Nýtt lífeyrissjóðakerfi nauðsynlegt - Skilja þarf framtíðina frá fortíðinni

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.9.2012. Efnisflokkur: Lífeyrissjóðir

Fyrir um 20 árum var ljóst að þáverandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna stefndi í þrot, ef svo héldi sem horfði, þ.e. að greiðslubyrði myndi smátt og smátt vaxa ríkinu yfir höfuð.  Þá var farin sú leið að skipta Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og fleiri opinberum sjóðum upp í tvær deildir.  Eina sem nýir starfsmenn greiddu í og þeir sem skiptu um störf eða fóru í takmarkað starfshlutfall og aðra sem þeir sem voru fyrir í sjóðnum greiddu í.

Ég held að við verðum að fara svipaða leið varðandi alla lífeyrissjóði í dag.  Raunar held ég að við verðum að taka ennþá stærra og áhrifaríkara skref.

Staðreyndir tala sínu máli.  Nánast enginn lífeyrissjóður stendur undir þeim loforðum sem hann hefur gefið sjóðfélögum sínum þegar sjóðurinn tók við iðgjaldagreiðslum þeirra hvort heldur þær voru dregnar af launum við komandi eða kom úr pyngju launagreiðandans.  Halli sumra þessara sjóða er ógnvænlegur og verður ekki réttur af nema með stórtækum aðgerðum.  Aðrir eru í þokkalegum málum og örfáir í fínum málum.

Þó svo að staða sumra sjóða sé alveg með ágætum, þá tel ég rétt að gera samræmda breytingu á lífeyrissjóðakerfinu.  Hún er sem hér segir:

Frá og með nýju ári verði öllum lífeyrissjóðunum skipt upp í nýjan sjóð og gamlan.  Hætt verði greiða í gamla sjóðinn, en í staðinn hefji allir sjóðfélagar að greiða í nýja sjóðinn.  Gamla sjóðnum verði sem sagt lokað fyrir inngreiðslu iðgjalda, en sá nýi verður virkur frá og með áramótum.  Iðgjöld í nýja sjóðinn verði óbreytt frá sem áður var, nema hvað greiddur yrði strax skattur til ríkisins og útsvar til sveitarfélaga af iðgjöldunum.  Ríki og sveitarfélög yrðu þó að leggja þessar skatttekjur í varasjóð sem aðeins mætti ganga á í sérstökum tilfellum, sem ég ætla ekki að fara út í hér og nú.  Höfum í huga að lífeyrissjóðirnir töpuðu í hruninu vel yfir 100 milljarða af framtíðarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga og hafa því glatað rétti sínum til að ávaxta skattféð.

Ávinningur

Hvað vinnst með þessari breytingu?  Í stórum dráttum er það tvennt:

1.  Komið verður í veg fyrir að iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar verði látnir borga upp það sem vantar upp á að lífeyrissjóðirnir eigi til að standa undir útgreiðslu lífeyris miðað við loforð sjóðanna um áunnin réttindi þeirra sem greitt hafa í sjóðina til þess.  Uppi eru áform um að hækka iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóðina úr 12% í 15,5%.  Þessi peningur á að koma frá launagreiðendum, sem margir eiga þegar erfitt með að standa undir öllum þeim launatengduálögum sem þeim er ætlað að greiða.  En hvorki þessi viðbótar 3,5% né þau 2% sem bættustu við fyrir 6 og 7 árum var/er ætlað að auka réttindi þeirra sem greitt er fyrir í samræmi við viðbótargreiðslurnar.  Nei, þessi hækkun iðgjalda á að bæta upp það klúður sem orðið hefur í ávöxtun sjóðanna.  Tekið skal fram að hugmyndin um hækkun í 15,5% kom fram áður en lífeyrissjóðunum tókst að tapa nokkur hundruð milljörðum árið 2008.

Mikilvægt er að greiðendur framtíðarinnar verði ekki látnir burðast með lífeyrisskuldbindingar sem lífeyrissjóðirnir standa ekki undir.  Nýjar kynslóðir eiga að vera öruggar um að það sem þær greiða í lífeyrissjóðinn sinn fari í þeirra réttindaávinning, en ekki til að rétta af fortíðarhalla.  Nýjar kynslóðir greiðenda eiga að koma að hreinu borði.  Á sama hátt þarf að skilja á milli fortíðargreiðslna og réttindaávinnings þeirra sem eru núna að greiða í lífeyrissjóði og framtíðargreiðslna og réttindaávinnings þeirra sem munu greiða frá og með áramótum.  Þannig verða minni líkur á að lífeyrissjóðirnir verði tómir þegar kemur að því að þeir sem eru nýlega byrjaðir að greiða í sjóðina, komast á lífeyrisaldur.

2.  Hitt sem ávinnst er að hægt verður að gera upp lífeyrissjóðina og skilja betur hvert tap núverandi sjóðfélaga er.  Staðreyndin er nefnilega sú, að ávöxtun sjóðanna hefur líklegast aldrei staðið undir þeim væntingum sem til hennar var gerð.  Myndast hefur gríðarstór hola í mörgum sjóðanna, ekki öllum, og þessi hola gerir það að verkum að viðkomandi lífeyrissjóðir eiga ekki fyrir þeim greiðslum sem búið er að lofa iðgjaldagreiðendum/lífeyrisþegum.  Menn voru búnir að búa til leikfléttu sem átti að bjarga þessu, þ.e. láta iðgjaldagreiðendur framtíðarinnar borga meira án þess að þeir ættu að njóta þess í betri lífeyrisréttindum.  Viðbótin átti, eins og áður segir, að leiðrétta klúður fortíðarinnar.  Yngri kynslóðirnar áttu að greiða fyrir lífeyri þeirra eldri.

Þó svo að margir sjóðir standi illa í dag, þá er ekkert sem segir að séu færustu sérfræðingar fengnir til að aðstoða við fjárstýringu þeirra, þá geti þeir ekki rétt sig af.  Málið er að þá áhættu á ekki að leggja á framtíðargreiðendur, heldur verða þeir sem eiga réttindi í sjóðunum í dag að bera þá áhættu.  Ég er einn af þeim.  Það sem síðan ekki verður hægt að endurheimta af tapaðri ávöxtun verður síðan ýmist að bæta með sértækum aðgerðum í gegn um skattkerfið eða að koma fram í skerðingu réttinda. 

Lífeyrisréttindi - loforð sem ekki gengu eftir

Nú þýðir ekki að segja, að einhver eigi réttindi vegna þess að viðkomandi greiddi í lífeyrissjóð.  Þau réttindi voru ekki raunveruleg, heldur bara svikin loforð.  Mönnum mistókst í flestum tilfellum að ávaxta eignir sjóðanna, eins og nauðsynlegt var, svo hægt væri að standa við loforð um réttindi.  Við getum ekki ætlast til þess að greiðendur framtíðarinnar taki á sig þau mistök.  Það verðum við, sem greitt höfum í sjóðina að gera.  Skítt?  Já, alveg örugglega, en það eina sanngjarna og réttláta í stöðunni.  Við verðum  að sýna þá manndóm, ef svo má segja, að láta ekki börnin okkar líða fyrir mistök manna sem misfóru með fé okkar.   Þessir aðilar (nær eingöngu karlmenn) klessukeyrðu fína, flotta bílinn okkar og nú eigum við bara til pening fyrir umtalsvert lakari gerð.

Ef rétt verður haldið á spilunum, þá verður hægt að rétta marga lífeyrissjóði af.  Hjá öðrum verður ekki komist hjá einhverjum skerðingum, en mér finnst rétt að stilla þeim í hóf og grípa frekar til sértækra aðgerða til að koma í veg fyrir óbærilegar skerðingar.  Þessar skerðingar þurfa að ná jafnt til almennra lífeyrissjóða og opinberra.  Svo vill til að ég á réttindi á báðum vígvöllum og er því að tala fyrir skerðingu eigin réttinda.  Ég bara sé ekkert réttlæti í því að börnin mín eigi að fá lægri réttindaávinning á hverjar 1.000 kr. greiddar í lífeyrissjóðinn sinn, en eðlilegt er, eingöngu vegna þess að þeim er ætlað að tryggja mér betri réttindi.  Svo lágt neita ég að leggjast.  Nei, hafi einhverjum "snillingum" tekist að tapa mínum peningum í lífeyrissjóðunum mínum, þá skal ég vera meiri maður en svo að ég láti börnin mín borga með mér í gegn um lífeyrissjóðina.

Aldurstengd skerðing réttinda

Ég á 15 - 20 ár eftir af minni starfsævi og mun því borga í nýja lífeyrissjóð í þann tíma (verði þessi hugmynd ofan á).  Vonandi verður skerðing réttinda í þeim sjóðum sem ég á réttindi í, ekki það mikil að hún reynist mér þungbær, en þeir sem komnir eru á lífeyrisaldur eða eru nálægt því gætu orðið fyrir búsifjum.  Af þeim sökum þarf að leggja öryggisnet fyrir þá og hjálpa þeim.  Þetta öryggisnet gæti falist í því að réttindi sjóðfélaga skreðist í réttu hlutfalli við þann tíma sem þeir eiga eftir að greiða í lífeyrissjóð og ekki hjá þeim sem eru byrjaðir að taka lífeyri.  Segjum sem svo að skerða þurfi réttindi í lífeyrissjóði um 10%, þá skertust réttindi þeirra sem eru nálægt lífeyrisaldri um 1 - 2% meðan réttindi þeirra sem yngri eru skertust um kannski allt að 15%.  Á móti kæmi að tækist lífeyrissjóðnum að snúa spilinu við og ávöxtun yrði nægileg til að auka réttindi sjóðfélaga, þá rynni sú aukning fyrst til þeirra sem fengu mesta skerðingu og síðar til þeirra sem sátu uppi með óverulega skerðingu.

Hitt er annað mál, að ekkert óréttlæti fælist í því að allir tækju á sig skerðinguna, jafnt lífeyrisþegar sem aðrir, en í mínum augum, þá snýst þetta ekki bara um hvað er stærðfræðilega rétt heldur líka hvað er siðferðilega rétt.  Og siðferðilega, þá finnst mér ekki hægt að skerða réttindi þeirra sem ekki eiga möguleika á að rétta hlut sinn.  Þess fyrir utan, þá mun skerðing á núverandi lífeyrisþega bara leiða til hærri útgjalda í almannatryggingakerfinu og þar með auka skattbyrðina.  Við sem erum á atvinnumarkaði höfum því einfaldlega um tvennt að ræða: að greiða þetta í gegn um skerðingu lífeyrisréttinda eða að greiða þetta í gegn um skatta til ríkisins.