Landsbankinn: Dómur hefur litið fordæmisgildi!

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.3.2012. Efnisflokkur: Gengistrygging, Kröfuréttur

Skuldara barst bréf frá Landsbankanum:

Sæll  
Því miður þá get ég aðeins gefið þér takmarkaðar upplýsingar um stöðu þessara mála þar sem ekki liggur fyrir hvernig þessum málum verður háttað.

Samkvæmt upplýsingum lögmanna bankans þá hefur dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 lítið fordæmisgildi þar sem deilan snérist um það hvort Frjálsa fjárfestingarbankanum væri heimilt að skuldajafna málskostnaðarkröfu stefnanda við vangreidda vexti sem bankinn taldi sig eiga eftir endurútreikning á fasteignaláni stefnenda. Niðurstaða dómsins var sú að bankinn var ekki talinn eiga kröfu á hendur stefnendum vegna vangreiddra vaxta og var því ekki fallist á skuldajafnaðarrrétt bankans.  
 
Í Hæstarétti verður þann 23. mars nk. flutt mál sem mun hafa mun meira fordæmisgildi heldur en framangreindur dómur um framkvæmd endurútreiknings. Eftir dómsuppkvaðningu mun liggja ljósar fyrir hvaða lán þarf að endurreikna að nýju og hvaða aðferðum þarf að beita til þess.

Í hjálagðri fréttatilkynningu sem Landsbankinn sendi út föstudaginn 2. mars  þá kemur fram að bankinn muni senda út greiðsluseðla meðan óvissa er um þessi mál og að hann hvetji viðskiptavini bankans til þess að greiða þá.  
Kveðja

--
Já, dómur Hæstaréttar hefur lítið fordæmisgildi en samt segir bankinn:  

Niðurstaða dómsins var sú að bankinn var ekki talinn eiga kröfu á hendur stefnendum vegna vangreiddra vaxta

Er ekki allt í lagi?  Mér sýnist þessi texti vera ákaflega skýr varðandi það að ekki megi krefja lántaka um seðlabankavexti.

Í dómi Hæstaréttar nr. 600/2011 frrá 15. febrúar 2012  segir auk þess:

Samkvæmt framansögðu verður að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðili teljist í ljósi atvika málsins hafa fengið réttmæta ástæðu til að ætla að ekki gæti komið til frekari vaxtakröfu varnaraðila síðar.

Hæstiréttur telur því að málið snúist um hvort reikna megi hærri vexti á kröfuna síðar (eins og reyndar lögmenn Landsbankans komast að niðurstöðu um).

Mér finnst lesskilningur lögmanna Landsbankans ekki upp á marga fiska.  Hvernig geta þeir túlkað orðin sem ég vitna í að ofan, bæði í bréfi Landsbankans og dómi Hæstaréttar, þannig að um lítið fordæmisgildi sé að ræða?

Kannski lögmenn Landsbankans eigi að spyrja sig hvers vegna Frjálsi fjárfestingabankinn átti ekki kröfu vegna vangreiddra vaxta.  Jú, ástæðan er augljós:

..þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðila að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu.  Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem [...] lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.

Sem sagt FF átti ekki kröfu til vangreiddra vaxta vegna þess að deilan um vangreidda vexti verður einungis leiðrétt til framtíðar.