Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.8.2012. Efnisflokkur: Staða almennings
Á visir.is er frétt um afskriftarþörf Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hún hefur aukist gríðarlega að því virðist af þremur ástæðum. Fyrsta er nýtt reiknilíkan, önnur er neikvæð launaþróun árið 2011 og þriðja er breytt samsetning og hegðun lántaka. Mig langar að fjalla um þátt tvö.
Í frétt visir.is er rætt við/vitnað í Harald Guðna Eiðsson þar sem hann segir:
Í fyrsta lagi breyttum við forsendum reiknimódels sjóðsins. Þær eru endurskoðaðar reglulega. Þetta er einskiptisaðgerð sem útskýrir tæplega fjóra milljarða króna af þessari hækkun á framlagi. Í öðru lagi eru áhrif af því að launaþróun lánþeganna, eða greiðenda námslána, var neikvæð á árinu um 1,77 prósent. Vegna verðbólgu og verðbóta hækkuðu hins vegar námslánin. Þetta er líka svolítið stór þáttur í þessu.
Þriðja atriðið er breytt samsetning og hegðun lántaka. Fólk er almennt lengur í námi. Margir fóru til dæmis aftur í nám eftir hrunið en voru kannski með námslán fyrir. Þá hækkaði fall krónunnar lán þeirra sem stunda háskólanám erlendis í krónum talið. Það er því sístækkandi hópur sem er komin með svolítið há lán og líkurnar á því að þau endurgreiðist að fullu verða minni.
Lántakar hjá LÍN eru um 50.000 samkvæmt upplýsingum í ársskýrslu 2010-2011, um 20.000 virkir lántakar og um 30.000 greiðendur. Haraldur Guðni segir að launaþróun þessara um 30.000 hafi verið neikvæð um 1,77% árið 2011!
Skoðun þá hvað Hagstofan segir um launaþróun:
Í janúar 2012 var 12 mánaðahækkun launavísitölu 9,1%
Lántakar LÍN eru að stórum hluta langskólagengið fólk, sem ætti að mynda sérfræðingastétt þjóðarinnar og þar með millistétt og efri millistétt þjóðarinnar. Samkvæmt Haraldi, þá er það reynsla LÍN að laun þeirra hafi lækkað um 1,77% milli 2010 og 2011 meðan Hagstofan segir að launavísitalan hafi hækkað um 9,1% frá janúar 2011 til janúar 2012. Hér munar svo miklu að nauðsynlegt er að fá skýringu á þessum mun. Ekki er hægt að segja að þessi hópur hafi bara ekki hækkað eins mikið og aðrir, því það þýðir einnig að aðrir hópar hafa hækkað verulega umfram 9,1%.
Mig langar að fá að vita hvernig standi á þessum gríðarlega mun á tölum LÍN um launaþróun greiðenda sinna og útreikningum Hagstofunnar á hækkun launavísitölu. Í mínum huga geta ekki báðar tölurnar verið réttar. Svo einfalt er það.