"Geta búist við að fá að meðaltali 40 prósenta niðurfellingu af lánunum"

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.1.2012. Efnisflokkur: Nýir bankar

Á vef dv.is er lítil frétt um skuldauppgjör "tískuverslanaveldisins NTC" við Landsbankann.  Ég ætla ekki að gera það uppgjör að umtalsefni heldur ummæli sem DV hefur eftir talsmanni Landsbankans:

Talsmaður Landsbankans vill ekki tjá sig um það hvort skuldauppgjörinu sé lokið því bankinn tjáir sig ekki um einstök mál en segir að í tilfellum þar sem aðilar tóku erlend myntkörfu­lán fyrir hrun, geti þeir búist við að fá að meðaltali um 40 prósenta niðurfellingu af lánunum.

Ég get ekki annað en dáðst af þessari fullyrðingu talsmannsins, þar sem ég hef verið að fara yfir útreikninga hjá fjölmörgum aðilum og ekki í eitt einasta skipti er niðurfellingin að ná 40% niðurfellingu hvað þá að meðaltalið sé eitthvað nálægt þessu hlutfalli.  Kannski er það þannig, að litli maðurinn fær ekki svona niðurfellingar, heldur bara stóru fyrirtækin sem síðan eru færð yfir til Framtakssjóðs.

Þessi fullyrðing talsmanns Landsbankans er ekki síður áhugaverð fyrir þær sakir, að samkvæmt skýrslu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, um endurreisn bankakerfisins, þá fengu nýju bankarnir 50% afslátt af öllum gengistryggðum lánum (miðað við gengi í október 2008, frekar en lok september það ár). Samkvæmt þessu er bankinn að hagnast að meðaltali um 20% á þessum lánum og meira á umbjóðendum mínum.

Landsbankinn hefur svo sem gengið lengra en aðrir bankar í endurskipulagningu skulda einstaklinga.  Á hann hrós skilið fyrir það.  Uppgjör hans sýna þó að hann á ennþá meira svigrúm inni og hvet ég bankann til að nota það.