Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.7.2012. Efnisflokkur: Áhættustjórnun
Ýmsir aðilar virðast vera áfjáðir um að lýsa kreppunni lokið. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, telur í grein í DV enga ástæðu til óðagots hvað þetta varðar og tek ég undir þetta með henni.
Sem sérfræðingur og ráðgjafi á sviði öryggistjórnunar, þar sem ég fæst m.a. við gerð áætlana fyrir stjórnun rekstrarsamfellu, gerð viðbragðsáætlana og endurreisnaráætlana, þá verð ég að taka undir með Margréti um að kreppunni er langt frá því að vera lokið.
Hugsanlega eru einhverjir mælikvarðar sem hagfræðingar nota í fræðilegum vangaveltum komnir á það stig að þeir sýna jákvæða þróun, en það þýðir eingöngu að þau atvik sem hleyptu kreppunni af stað eru horfin úr umhverfinu, en kreppunni lýkur ekki fyrr en þjóðfélagið er komið í varanlegt horf. Hægt er að nota þá samlíkingu að tveir öflugir jarðskjálftar riðu yfir Ísland árið 2008. Fyrri í mars og hinn síðari í október. Þessum jarðskjálftum fylgdu óteljandi miðlungs stórir og stórir eftirskjálftar og varð þeirra vart meira og minna fram á þetta ár. Nú höfum við ekki fundið fyrir neinum skjálftum af þessari stærðargráðu í nokkra mánuði og því lýsa jarðfræðingar því yfir að þessar skjálftahrynu sé lokið. En er þýðir það þá að við séum búin að vinna okkur í gegn um tjónið sem skjálftarnir ollu? Nei, alls ekki og langt frá því.
Stjórnun rekstrarsamfellu og neyðarstjórnun
Innan við 50 fyrirtæki á Íslandi hafa innleitt stjórnkerfi eða undirbúið sig á skipulegan hátt fyrir áföll. Þetta kom berlega í ljós haustið 2008. Fjármálakerfið vissi ekkert hvernig það átti að haga sér og hafði siglt að mestu leiti sofandi að feigðarósi. Ég segi að mestu leiti, þar sem frá 2005 - 6 hafði ég veitt Landsbanka Íslands takmarkaða ráðgjöf, sem byggði á því að kanna stöðu þessara mála hjá erlendri starfsemi bankans (þ.e. útibúa og dótturfélaga), og í lok ágúst 2008 fór þessi vinna af stað aftur, en því miður allt, allt of seint. Reiknistofa bankanna hafði gengið lengra og keyrði viðbragðsáætlun um miðjan september 2008, þar sem líkt var eftir falli eins banka. Var þetta ein helsta ástæðan fyrir því hve vel tókst að færa viðskipti frá hrunbönkunum til nýju bankanna. Seðlabankinn var með neyðaráætlanir tiltækar, sem björguðu miklu. Síðan var Valitor búið að innleiða hjá sér nokkuð gott stjórnkerfi rekstrarsamfellu með viðbragðsáætlunum (undir minni handleiðslu) og varð það m.a. til þess að hér tókst að halda kortaviðskiptum með VISA kort gangandi.
En ég ætla ekki að tala um hverjir voru búnir að gera hvað, heldur hvernig þessa vinna skiptist upp í fasa. Fyrsti fasi svona vinnu er áhættumat til að auðkenna þær eignir, starfs- og þjónustuþætti sem styrkja þarf til að draga úr líkum á tjóni eða þjónusturofi. Í framhaldinu (eða samhliða) eru skilgreindir varakostir. Þetta heyrir undir stjórnun rekstrarsamfellu, sem gengur út á að halda rekstrinum (eða a.m.k. afmörkuðum þáttum hans) gangandi þó svo að áfall ríði yfir. Annar fasi er neyðarstjórnun eða viðbragðsfasi. Nú hefur áfall riðið yfir sem valdið hefur tjóni og þá þarf að vera tilbúin áætlun um hvernig eigi að bregðast við. Þessi fasi snýst um að bjarga mannslífum og verðmætum, að koma í veg fyrir frekara tjón og ná tökum á ástandinu. Meðan þessi fari er í gangi, þá er yfirlýst neyðarástand viðvarandi. Þriðji fasinn er endurreisnin. Hann varir mun lengur en annar fasinn og meðan endurreisnin er í gangi, þá hefur viðbragðsástandi ekki verið aflýst. Þriðja fasa er oftast skipt í mörg þrep, þar sem fyrst er endurreist lágmarksþjónusta, þá önnur grunnþjónusta og loks sá hluti starfseminnar sem eftir stendur. Viðbragðsfasanum er ekki aflýst fyrr en öll starfsemi er komin í endanlegt horf á varanlegum stað.
Kreppan og fasarnir þrír
Kreppunni sem dundi yfir land og þjóð árið 2008 má líkja við að neyðarástand hafi skapast, þannig að við hoppum strax inn í fasa tvö, neyðarstjórnun og viðbragðsáætlanir. Líkja ástandinu sem skapaðist við að tveir mjög öflugir jarðskjálftar hafi riðið yfir landið, annars vegar í mars 2008 og síðan í október. Eftir það hefur gengið á með öflugum eftirskjálftum og þó menn hafi náð að anda léttar í nokkra daga, vikur eða mánuð, þá hafa öflugir eftirskjálftar komið sem hafa minnt menn á að ekki eru allir hagvísar fastar stærðir.
Ég lít svo á að við séum í endurreisnarfasa ferlisins. Þó einhverjar hagtölur séu jákvæðar, þá þýðir það eingöngu að langt er síðan síðasti öflugi eftirskjálftinn reið yfir. Kröfueldar stóðu yfir með hléum í 8 ár. Goshléin fengu menn oft til að halda að eldarnir væru á enda, en svo var ekki. Einstakir jákvæðir hagvísar geta bent til þess að ekki sé von á fleiri eftirskjálftum, en þeir geta líka verið svikalogn á undan stormi. Ástandið á evrusvæðinu, og raunar í Bandaríkjunum líka, bendir til þess að enn geti komið upp atvik sem valda því að hér hriktir í stoðum.
Samkvæmt fösunum þremur er Ísland einhvers staðar í miðri endurreisn. Sumir þættir eru vissulega komnir í endanlegt og varanlegt horf, eins og menn sjá fyrir sér framtíðina, en aðrir eru langt frá því að vera komnir fyrir vind, hvað þá í varan
Bankakerfið er í miðri endurreisn, þar sem staða þess er ekki orðin endanleg, m.a. vegna þess hve illa þeim gengur að skilja dóma Hæstaréttar og síðan dóm ECJ í máli C-618/10. Íslenskt atvinnulíf er enn að stórum hluta í miðri endurreisn, þar sem fjölmörg fyrirtæki eru enn að ganga í gegn um úrvinnslu sinna mála í bankakerfinu. Heimilin eru mjög mörg enn í endurreisn af því að málum þeirra er ekki lokið hjá Umboðsmanni skuldara, bönkunum og dómstólum. Atvinnuleysi er endurreisn, þ.e. þó atvinnulausum hafi fækkað, þá eru þeir enn mun fleiri en við eigum að venjast. Efnahagslífið er í endurreisn, þar sem styrkur efnahags þjóðarinnar er langt frá því að vera sá sami og áður. Skuldir þjóðarbúsins eru í stöðu endurreisnar, þar sem þær eru langt umfram það sem ásættanlegt er. Krónan er í endurreisnarfasa og þó hún muni líklegast aldrei ná sama styrk aftur, þá telst gjaldeyriskreppunni lokið um leið og gjaldeyrishöftum verður aflétt.
Kreppunni er ekki lokið
Samkvæmt þeim ummælum sem ég hef lesið um að kreppunni sé lokið, þá ætti sumarið að vera komið ef hitastig fer úr mínus 10 gráðum í plús 2 á nokkrum vikum. Ekki er ég viss um að nokkur Íslendingur samþykki það. Kreppunni er ekki lokið þó atvinnuleysi minnki eða hagvöxtur sést í bráðabirgðatölum. Neyðarástand getur verið yfirstaðið, en kreppunni lýkur ekki fyrr en endurreisninni lýkur hjá stærstum hluta þjóðarinnar.
Hvernig getur kreppunni verið lokið, þegar við búum við gjaldeyriskreppu, skuldakreppu þjóðarbúsins, skuldakreppu ríkissjóðs, skuldakreppu sveitarfélaga, skuldakreppu heimilanna, bankarnir vita ekki upphæð krafna þeirra, atvinnuleysi er ennþá þrefalt á við það sem það var fyrir hrun, viðurskurður í velferðarkerfinu er kominn út fyrir öll þolmörk, lífeyrissjóðirnir eiga 660 ma.kr. minna en skuldbindingar þeirra hljóða upp á? Sá sem segir að kreppunni sé lokið, er greinilega lokaður inn í þröngum heimi fræðigreinar sem skilur ekki hvað er að gerast utan veggja hennar. Nei, mér er alveg sama hvaða menntun menn hafa eða hversu flotta titla þeir bera: Sá sem heldur því fram og trúir eigin orðum um að kreppunni sé lokið, hann lifir í slæmri afneitun.
Hið rétta í stöðu er að endurreisn lágmarksþjónustuþátta þjóðfélagsins gengur að mörgu leiti mjög vel. En umfram það er ástandið víða heldur dapurt og miklar fórnir verið færðar. T.d. ber 40% hækkun á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur vott um hvernig komið var í veg fyrir að fyrirtækið færi á hausinn og skrúfað væri fyrir heitt vatn og slegið út rafmagn til notenda. Næsta þjónustustigi á eftir hefur ekki verið náð, sem felst í eðlilegu viðhaldi lagna, og það þriðja sem er nýframkvæmdir á langt í land. Á Landspítalanum er búið að skera svo mikið niður að ekkert má út af bera svo ekki skapist neyðarástand. Nei, enn og aftur, kreppunni er ekki lokið nema í mesta lagi hjá takmörkuðum hluta þjóðarinnar, þ.e. þeim sem skulda ekkert, eru vellaunuðu starfi, ferðast ekki til útlanda, búa utan höfuðborgarsvæðisins og nota ekki innflutt eldsneyti. Fyrir alla aðra eimir eftir af kreppunni.