Færslan var fyrst birt 13.1.2012 kl. 16:05 á Moggablogginu. Efnisflokkur: Verðtrygging
Framundan er borgarafundur í Háskólabíói undir heitinu Er verðtryggingin að kæfa heimilin? þann 23. janúar nk. Verð ég þar með framsögu og mun fjalla bæði um fortíð og framtíð en einnig reifa hugmynd hvernig taka má á hluta fortíðarvandans.
Tilefni þessara skrifa er bæði fundurinn, en ekki síður póstur sem mér barst áðan. Hann lýsir verðtryggðum veruleika allt of margra Íslendinga. Í staðinn fyrir að endursegja efni póstsins, þá vil ég birta drjúgan hluta hans:
Ástæða þess að ég skrifa þetta e-mail til þín núna eru þessar undanfarandi vangaveltur mínar og til glöggvunar þá tók ég mið af eigin láni sem tekið er síðla árs 2004 þegar við hjónin keyptum eða stækkuðum við okkur íbúð og tókum 18.100.000.- íbúðalán með 4.2 % föstum vöxtum ásamt verðtryggingu. Lánið er tekið hjá Landsbanka Íslands.
Ég vil byrja á að taka fram að lánið er í skilum og hefur alltaf verið það.
Það breytir ekki því að þegar ég skoðaði greiðsluseðil sem ég er með núna vegna greiðslu í janúar á þessu ári þá eru eftirstöðvar lánsins 29.600.000.- liðlega og hefur því hækkað um 11.500.000. á þessum 7 árum.
Til viðbótar þessu hefur verið greitt mánaðarlega í þessi 7 ár um 100.000,- kr að meðaltali (byrjaði í c.a 90 þús er nú í 109 þús) í þessi 7 ár eða c.a 8.400.000.-
Samanlögð hækkun ásamt greiddum afborgunum er því 19.900.000.- eða með öðrum orðum tvöföldun láns að viðbættum 1.800.000.- (þetta eru svona einfaldaðar og afrúnnaðar tölur allt saman ekki kr og aurar). Skv. þessu þá er kostnaður minn við það að fá þessa peninga lánaða, um 19.900.000.- í þessi sjö ár eða með öðrum orðum þeir vextir sem hafa fallið á lánið frá 2004. Og má því e.t.v. segja að vextir lánsins á þessum 7 árum séu 109 % (eða kostnaðurinn áf láninu er 109%). [Raunar 109,94%]
Hvernig getur svona lagað verið látið viðgangast? Viðkomandi greiðir allar greiðslur eins og um er beðið, sem nema 46,4% af upprunalegri lánsfjárhæð og skuldar samt 63,5% umfram upprunalega lánsfjárhæð. Eins og hann reiknar út, þá jafngilda afborganir, vextir og verðbætur fyrir þetta 7-8 ára tímabil 110% af upprunalegri lánsfjárhæð.
600 ma.kr. teknar að láni en 685 ma.kr. bæst á sem verðbætur
Verðtryggðar skuldir heimilanna við fjármálafyrirtæki voru um 1.285 ma.kr. í lok september á síðasta ári samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hve stór hluti af þessari tölu er verðbætur (Seðlabankinn veit það, en gefur ekki upp), en hægt er að nálga töluna með einföldum hætti. Seðlabankinn á tímaraðir sem sýna skiptingu lána heimilanna í verðtryggð lán, óverðtryggð og gengisbundin aftur til 31.12.1997. Samkvæmt þeim voru verðtryggðar skuldir heimilanna 342 ma.kr. í árslok 1997 en komnar í 1.285 ma.kr. lok september 2011. Hafa skal í huga að útlán nýju bankanna þriggja er á kaupvirði krafnanna úr gömlu bönkunum, þ.e. af frádregnum afslættinum sem bankarnir fengu, þannig að líklegast er verið að krefja lántaka um eitthvað hærri upphæð. Til að reikna út hve háar verðbætur eru á hverju ári, þá tek ég stöðuna í árslok og margfalda með verðbólgu næsta árs. Með þessari aðferð fæ ég út að verðbætur frá árslokum 1997 nemi rúmlega 685 ma.kr., þ.e. að af núverandi stöðu lánanna, séu 600 ma.kr. það sem tekið var að láni, en 685 ma.kr. eru verðbætur!
Nú væla einhverjir hagfræðingar og segja að fái maður einn hest að láni, þá eigi maður að skila hesti, eða hvernig þessi myndlíking er. Mér sýnist aftur að ekki sé bara verið að skila einum hesti, heldur séu þeir ríflega tveir á 14 árum. Sé farið lengra aftur í tímann versnar myndin.
Burt með verðtrygginguna
Í ótrúlega misheppnaðri skýrslu sem Gylfi Magnússon, þáverandi ráðherra, pantaði vorið 2010 um verðtrygginguna koma fyrir nokkrar kostulegar setningar. Hér eru tvær:
Varðandi fjölbreytni fjárfestingarkosta þá má líta svo á að verðtryggð ríkisskuldabréf séu áhættulaus eign og að án þeirra sé enginn slíkur fjárfestingarkostur til staðar...
Fullyrða má að þau rök að verðtryggðir fjárfestingarkostir leiði til minni hættu á óviljandi eignatilfærslum sé rétt...
Skýrslan heitir "Verðtrygging á Íslandi - Kostir og gallar", en fjallaði bara um kosti hennar fyrir fjárfesta og ókostina fyrir fjárfesta, ef hún væri ekki til staðar.
Ofangreindar setningar segja allt sem segja þarf. Lánveitendur vilja halda í verðtrygginguna vegna þess að þá þurfa þeir ekki að hafa fyrir lífinu og vegna þess að með henni á sér stað viljandi eignatilfærsla frá lántökum til lánveitenda.