum skv. e-lið því skyni að eyða sem fyrst allri réttaróvissu.
Heimildin er veitt að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1. gr.
Fyrirtækjum sem aðild eiga að samstarfi þessu er einungis heimilt að eiga með sér samstarf eða funda á grundvelli undanþágunnar en í því felst ekki heimild til nánara samráðs um verð og viðskiptakjör en kveðið er á um í undanþágu þessari. Öll upplýsingaskipti og samstarf undanþáguaðila umfram þann tilgang sem afmarkaður er í ákvörðun þessari er óheimilt. Óheimilt er með samstarfinu að takmarka rétt einstakra aðila samstarfsins til þess að gera samninga við viðskiptamenn sína sem ganga lengra en keppinautann og eru neytendum meira í hag.
2. gr.
Halda skal skýrar fundargerðir um fundi sem haldnir eru vegna samstarfsins. Þá skal haldið til haga yfirliti yfir öll gögn sem lögð eru fram á fundum eða verða til vegna samstarfsins.
Fjármálafyrirtæki sem aðild eiga að undanþágu þessari skulu tilnefna fastan fulltrúa sem sinnir samstarfinu og situr fundi fyrir þeirra hönd og er ábyrgur fyrir því að ákvæðum ákvörðunar þessarar sé fylgt hvívetna. Skal hann undirrita yfirlýsingu um að hann virði ákvörðun þessa og bann við samkeppnishamlandi samráði.
3. gr.
Aðildarfélögum SFF og Dróma er einungis heimilt að eiga með sér samstarf eða fundi að viðstöddum fulltrúa umboðsmanns skuldara. Skal fulltrúi umboðsmanns hafa aðgang að öllum gögnum sem verða til vegna samstarfsins.
Leiti Neytendastofa eða talsmaður neytenda eftir þátttöku í samstarfi þessu skulu þau fá að njóta sömu stöðu og umboðsmaður skuldara.
4. gr.
Skulu aðildarfélög SFF og Drómi grípa til ráðstafana í því skyni að tryggja að fulltrúar þeirra sem taka þátt í samstarfinu fari að skilyrðum þeim sem fram koma í þessari ákvörðun, sbr. einnig 10. gr. samkeppnislaga.
Hvert fjármálafyrirtæki fyrir sig skal upplýsa Samkeppniseftirlitið innan fjögurra vikna frá dagsetningu þessarar ákvörðunar um þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli þessa skilyrðis.
5. gr.
Fjármálafyrirtækin skulu ekki krefjast málskostnaðar í kröfugerð sinni á hendur skuldurum í þeim dómsmálum sem höfðuð verða í kjölfar samstarfs á grundvelli undanþágu þessarar. Leitast skal eftir því sem við verður komið að stefna þeim skuldurum sem að mati umboðsmanns skuldara eru hvað best til þess fallnir að halda uppi vörnum í slíku dómsmáli.
6. gr.
Á meðan samstarf fer fram á grundvelli undanþágu þessarar skulu lánveitendur sem aðild eiga að samstarfinu fresta öllum fullnustuaðgerðum sem byggja á lánum sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011.
7. gr.
Undanþága þessi gildir til ársloka 2012. Skulu aðilar samstarfsins láta samstundis af samvinnunni þegar undanþágan rennur út. Við lok frestsins skal skila Samkeppniseftirlitinu greinargerð um framkvæmd samkomulagsins og hvernig því er lokið gagnvart fyrirtækjum sem undanþága þessi lýtur að.
8. gr.
Undanþága þessi veitir ekki öðrum aðilum en fjármálafyrirtækjum sem stunda útlánastarfsemi eða stunduðu slíka starfsemi fyrir bankahrunið 2008 rétt til samstarfs sem fer gegn 10. gr. samkeppnislaga.
Undanþágan veitir ekki samtökum ofangreindra fyrirtækja heimild til samstarfs sem brýtur í bága við ákvæði 12. eða 10. gr. samkeppnislaga. Þó er þeim heimilt að útvega fundarritara og aðstöðu.
9. gr.
Komi til þess að gera þurfi frekari breytingar á samstarfinu skal það borið fyrirfram undir Samkeppniseftirlitið.
10. gr.
Samkeppniseftirlitið áskilur sér rétt til þess að óska upplýsinga á hvaða tímapunkti sem er vegna veittrar undanþágu.
Brot á þessum skilyrðum varðar viðurlögum skv. samkeppnislögum.“
Samkeppniseftirlitið
Páll Gunnar Pálsson
Færslan var skrifuð við fréttina: Heimila fjármálafyrirtækjum samstarf