Keypt álit eða af virðingu fyrir fræðunum?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 20.1.2012. Efnisflokkur: Lánasöfn

Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvort komin sé upp sams konar samband milli sérfræðinga innan háskólasamfélagsins og "hinna ósnertanlegu" hér á landi og lýst var í myndinni Inside job að hafði myndast milli "sérfræðinga" í bandarískum háskólum og fjármálakerfisins.  Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum eru fimm fréttir sem birst hafa nýlega, þar sem málsmetandi menn innan lagadeildar HÍ hafa tjáð sig um málsvarnir "hinna ósnertanlegu".

Þeir eru svo sem ekki einir um að tjá sig um mál, sem snerta "hinna ósnertanlegu" á þennan hátt.  Margir málsmetandi lögfræðingar (sjálfstætt starfandi lögmenn) hafa líka ítrekað tjáð sig um mál, þar sem oftar en ekki hefur verið haldið uppi nokkuð skeleggri málsvörn fyrir þá sem settu þjóðfélagið á hliðina, þ.e. þá sem ég hef hér kallað hina ósnertanlegu.  Nú hef ég ekki hugmynd um hvort eitthvað af þessum greinum, umsögnum eða viðtölum hafi verið kostuð, en mig grunar að í einhverjum tilfellum sé svo.  A.m.k. halda menn í allt of mörgum tilfellum óhikað áfram gagnrýni sinni og málflutningi, þó svo að Hæstiréttur hafi komist að gagnstæðri niðurstöðu.  (Ekki að Hæstiréttur sé óskeikull.)

Vandinn er að vita hvenær viðkomandi tjáir sig eingöngu af virðingu fyrir lögunum og hvenær viðkomandi hefur verið greitt fyrir að sá fræjum tortryggni (sem vissulega getur verið af virðingu fyrir lögunum).  Þetta er sérstaklega mikilvægt varðandi fræðimannasamfélagið.  Raunar finnst mér að fræðimannasamfélagið eigi að bíða með sínar vangaveltur þar til eðlilegar, fræðilegar rannsóknir hafa farið fram og setja þær síðan fram með viðeigandi vísanir í lög og réttarreglur.  Sumir gera það af stakri prýði, en aðrir hlaupa til og hafa uppi órökstuddan málflutning liggur við "af því bara" (og er ég þá ekki að vísa til þeirra sem fréttirnar fjölluðu um).  Hef ég setið nokkra fundi, þar sem menn hafa tjáð fyrir allfrjálslega um hvernig þeir halda að hlutirnir séu og svo hefur Hæstiréttur komist að andstæðri niðurstöðu.  Finnst mér það hvorki faglegt né fræðilegt.

Ekki væri grunnur fyrir þessum vangaveltum mínum, ef þessir sömu aðilar væru að tjá sig jöfnum höndum um þau mál sem snerta okkur almenning út frá þeim réttarreglum sem gögnuðust okkur.  T.d. ef topparnir í lögmannastéttinni (og fræðimannasamfélaginu) tjáðu sig um vörslusviptingar, áhrif dóma Hæstaréttar á samband kaupanda bifreiðar og lánveitandans, afturvirkni vaxta samkvæmt Árna Páls lögunum og fleira í þeim dúr.   Vissulega hafa einhverjir gert það, en þá hefur ekkert farið á milli mála að þeir voru að tala um mál skjólstæðinga sinna.  Ég hefði aftur áhuga á að vita skoðun, t.d., forseta lagadeildar HÍ á afturvirkni vaxtanna.  Hvers vegna hefur maður sem er í hans stöðu ekkert tjáð sig um slíkt grundvallarmál, þ.e. hvenær löggjafinn má setja afturvirk lög með íþyngjandi ákvæðum fyrir almenning og hvenær ekki?  Mér þætti ákaflega fróðlegt að vita hans skoðun sem fræðimanns á þessu atriði.

Trúverðugleiki fræðimanna innan háskólasamfélagsins er háskólunum mjög mikilvægur.  Sumar stöður eru kostaðar, en það jafngildir ekki því að kostunaraðilinn eigi að fá hagfelda umfjöllun.  Nei, kostunaraðilinn á að fá nákvæmlega sömu meðhöndlun af fræðimönnum háskólanna og hinir sem borga til þeirra í sköttunum sínum. Sá sem lætur það hafa áhrif á rannsóknir sínar og fræðistörf hver kostaði rannsóknina, er ekki lengur fræðimaður.  Hann er leiguliði.

Nú er ég ekki að væna menn innan háskólasamfélagsins um að láta kaupa sig.  Hitt er alveg ljóst að launakjör innan a.m.k. Háskóla Íslands gera menn hvorki feita né ríka.  Þeir hafa því örugglega tekið að sér verkefni gegn greiðslu, þar sem er hreint og beint verið að greiða fyrir nafnið.  Á þessu verða menn að passa sig.  Þegar þeir eru að tjá sig sem fræðimenn, þá mega þeir flagga háskólatitlum sínum, en þess fyrir utan eru þeir bara menn (og konur) með tiltekna menntun og reynslu.  Stóra málið er svo, að fræðimenn tjá sig ekki um einstök mál, heldur um grundvallarspurningar fræðigreinar sinnar.

(Ég skrifaði þessa færslu að mestu um síðustu helgi, en vildi ekki birta hana, nema hafa meira í höndunum.  Nú hefur komið í ljós að bæði Stefán Már Stefánsson og Róbert Spanó þáðu greiðslur frá tveimur af þeim sem þeir virtust verja út frá fræðunum.  Er það ákaflega óheppileg staða svo ekki sé meira sagt.)