Illa fengin krafa getur ekki orsakað vanskil - Leiðréttið stökkbreytinguna og þá lagast margt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.9.2012. Efnisflokkur: Skuldamál heimilanna

Í janúar 2009 voru Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð.  Markmið samtakanna er meðal annars að vinna í leiðréttingum á lánamálum heimilanna.  Krafa um slíkt var lögð fram strax í febrúar 2009 og hljóðaði hún upp á að forsendubrestur lána yrði leiðréttur, þannig að verðbætur vegna hækkunar vísitölu neysluverðs umfram 4% yrðu felldar niður af lánum.  Færð hafa verið mörg rök fyrir bæði réttlæti slíkrar aðgerðar og ekki síður skynsemi hennar.  Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafa slegið skollaeyrum vð þessari kröfu með rökunum "ekki hægt".  Aldrei allan tímann hefur verið sest niður og reynt að finna út hvernig þetta gæti verið hægt.  Starfshópur var stofnaður um málið haustið 2010, svo kallaður sérfræðingahópur, en niðurstaða þeirrar vinnu var öll á forsendum fjármálafyrirtækjanna og fengu fulltrúar lántaka ekki einu sinni aðgang að því borði þegar ákveðið var hvaða brauðmolum ætti að henda í lántaka.

Ég sat í þessum sérfræðingahópi og benti í séráliti mínu á hvað þyrfti að gera.  Skipti ég lántöku í hópa (raunar sambærilega og sérfræðingahópurinn) og reyndi að skilgreina til hvaða nauðsynlegra aðgerða þyrfti að grípa.  Ég tel enn að mín nálgun í þessu máli hefði orðið árangursríkari en sú leið sem fjármálafyrirtækin og stjórnvöld fóru.  Auk þess vil ég benda á að tillögur stjórnvalda og fjármálafyrirtækja gerði ráð fyrir meiri leiðréttingu verðtryggðra lána, en reyndin hefur verið.  Munar þar líklegast ekki undir 50 milljörðum króna.  (Hef þó ekki endurreiknað það nýlega.)

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því sem myndi gerast, ef ekki yrði gripið til víðtækari ráðstafana.  Samtökin hafa bent á að flest úrræði stjórnvalda hafa byggt á því að færa eignir heimilanna til fjármálafyrirtækjanna, þ.e. heimilin áttu að ganga á sparnað og selja seljanlegar eignir svo þau gætu greitt fjármálafyrirtækjunum, en fjármálafyrirtækin ættu ekki að leiðrétta þau afglöp sem hrunbankarnir urðu uppvísir að.  Vissulega tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður ekki virkan þátt í hrunadansi fjármálafyrirtækjanna, en þessir aðilar þáðu með þökkum brauðhleifana sem til þeirra var kastað af nægtarborði fjárglæfrafyrirtækjanna.  Hrunbankarnir orsökuðu hér mikinn óstöðugleika sem lýsti sér meðal annars í falli krónunnar og hækkun verðbólgu.  Þetta leiddi til mikillar hækkunar verðbóta og þessar verðbætur tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður fengins hendi.  Við sem höfum staðið í réttlætisbaráttunni fyrir heimilin lítum svo á að þessar verðbætur séu þýfi og með því að þiggja verðbæturnar hafi lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður orðið þjófsnautnar.

Í öllum siðuðum samfélögum þykir eðlilegt að þjófar sem gripnir eru, séu látnir skila þýfinu og hafi aðrir notið þýfisins, þá skili þeir því líka.  Ekki er tekin gild sú afsökun að menn hafi ekki vitað að um þýfi væri að ræða.  Kannski er grimmt að tala um þýfi, en a.m.k. er um illa fengið fé að ræða og um það gilda almennt sömu reglur.  Hafi fé vrið haft af manni, þá ber að skila því.  Ljóst er að mikið vantar upp á að Ísland teljist til siðaðra þjóða, a.m.k. hvað þetta varðar.  Fjármálafyrirtæki geta augljóslega framið alls konar lögbrot, brotið gegn viðskiptavinum sínum, sett heilt þjóðfélag nánast á hausinn og síðast en ekki síst nýtt lögbrot annarra til að hagnast án þess að þurfa að svara til saka eða bæta fólki og fyrirtækjum skaðann.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því að úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna væru ófullnægjandi.  Að um tímabundin úrræði væri að ræða til að vonast til þess að viðhalda greiðsluvilja heimilanna.  Vissulega hafa mörg heimili nýtt sér fjölbreytt úrræð, en því miður hafa mörg þessara úrræða ekki leitt til varanlegrar lausnar.  Vandanum hefur verið ýtt á undan í von um að kraftaverkið gerðist.  Fólk fékk að leysa út séreignarsparnað.  Margir nýttu sér það, en nú er sá sjóður uppurinn.  Aðrir áttu einhvern sparnað inni á bankabók, en það var að mestu bara ríka fólkið.  Heimilin náðu að halda sér á floti í einhvern tíma, en hefur hópur þeirra einfaldlega ekki við að ausa bátinn.  Þessu var varað við.  En stjórnvöld voru ekki að hlusta eða í fásinnu sinni trúðu fjármálafyrirtækjunum, þar sem sitja að stórum hluta sama fólk og setti okkur í þessa stöðu.

Meðan stökkið í verðbótum á höfuðstól verðtryggðra lána hefur ekki verið leiðrétt, þá er hætt við að tiltekinn hópur heimila mun bara sökkva dýpra og dýpra.  Önnur ráða enn við birgðarnar, en jafnvel hjá þeim er róðurinn tekinn að þyngjast.  Hvað þarf að gerast svo stjórnvöld og fjármálafyrirtækin átti sig á þessu?  Hvert er virði lánasafns, þar sem hluti lántaka standa ekki undir afborgunum?  Hver er munurinn á því að koma til móts við núverandi lántaka og að afskrifa lán sem hvíla á eign áður en hún er seld áfram? 

Ég veit ekki hvað þarf til svo stjórnvöld og lánveitendur átti sig, en vakni menn ekki fljótlega, þá mun það einfaldlega bitna á greiðsluhæfi Íbúðalánasjóðs og ég er ekki viss um að stjórnvöld vilji hugsa þá hugsun til enda að Íbúðalánasjóður lendi í verulegum vanda.  Í mínum  er það lánasafn verðmætara þar sem búið er að skilja á milli "góðra" lána og "slæmra", þar sem búið er að stilla kröfuna af þannig að lántakinn getur greitt af þeim og hefur vilja til þess.  Loks, í mínum huga, þá er enginn munur á því að láta núverandi lántaka njóta afskrifta sem nýr lántaki fengi.  Raunar tel ég það siðferðislega rétta aðferð.

(Síðar mun ég rifja upp tillögur mínar í sérálitinu og færa frekari rök fyrir því af hverju ég taldi það rétta aðgerð.)

Færslan var skrifuð við fréttina: Um 500 ný heimili í vanskilum