Hin endurreista bankastarfsemi á Íslandi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 31.8.2012. Efnisflokkur: Nýir bankar

Undanfarin ár hefur ýmislegt gengið á í endurreistum íslenskum bankarekstri.  Lengi leit út fyrir að menn hefðu ekkert lært af hruninu, svo sljákkaði aðeins á ofsanum, eins og menn ætluðu að gera einhverja yfirbót, en nú er eins og tímavélin hafi tekið völdin.  Oft í viku koma fréttir innan úr bankakerfinu eða mér er sagt af gömlum "snillingum" sem hafa verið endurreistir til fyrri stöðu eða nýir búnir að grandskoða hvað gömlu "snillingarnir" gerðu og hafa það eitt markmið að toppa þá.

Vilji til samninga er horfinn

Endurreistu bankarnir hafa sumir hverjir alveg ótrúlega verkferla, sem eiga ekkert skylt við heiðarlega eða góða viðskiptahætti.  Þannig eru þeir allir að stilla fólki og fyrirtækjum upp við veggi í uppgjörsmálum, eins og þeir (eða starfsfólk þeirra) hafi engin tengsl eða siðferðislegar skyldur gagnvart viðskiptavinum vegna þess sem gerðist hér fram að hruni.  Grófasti gjörningurinn er mikill skortur á siðferði.  Kannski er það ekki hluti af bankarekstri að hafa viðskiptasiðferði, a.m.k. ekki á Íslandi, en víða um heim þykir það líklegt til árangurs að hafa þó ekki væri nema hálfa skeið af mannúð, 2 dl af hógværð og 5 g af skilningi í hverju 1 kíló af líkamsþyngd bankastarfsmanns.  Nei, ekki í hinum endurreistu íslensku bönkum.  Þar var mannúð skipt út fyrir hroka, hógværð fyrir fyrirlitningu og skilningi fyrir græðgi.  Niðurstaðan er svo almennt eftir því.

Tæknin sem hefur verið notuð í samningaviðræðum við viðskiptavinina er einföld.  Hún er svona:

  1. Drögum úr hófi fram að finna niðurstöðu.  Svörum ekki póstum, tilboðum og símtölum nema a.m.k. einhverjar vikur, helst mánuðir fái að líða.

  2. Höfnum öllum tillögum viðskiptavinarins, því hann getur örugglega borgað meira en hann leggur til.

  3. Ásökum viðskiptavininn um allt og ekkert, við hljótum að hitta í mark þó ekki nema einu sinni af hverjum 10.000 skiptum.

  4. Leggjum sjálfir fram tillögur að lausn

    1. Ef viðskiptavinurinn samþykkir, þá hljótum við að hafa boðið of vel og látum lánanefndina hafna.

    2. Ef viðskiptavinurinn hafnar, þá lýsum við frati í hann og sendum málið til dómstóla.

  5. Ef eign viðskiptavinarins er álitleg, þá semjum við ekki, þar sem við græðum meira á því að taka eignina af viðskiptavininum og selja hana sjálfir, en að semja.  Skítt með það þó fólk verði gjaldþrota, við fáum feitan bónus.

Undanfarin tvö ár hafa leitað til mín á þriðja tug einstaklinga og fyrirtækja, sem hafa gengið í gegn um þetta ferli hjá endurreistu bönkunum.  Allir hafa nánast sömu sögu að segja, þ.e. bankinn hefur haldið fólki (og fyrirtækjum) í óljósu samningsferli, þar sem lopinn er teygður út í hið óendanlega, meðan skuldir gera ekkert annað en að safna vöxtum.  Sjáið sko til.  Bankinn gefur ekki vextina eftir þó hann sé valdur af töfinni.  Nei, hann tefur málin eins og hægt er til þess að geta einmitt hlaðið á lánin vöxtum, dráttarvöxtum, innheimtugjöldum, lögfræðiskostnaði og málflutningskostnaði.  Ég hef séð skjöl frá öllum endurreistu bönkunum til sönnunar á þessu, þrátt fyrir að viðskiptavinurinn sé búinn að vera að gera sitt besta til að semja.  Hvernig er hægt að semja við fólk sem fær bónusa fyrir að hafa helst allt af viðskiptavininum?  Það er ekki hægt.

Fasteignafélögin síhungruðu

Kostulegasta nýjunginn eru svo kölluð eignafélög endurreistu bankanna.  Þau eru hálfgerður brandari og skil ég ekki hvernig þau virka.  Eitt þeirra var að skila hátt í 1 milljarðs króna hagnaði í vikunni.  Hvernig ætli þessi hagnaður sé til kominn?  Jú, eign hefur verið hirt af fyrirtæki eða einstaklingi á verulega niðursettu verðmati til þess að eins lítið af skuldum gerist upp á móti.  Síðan er kemur nýtt fasteignamat eða bara nýtt verðmat og þá er allt í einu komin betri tíð og blóm í haga.  Matið hækkar um 15 - 20% og, bingó, fasteignafélagið hefur allt í einu hagnast gríðarlega.  Þó svo að bankinn eigi félagið, þá er hann ekkert að láta hinn óheppna fyrri eiganda fasteignarinnar njóta "lottóvinningsins" heldur er líklegast kominn með hann inn í dómsal vegna eftirstöðvanna.  Það er nefnilega ekki nóg að langleiðina stela eignum af fólki og fyrirtækjum, heldur á að troða fólki (og fyrirtækjum) alveg ofan í svaðið.  Og hirða svo bónusinn fyrir árangursríkt verk!

Bestum árangri ná bankarnir, þegar nýju (eða gömlu) "snillingarnir" sitja á sem flestum hliðum borðsins, þ.e. eru að semja við viðskiptavininn, hafa ótakmarkaðan aðgang að lánanefnd bankans og sinna störfum fyrir fasteignafélagið.  Þá geta þeir þóst vera góðu gæjarnir, en um leið stjórnað aftökunni og að sjálfsögðu hagnast á öllu í gegn um bónusana sem þeir fá frá fasteignafélaginu.

Tekið skal fram að ég er hér að lýsa þeim hluta endurreistu bankanna, sem hefur verið endurreistur hvað best til fyrra horfs frá því fyrir hrun, þ.e. þeim sem snýr að því að svína á viðskiptavinunum.  Hrunbankarnir voru orðnir algjörir snillingar (engar gæsalappir) á þessu sviði, eins og kemur nokkuð ítarlega fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Ég er sem sagt ekki að tala um gjaldkerana eða þjónustufulltrúana, sem sitja í básum sínum í útibúunum.  Það fólk er alveg jafn misnotað af "snillingunum" og viðskiptavinirnir, vegna þess að þetta starfsfólk er notað til að segja fólki og fyrirtækjum alls konar tröllasögur um hve frábær bankinn sé og hvað hann ætli að vera góður við viðkomandi, þó allt annað standi til.

Ég held að hollast sé fyrir bankana að muna, að ánægður viðskiptavinur er líklegri til að vera áfram í viðskiptum en sá sem er óánægður.  Uppgjörsmál vegna hrunsins verða því að innifela í sér gagnkvæman ávinning en ekki að annar sé keyrður í þrot og hinn taki til sín allan hagnaðinn.  Og bankarnir eru að raka til sín hagnaði eins og afkomutölur þeirra leiða í ljós.

Englasöngur bankanna

Allir reyna endurreistu bankarnir að sýnast vera englar.  Íslandsbanki birti t.d. í afkomutölum sínum um daginn hvað hann hefði nú verið góður við viðskiptavini sína.  Bankinn hélt því fram, að afskriftir til viðskiptavina hefðu numið um 394 milljörðum kr. frá hruni.  Þetta er náttúrulega ein sú svakalegasta tröllasaga sem ég hef heyrt, þar sem Íslandsbanki átti aldrei nema mjög lítinn hluta þessara 394 milljarða og því hefur bankinn ekki framkvæmt þessar afskriftir.  Þær fóru fram hjá Glitni.  Talan verður ennþá skrítnari, þegar hún er borin saman við nærri 800 milljarða eignir bankans í lok fyrsta ársfjórðungs 2012.  Eigum við að trúa því, að Íslandsbanki sé ennþá gjaldfær eftir að hafa afskrifað 33% af eignarsafni sínu?  Hey, við erum ekki alveg svona heimsk, þó við trúum á álfa, huldufólk og tröll.  Þessi saga er ótrúlegri en allar slíkar sögur.  Staðreyndin er að megnið af þessum 394 milljörðum hefur ekki verið að finna í reikningum Íslandsbanka frá hruni.  (Hef að vísu ekki gefið mér tíma til að skoða nýjustu skáldsögu bankans.)  Ekki á eignarhliðinni, ekki í varúðarfærslum og ekki í afskriftum.  Þar má kannski finna þriðjung af henni, en líklegast innan við fjórðung.

Brandarinn um afskriftir Íslandsbanka verður enn betri, þegar afkomutölur bankans eru skoðaðar.  Nánast á hverju ársfjórðungi hefur bankinn skilað vænum hagnaði.  Stundum upp á tugi milljarða.  Til þess að bankinn hefði haft efni á því að afskrifa 394 milljarða og vera ennþá með jákvætt eigið fé upp á 135 ma.kr., þá hefði hann þurft að skila 394 milljörðum aukalega í hagnað fyrir afskriftir.  Slíka tölu er hvergi að finna í reikningum bankans, en er ítrekað flaggað í fréttatilkynningum, þegar árshlutauppgjör og ársuppgjör eru kynnt.  (Þess vegna kallaði ég þessi uppgjör skáldsögu hér að ofan.)

Ég er alveg sæmilega læs á ársreikninga og veit því hvað tölurnar þýða sem þar birtast.  Fyrir hrun var logið að okkur og núna eigum við að trúa því að Íslandsbanki sé gjaldfær eftir að hafa afskrifað þriðjung af eignum sínum.  Ætli sé ennþá verið að ljúga að okkur?

(Tekið skal fram að tölur hinn tveggja eru heldur ekki að ganga upp.)