Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.1.2012. Efnisflokkur: Almennur fróðleikur
Tvisvar með stuttu millibili hafa birst fréttir, þar sem fjölmiðlafólk (þ.e. blaðamaður mbl.is og fréttakona á RÚV) tengja möguleikann á því að sjá norðurljósin við hitastig. Þar á milli eru ENGIN tengsl.
Bara til að hafa eitt á hreinu, þá myndast norðurljós og suðurljós allt árið um kring, hvor í kringum sinn segulpólinn. Eina ástæðan fyrir því að við sjáum ekki norðurljósin í júní eru óhagstæð birtuskilyrði!
Þeir sem ekki vita betur, tengja norðurljós við kulda af þeirri ástæðu einni, að þau sjá best í heiðskýru veðri þegar dimmt er úti. Slíkar aðstæður geta verið frá um miðjum ágúst fram til apríl loka. Vissulega heldur skýjaleysi meiri útgeislun og því að það kólni, en kuldinn einn og sér skapar ekki neinar kjöraðstæður til að sjá norðurljósin. Úti getur verið 20 stiga frost án þess að norðurljósin láti á sér kræla eða 20 stiga hiti og þau dansa af mikilli ákefð um himinhvolfin.
Von á flottum ljósum í kvöld
Fyrir þá sem sjá í gegn um skýjahuluna, þá er von á flottum norðurljósum í kvöld, ef marka má spár um ljósin. Meðfylgjandi mynd sýnir styrkleika og dreifingu ljósanna kl. 16:11. Styrkleiki þeirra er hár, þ.e. 8, og ná þau mjög langt í suður. Þegar þetta tvennt fer saman, þá má ekki bara búast við kröftugum ljósum heldur verða þau sýnileg um allt land, verði himininn á annað borð heiðskýr.
Rauða örin sýnir hvar sólin er og skýrir það hvers vegna styrkur ljósanna er minnstur þar. Ísland er þar sem 60 er, en það er jafnframt 60. breiddargráða. Ljósin ná að 60. breiddargráðu yfir Síberíu, þannig að þau munu ná vel suður fyrir hana hér síðar í kvöld og nótt. Má búast við miklu sjónarspili ef allt fer sem horfir. Skýjahuluspá fyrir kvöldið er ágæt fyrir Reykjavíkursvæðið, en fyrir þá sem vilja heiðan himinn, þá er best að fara upp í Borgarfjörð eða út á Mýrar hér SV-lands og síðan er gert ráð fyrir heiðskýru yfir allri SA-ströndinni.
Tekið skal fram að styrkurinn breytist með litlum fyrirvara og það er með ljósin eins og margt annað, það sem lítur glimrandi vel út eina stundina er heldur aumt að sjá hina næstu.
Færslan var skrifuð við fréttina: Fastir í norðurljósaskoðun