Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.1.2012. Efnisflokkur: Almennt efni
Án allrar kaldhæðni, þá eru þetta góðar fréttir. Ekki bara það, þetta er í ótrúlegri andstöðu við málflutning hér innanlands um þetta efni. Umræðan undanfarin misseri hefur snúist um það hvað "kerfið" væri andsnúið erlendri fjárfestingu. Vá, Alþjóðabankinn er algjörlega ósammála! Níunda sæti með mörg sterkustu hagkerfi heimsins fyrir aftan okkur í röðinni.
Ok, þetta segir ekkert til um hversu auðvelt er að stofna fyrirtæki hér á landi. Bara hver staðan er í samanburði við önnur lönd. Þau eru kannski bara ennþá erfiðari, en við samt erfið. Eða getur verið að menn séu svo æstir í að galopna Ísland, að þeir átta sig ekki á því að hér er gott umhverfi fyrir fjárfesta. A.m.k. var ekkert mál fyrir Magma Energy að opna skúffu í Svíþjóð og þá var fyrirtækið komið til Íslands.
Skoði maður töflu á bls. 143, þá kemur svo sem í ljós að margt af því sem virðist jákvætt út frá rekstrarforsendum hér á landi, er ekki endilega jákvætt út frá réttarstöðu launþega. Upptalning á bls. 109 sýnir aftur stöðu í þeim atriðum sem notuð eru til að raða þjóðlöndum. Þar kemur fram að í einu atriði skorum við hæst, þ.e. aðgangur að rafmagni, í öðru er landið í þriðja sæti, þ.e. knýja á um framkvæmd samninga, í tveimur er landið í 11. sæti, þ.e. skráning eigna og gjaldþrotameðferð, en í öðrum atriðum raðast landið lægra og lægst er skorið í viskiptum milli landa (81. sæti sem helgast líklegast helst af því að stór hluti flutninga til og frá landinu er með skipum og vegna fjarlægðar og magns kostar meira en gengur og gerist hjá þjóðum í kringum okkur).
Þessi skýrsla Alþjóðabankans um þennan hluta samkeppnishæfni þjóðarinnar er áhugaverð lesning. Hún segir okkur hvar við stöndum okkur vel, en ekki síður hvar eru tækifæri til bæta samkeppnisstöðu okkar sem þjóðar. Helst af öllu dregur hún upp allt aðra mynd af stöðu landsins, en heyra hefur mátt frá ýmsum hagsmunasamtökum.
Færslan var skrifuð við fréttina: Gott að stofna fyrirtæki á Íslandi