Stefán Jón og spillingin

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.1.2012. Efnisflokkur: Spilling

Egill Helgason ræddi við Stefán Jón Hafstein í Silfrinu í gær.  Nú er ég búinn að hlusta á þetta viðtal þrisvar sinnum og þó margt í því þoli að hlustað sé á það aftur og aftur, þá fer endurtekin hlustun ekki eins mjúkum höndum um annað.

Stefáni Jóni er tiðrætt um spillinguna eins og hún hafi orðið til eftir að Ísland varð lýðveldi.  Þetta er náttúrulega ekki rétt.  Þessi spilling sem hann lýsir er angi af höfðingjaveldinu og er búin að vera til staðar hér á landi frá landnámi.  Þetta byrjaði með Ingólfi Arnarsyni sem nam land og leyfði fólki tengdu sér að setjast að í sínu landnámi.  Seinna færðist þetta á goðorðin í íslenska þjóðveldinu og þaðan yfir á eigendur kirkjujarða.  Enginn fékk neitt eða gat gert nokkurn skapaðan hlut nema með samþykki goðanna, síðar kirkjunnar og konunga.  Þar sem valdið var í sveitunum, þá var eðlilegt að "spillingin" væri mest í sveitunum.  Höfðingjastéttin íslenska var eins og aðallinn í Englandi eða Frakklandi.  Fyrir ofan báða þessa aðila í goggunarröðinni voru hirðmenn/ráðsmenn konunga og síðan konungarnir sjálfir.

Þessi þróun hélt áfram, en með einokunarversluninni kom hingað ný höfðingjastétt sem smeygði sér á milli sveitahöfðingjanna (og jafnvel kirkjunnar) annars vegar og hirðmanna/ráðsmanna hins vegar, þ.e. einokunarkaupmenn.  Undir verndarvæng þeirra fengu sumir að gera hluti og eignast meðan aðrir fengu það ekki.  Engeyjarættin er dæmi um ætt sem fékk meðan sveitarmenn af t.d. Víkingslækjarætt fengu ekki.  Önnur varð í kjölfarið valdamikil, en hin ekki.  (Auðvitað eru margir Íslendingar af báðum.)

Það var inn í þessa stéttarskiptingu sem lýðveldið fæddist.  Þ.e. "spillingin" var til staðar þegar lýðveldið var stofnað, en var ekki orsök spillingarinnar.

Spilling í útdeilingu fjár frá Alþingi var engu minni á 19. öld, en hún er í dag.  Þingmenn gerðu allt sem þeir gátu til að fá pening fyrir sitt kjördæmi á kostnað annarra.  Það var bara ekki kallað spilling á þeim tíma.  Sparisjóðir voru stofnaðir til að tryggja fjármögnun í heimabyggð.  Í því fellst ekki spilling, en hún felst í því að sumir í heimabyggðinni fengu fjármagn til framkvæmda meðan aðrir máttu éta það sem úti fraus.

Bæði stjórnmálamenn og fjármálafyrirtæki hafa haldið áfram sínu striki, að meira skiptir hvert bað um peninginn en að skynsamlegt væri að láta viðkomandi hafa peninginn.  Kolkrabbinn, Sambandið, einkavæðingin, Hagar, gagnslausar eftirlitsstofnanir og núna síðast lífeyrissjóðavaldið eru allt angar af því sem var hér á Sturlungaöld, tímum Thors Jensen, einokunarverslunarinnar eða þess vegna þegar valdið var að Skálholti og Hólum.

Hugsanlega hefur okkur gengið verr að losa þjóðfélagið úr viðjum höfðingjasamfélagsins.  Ég er samt ekkert svo viss um að öll héruð Þýskalands þoli ítarlega skoðun.  Eins og Stefán Jón nefndi, þá er Ítalía fast í ótrúlegri spillingu tengdri skipulögðum glæpum.

Í dag hefur í raun fátt breyst, þ.e. Alþingi og fjármálaöflin ráða.  Vilji meirihluti Alþingis sniðganga skynsemi og réttlæti, þá getur hann gert það.  Vilji fjármálafyrirtæki hygla einum en refsa öðrum, þá getur það gert það.  Málið er að þetta er sama spilling og var síðari hluta 19. aldar, hvorki ný né breytt.

Gleymum því aldrei að þessi spilling er alls staðar í heiminum, þar sem er veruleg stéttarskipting.  Hún er ýmist meiri eða minni hér á landi eftir því hvaða land er miðað við.  Þar sem við viljum bera okkur saman við Norðurlönd, þá er ljóst að mikið verk er eftir óunnið til að koma hlutunum í sama horf og mjög oft efast ég um að það muni nokkru sinni takast.