Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.10.2012. Efnisflokkur: Samantekt
Já, það eru fjögur ár síðan Geir H. Haarde bað guð að blessa Ísland. Ég er ekki viss um að honum hafi orðið að ósk sinni. Aftur á móti virðist blessunin hafa náð til hluta ofurríkra fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja sem reist voru á rústum fjármálafyrirtækja sem höfðu samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu á sér yfirbragð skipulagðrar glæpastarfsemi.
Allir aðrir voru meira og minni hengdir út til þerris, ef þeim var ekki bara hent beint á eldinn. Stór hluti almennings og fyrirtækja landsins voru bara talinn til eðlilegra affalla í stríði. Ekki bara það, þeir sem lifðu af eiga að greiða stríðsskaðabætur til þeirra sem settu allt á hliðina. Þetta er hundalógík, sem ég skil ekki og hef aldrei skilið.
Margir tóku til varnar
Sem betur fer misbauð mörgum það mikið, að þeir ákváðu að gera meira en að tala um það á Barnalandi, í heita pottinum eða í saumaklúbbum. Ég held að öllum hafi misboðið, en hvaða gagn er af því að vera misboðið, ef maður býður bara hina kinnina eða kyssir hönd kvalarans? Því miður, þá tóku fjölmiðlar landsins þá afstöðu almennt að taka málstað kvalaranna. Því miður, þá tóku stjórnvöld þessa lands, þá afstöðu að taka málstað kvalaranna. Hingað kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og viti menn. Hann tók sér stöðu með kvölurunum. Almenningur átti að borga stríðskaðabætur til fjármagnseigenda hér á landi og í útlöndum, því þessir aðilar voru svo fjandi mikilvægir að þeim varð að bjarga.
En eins og áður segir, þá misbauð mörgum það mikið að þeir tóku til varna. Indefense hópurinn tók til varna í Icesave málinu vegna þess að ríkisstjórn Geirs H. Haarde taldi mikilvægara að halda andlitinu og sýnast grand út á við, en að verja þegna þessa lands fyrir ósanngjörnum kröfum. Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega tóku til varna í lánamálum heimilanna, vegna þess að stjórnvöldum þessa lands, hvort heldur ríkisstjórn Geirs H. Haarde eða ríkisstjórnir Jóhönnu og Steingríms, fannst það vera rétt að heimilin borguðu stökkbreytta höfuðstóla lána sinna.
Kröfur á heimilin lækkað um 300 milljarða þegar
Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki hafi ekki gengið að kröfum HH og SL í orði, þá eru þau langt komin með að gera það á borði. M.a. með hjálp dómstóla, þá er búið að lækka stökkbreyttar kröfur lánastofnana á almenning um hátt í 300 milljarða. Kröfur sem m.a. kröfuhafar hrunbankannahöfðu þegar gefið eftir, en snillingarnir í nýju bönkunum töldu sjálfsagt að halda til streitu. Merkilegt að maður fái eitthvað á allt að 50% afslætti, en ætli samt að krefja fullt verð fyrir! Slíkt á ekkert skylt við eðlilega og hvað þá heiðarlega viðskiptahætti. Svo sem ekki við því að búast í þjóðfélagi sem er gegnsýrt af klíkuskap, leynimakki, vinargreiðum og endalausu vanhæfi þar sem mönnum finnst allt í lagi að sitja við allar hliðar samningaborðsins til að tryggja að einkavinirnir og klíkurnar fái alltaf sinn skerf af kökunni, en almenningur (við sem ekki erum í klíkunni) borgum alltaf það sem sett er upp.
Margt aflaga farið
Langt mál væri að tala um allt það sem aflaga hefur farið í endurreisninni síðustu 4 ár. Ég ætla ekki að neita því að margt hefur verið gert, en það hefur í 9 tilfellum af hverjum 10 snúist um að þóknast fjármagnseigendum og varðhundi erlendra kröfuhafa, þ.e. AGS. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er orðinn slíkur að á það vantar báða fætur og annan handlegg. Í menntakerfinu hefur svo sorfið að mörgum skólum, að þeir eru vart starfhæfir. Í velferðarkerfinu sitja öryrkjar og ellilífeyrisþegar eftir með tekjur sem eru langt undir naumhyggjuframfærslu. Atvinnuleysi hefur verið fært inn í skóla og í stað atvinnuleysisbóta, þá eru stórir hópar fólks komir á námslán. Einu útgjöldin sem hafa hækkað um tugi milljarða eru vaxtagreiðslur til AGS og "vinaþjóða" til að halda uppi þeirri blekkingu að við eigum gjaldeyrisforða. Hvernig getur verið að við eigu gjaldeyrisforða, ef hann er allur tekinn að láni? Og hvaða skynsemi er að taka gjaldeyrisforða að láni, ef það kostar okkur 70, 80 eða 90 milljarða á ári að vera með gjaldyeyrisforðann að láni? Kannski fatta menn það einhvern tímann, að það skaðar gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, að vera með gjaldeyrisforðann í formi erlendra lána!
Aumingja erlendu kröfuhafarnir
Hvers vegna eigum við að hafa áhyggjur af eignum erlendra aðila hér á landi? Hvað koma jöklabréf okkur við? Hvers vegna eru menn að horfa á hina svo kölluðu snjóhengju sem okkar vandamál, þegar hún er vandamál þeirra sem eiga peninga í snjóhengjunni.
Ég neita að bera ábyrgð á mistökum í áhættustýringu þeirra sem lánuðu peninga hingað til lands. Ég neita að bera ábyrgð á mistökum í áhættustýringu þeirra sem fjárfestu hér í skuldabréfum sem höfðu skrifað stórum stöfum utan á sér að fælu í sér meiri áhættu en ásættanleg væri nema fyrir þá sem þyldu að tapa þeim peningum sem í þetta væri lagt. Shit happens, er sagt og þannig var það með þessa peninga. Þeir eiga einfaldlega að fara aftast í kröfuröðina og verðum við einhvern tímann aflögufær, þá geta eigendur þessara krafna kannski fengið eitthvað upp í kröfur sínar.
Lífeyrissjóðirnir - stærsta óleysta vandamálið
Almenningur varð víða fyrir búsifjum á árunum kringum hrun, en líklegast hvergi eins miklum og hvað varðar lögbundinn lífeyrissparnað. Inni í lífeyriskerfinu er risastór hola. Hún var svo sem orðin stór löngu fyrir hrun, en þá var hún viðráðanleg. Höggið sem hrunið gaf lífeyriskerfinu, var hins vegar gríðarlega þungt og er nánast hægt að segja að um tæknilegt rothögg hafi verið að ræða. Snillingarnir sem telja sig einráða um kerfið, vilja að komandi kynslóðir bjargi lífeyrinum þeirra. Þeir vilja fá sinn lífeyri óskertan á kostnað réttingaávinnings þeirra sem greiða til sjóðanna í framtíðinni. Göfugmannlegt af þeim eða hitt þá heldur. Ef forseti ASÍ væri í raun að berjast fyrir réttindum launafólks, þá væri það forgangskrafa hjá sambandinu að loka núverandi kerfi og láta greiðendur framtíðarinnar greiða inn í nýja deild í sjóðunum sínum. Nei, það er ekki gert, vegna þess að forseti ASÍ vill að börnin hans greiði honum lífeyri í framtíðinni, í staðinn að vera maður til að taka á sig þá skerðingu sem óhjákvæmileg er samkvæmt núverandi eignastöðu sjóðanna. Stjórnvöld og Alþingi eru síðan svottan bleiður að taka ekki hreinlega fram fyrir hendur "snillingunum" og ákveða svona breytingu sjálf.
Endurreisn trúverðugleika
Menn segja að trúverðugleiki Íslands sé að veði. Bull. Trúverðugleiki Íslands fauk út um gluggann 2008 og hann verður ekki endurreistur með því að lof mönnum einhverju sem ekki verður hægt að standa við. Trúverðugleikinn verður aðeins endurreistur með því að segja sannleikann, lofa engu og reyna síðan að gera betur.
Hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi trúverðugleikann, er að ekki hafa orðið nægjanlegar breytingar í lykilstöðum í þjóðfélaginu. Þó svo að Höskuldur og Steinþór hafi ekki verið í gömlu bönkunum fyrir hrun, þá á það við nær alla, ef ekki alla, sem þar vinna. Sama á við um margar lykilstofnanir. Nokkrir ráðherrar voru í þeirri ríkisstjórn sem fór með völd hér meðan hallaði undan fæti. Ríkisstjórn sem var upptekin af því að afneita öllum hættumerkjum og skjóta sendiboðana. Ríkisstjórn sem tók þátt í hrunadansinum með fjármálageiranum. Ekki tekur betra við, þegar horft er til þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þó Geir og Árni hafi farið út af þingi, þá eru allt of margir aðrir þingmenn flokksins annað hvort þeir sömu og sátu á þing meðan allt hrundi eða tóku þátt í sukkinu. Og einhverra hluta vegna, þá stefnir allt í að þetta fólk fái glimrandi kosningu í næstu þingkosningum sækist það á annað borð eftir áframhaldandi þingsetu. Er þetta leið til að endurreisa trúverðugleika eða er þetta leið til að verja klíkurnar?
Erfitt hlutverk ríkisstjórna Jóhönnu og Steingríms
Þrátt fyrir það sem að ofan er skrifað, þá viðurkenni ég fúslega að hlutverk ríkisstjórna Jóhönnu og Steingríms var ekki öfundsvert. Þau tóku við brunarústum, þar sem ennþá loguðu eldar á víð og dreif. Það sem meira var, að eina byggingarefnið var það sem fannst heillegt í rústunum. Þau gerðu sér hins vegar endurreisnina erfiðari með því að taka til hliðar það sem best leit út til að láta það í hendur erlendra kröfuhafa.
Dæmigert mun vera fyrir brennuvarga, að þeir sniglast í kringum brunastað til að fylgjast með hvernig til tókst. Í þessu tilfellu gengu þeir lengra og þvældust sífellt fyrir í slökkvistarfinu og kveiktu nýja elda við öll tækifæri. Ekki það, að mér finnst ríkisstjórnirnir Jóhönnu og Steingríms einblínt of mikið á upprunalega eldinn, en að mestu látið brennuvargana um að slökkva eldana sem kviknuðu út frá honum. Þetta er eins og láta árásarmann gera að sárum fórnarlambsins!
Ríkisstjórnir Jóhönnu og Steingríms tóku þá kolröngu ákvörðun að setja endurreisn heimila og fyrirtækja í hendur þess fólks sem orsakaði hrunið. Það átti aldrei að gera. Alþingi átti að ákveða leikreglurnar og setja skýr lög um þær. Síðan átti hlutlaus aðili að sjá um framkvæmdina. Að setja fjármálafyrirtækin í dómarasæti, þar sem þau eru annar málsaðili, gengur gegn heilbrigðri skynsemi og er helsta ástæðan fyrir því að ekki hefur gengið betur. Þetta er eins og leikmenn annars liðs í kappleik sjái um dómgæsluna í leiknum. Geta menn rétt ímyndað sér hversu einhliða sú dómgæsla myndi verða. Þetta var nú samt gert, vegna þess að Alþingi virðist vera í heljargreipum fjármálafyrirtækjanna og klíkanna. Raunar er mín upplifun af Alþingi, að sjálfstæði þess sé í nánast ekkert og það fari bara eftir því sem valdaöflin í þjóðfélaginu segja. (Þá er ég að tala um meirihluta þingmanna, því þar er líka hópur, því miður ekki stór, sem hefur sjálfstæðan vilja ekki bara í orði heldur líka á borði.) Þessi valdaöfl hafa bara áhuga á að skara óhóflegan eld að sinni köku á kostnað almennings. Þess vegna erum við 4 árum eftir hrun bankanna, enn að horfa upp á gríðarleg vandamál hjá almenningi og fyrirtækjum (þ.e. þeim sem er ekki eru í klíkunni) meðan fjármagnseigendur hafa náð að safna vopnum sínum.
Að lokum
Eins og lesendur pistla minna hafa orðið varir við, þá hefur lengst nokkuð á milli þeirra og þeim fækkað. Ástæðan er góð og gild, en ég tók hinn 1. september við nýju starfi sem gefur mér færri tækifæri til að standa í þessum skrifum. Ég mun þó halda áfram að berja lyklaborðið sem þurfa þykir, en eingöngu þegar málin eru stór.
Ég tel mig eiga stóran hlut í þeim 300 milljörðum sem fjármálafyrirtækin þegar lækkað stökkbreyttar kröfur. Ég vonast síðan til að ekki undir 150 milljörðum eigi eftir að bætast við og jafnvel allt að 400 milljörðum, þegar dómar verða gengnir í gengislánamálum og þegar Alþingi sýnir loksins þann kjark og þor að samþykkja frumvarp Hreyfingarinnar um björgunarsjóð vegna verðtryggðra lána. Að frumvarpið hafi ekki þegar verið samþykkt tel ég vera ljótan blett á störf Alþingis. Fjármunum ofurríkra fjármagnseigenda sem nemur um hærri upphæð var bjargað með einu pennastriki, en þegar kemur að hinum almenna borgara, þá má hann éta það sem úti frýs. Segja má að þetta sé það sem best lýsir hinni meintu endurreisn. Ég vona að ekki líði önnur 4 ár áður en raunverulegri endurreisn lýkur.