Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.8.2012. Efnisflokkur: Ferðaþjónusta

Á fjörur mínar rak nýlega bók sem mig langar aðeins að fjalla um.  Þessi bók vakti áhuga minn fyrir nokkrar sakir, en þó sérstaklega þar sem ég er leiðsögumaður ásamt öllu öðru sem ég geri.  Hér um ræðir endurútgáfa Sigurðar Sigurðarsonar á bókinni Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls.

Ég hef aldrei gengið Fimmvörðuhálsinn, en eftir lestur bókarinnar, þá er ég ákveðinn í að gera það fyrr en síðar.  Hana prýða m.a. myndir af óteljandi fossum sem eru á leiðinni (og þeir eru í orðsins fyllstu merkingu óteljandi).  Margir þeirra bera áhugaverð nöfn meðan aðrir eru nafnleysingjar.  Myndir af útsýni frá ólíkum stöðum er einnig að finna og flott kort af leiðinni.

Lýsingu á gönguleiðinni yfir hálsinn er skipt í fjóra áfanga, þ.e. 1. áfangi er frá Skógum og upp að göngubrú yfir Fossá (Fossleið), 2. áfangi er frá brú og að skála, 3. áfangi er frá skála að Heljarkambi (um umbrotasvæðið frá 2010) og sá fjórði frá kambinum niður í Bása.  Að sjálfsögðu er hægt að fara leiðina í öfugri röð og síðan ganga fram og til baka hafi menn tíma og orku í það.

Auk lýsingar á gönguleiðinni yfir hálsinn er lítillega fjallað um gönguleiðir á jöklana sem afmarka hálsinn, þ.e. Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul.  Þá er fróðleikur um Fimmvörðuskálann og að sjálfsögðu um eldsumbrotin vorið 2010.

Samkvæmt Sigurði tekur um 9,5 klst. að ganga norður yfir hálsinn, þ.e. frá Skógum í Bása, en ívið lengur eða 10 klst. ef farið er suður yfir hálsinn.  Reikna ég með að inni í göngutímanum sé tekið tillit til þess tíma sem fer í að skoða og njóta útsýnisins og náttúrunnar, þannig að röskir göngumenn, sem ætla bara að þræða stíginn komist þetta að mun skemmri tíma.

Ekki er hægt að fjalla um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls án þess að koma með aðvörðun til þeirra sem þar ætla að fara yfir:

Veður í byggð segir ekkert til um veðrið uppi á hálsinum.  Það hefur oft sannast og kostað mannslíf.  Óreyndir göngumenn eiga ALDREI að fara einir í fyrstu göngu sinni yfir hálsinn.  Menn eiga ALDREI að ganga blindandi eftir GPS-punktum.  Bregðist skyggni í ferðinni, þá er betra að setjast niður á skjólsælum stað og bíða eftir að annað hvort rofi til eða reyndir göngumenn komi sem hægt er að biðja um aðstoð, en að halda göngunni áfram, a.m.k. um Heljarkamb og niður í Bása.  Að sunnanverðu er leiðin almennt mun greiðfærari og hættu minni.

Veðurfar á hálsinum getur verið stórvarasamt og breyst á skömmum tíma.  Oft liggja vindstrengir yfir hálsinn sem loka leiðinni dögum saman.  Úrkomusamt er þar og snjóalög geta bæði verið mikil og varað lengi.

En aftur að bókinni.

Mér sýnist bókin geta nýst flestum sem vilja ganga yfir Fimmvörðuháls.  Ég ætla ekki að lýsa henni of ítarlega, en skilst að hægt sé að finna hana hjá Útivist, Hagkaup og Útilífi.  Sigurður á hrós skilið fyrir að koma þessu efni á prent og hvet hann til að láta snara henni yfir á ensku og jafnvel fleiri tungumál.  Nýlega fékk ég t.d. fyrirspurn til Iceland Guide um gönguferð yfir hálsinn frá bandarískum hjónum og því er ljóst að Fimmvörðuháls á sér aðdáendur víða um heim.