Af vanhæfi, hlutleysi og fagmennsku dómara

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.2.2012. Efnisflokkur: Dómstólar

Á Eyjunni er frétt þar sem rætt er við Brynjar Níelsson (eða vitnað í hann) vegna gagnrýni sem komið hefur á einn dómara í Hæstarétti fyrir að hafa ekki sagt sig frá máli, þegar kom í ljós að góður vinur hans flutti málið fyrir annan málsaðilann.  Mér er alveg sama hverjir einstaklingarnir eru, þar sem í mínum huga snýst málið ekki um einstaklinga heldur grundvallarmál.

Af hverju veldur það ekki vanhæfi ef dómari og lögmaður annars aðila eru bestu vinir, en það veldur vanhæfi ef viðkomandi eru venslaðir eða tengdir nánum ættarböndum eða eins og Brynjar nefnir, hjón, skil ég ekki?  Menn sem spila golf saman eyða meiri tíma við þá iðkun en með bróður sínum eða systur á heilum mánuði eða þess vegna ári.

Mér finnst þetta dæmi um vonlausar rökleiðingar sem hinir löglærðu setja oft fram.  Því miður er mýgrútur af slíku í dómasafni landsins.  Fer stundum um mig hrollur við lestur rökleiðslu hvort heldur lögmanna eða dómara.

Hvers vegna velta menn fyrir sér vanhæfi?

Af hverju væri vanhæfi til staðar ef dómarinn væri bróðir lögmannsins (eða maki)?  Jú, vegna þess að dómarinn gæti meðvitað eða ómeðvitað dregið taum bróðursins (makans) í málinu.  Þannig að ástæða er ekki eingöngu að viðkomandi eru bræður (hjón) heldur vegna þess að dómarinn gæti ekki gætt hlutleysis.  Af hverju ætti dómarinn að vera líklegri til að gæta hlutleysis þegar góður vinur á í hlut?  Gott væri að fá skýringu Brynjars Níelssonar á því.  Ekki með tilvísun í bókstaf laganna um hæfi eða vanhæfi, heldur út frá því sjónarmiði að dómarinn eigi að geta sýnt hlutleysi í málinu.  Og fyrst Brynjar nefnir fagmennsku, þá er þetta einmitt dæmi um að fagmennsku er ekki gætt.

Tekið skal fram að ég er ekki að væna einn eða neinn dómara um að gæta ekki hlutleysis.  Ég er að benda á að slíkt hlutleysi er ekki hafið yfir eðlilegan vafa, þegar kemur í ljós að menn eru í svo nánu sambandi að þeir fara á bíó saman eða spila golf saman.  Hvað vitum við nema bíóferðin hafi verið farin í yfirskyni þess að geta rætt málin saman.

Teldist vanhæfi í mínu starfi

Ég vinn m.a. við úttektir.  Sem úttektarmaður, þá þarf niðurstaða mín þegar um svo kallaða ytri úttekt er að ræða, að vera hafin yfir allan vafa.  (Ytri úttekt er þegar hlutlaus aðili tekur út fyrirtæki og ætlunin er að nota niðurstöður úttektarinnar til að fá viðurkenningu á borð við vottun, samning við þriðja aðila eða fá að tengjast t.d. viðskiptakerfi þriðja aðila.)  Mér dettur ekki í hug að vinna að ytri úttekt hjá fyrirtæki sem einhver sem ég þekki náið stýrir.  Ég gæti unnið innri úttekt, þar sem hún væri eingöngu ætluð fyrirtækinu sjálfu.  Að sjálfsögðu tel ég mig hafa nægilega fagþekkingu í mínu starfi annars tæki ég aldrei að mér að vinna úttektina.  Ég tel mig líka nægilegan fagmann, en það er einmitt þess vegna sem ég kæmi aldrei að ytri úttekt hjá einhverjum sem ég er í miklum persónulegum tengslum við, þ.e. hef unnið hjá eða fyrir undanfarin 3-5 ár, er venslaður mér eða telst til míns helsta vinarhóps.  Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá getur sá sem nýtir sér úttektina ekki rengt hana (þ.e. ef ég vinn hana ekki) eða notað hana gegn fyrirtækinu á síðari stigum og þar með grafið undan faglegri ímynd minni (þ.e. hafi ég unnið hana).  Þetta snýst ekki um faglega þekkingu mína á viðfangsefninu heldur eingöngu hvers konar fagmaður ég er.

Fagleg þekking og fagmennska eru ólíkir hlutir

Átta menn sig ekki á því, að fagleg þekking og fagmennska eru tveir óskyldir þættir.  Einstaklingur getur sýnt framúrskarandi faglega þekkingu á viðfangsefni en verið algjör rusti í framkomu, druslulegur, dónalegur og svo hlutdrægur að hið hálfa væri nóg.  Svo er það hinn sem sýnir fagmennsku í öllu sem hann gerir. Svo sem vinnur ítarlega heimildarvinnu og vitnar í alls konar lög máli sínu til stuðnings, snyrtilegur, gætir fullkomlega hlutleysis o.s.frv. en í ljós kemur að hann er á algjörum villugötum hvað varðar skilning sinn á efninu.  Er ekki einu sinni í réttu lagasafni.  Það dregur samt ekki úr því að hann sýndi óaðfinnanlega fagmennsku, en fagþekkingunni var ábótavant.

Að dómara skuli detta í hug að víkja ekki í máli þar sem mjög góður félagi hans er lögmaður annars aðila ber vott um skort á fagmennsku og, þar sem meira er, telst í mínum huga dómgreindarleysi.  Það hefur ekkert með þekkingu hans á þeim lögum sem dæma skal eftir eða að hann gæti ekki úrskurðað í sambærilegu máli sem annar lögmaður flytur.  Nei, þetta fjallar númer eitt, tvö og þrjú um það, að hinn aðili málsins geti ekki verið viss um fullkomið hlutleysi dómarans.   Með því að víkja sæti er hann því ekki síður að verja sig fyrir (tilhæfulausum) ásökunum um spillingu.