Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.2.2012. Efnisflokkur: Stjórnmál
Ég var að hlusta á Silfur Egils, þar sem eru í panel fjórir einstaklingar. Tveir sem eru að meta stöðuna á hlutlausan hátt, þ.e. Jóhanna Vigdís og Styrmir, og tveir sem eru að drepast úr spælingu yfir góðu gengi SAMSTÖÐU - flokks um lýðræði og velferð, þ.e. Þóra Kristín og Sighvatur. Þau fyrrnefndu tjáðu skoðun sína á hlutlausan hátt og lýst því sem er að gerast, meðan hin tvö fóru með alls konar rangfærslur um SAMSTÖÐU og fyrir hvað hún stendur og Sighvatur síðar um lífeyrissjóðina. Sumu af þessu verður bara að svara.
Spuni Þóru Kristínar
Þóra Kristín hélt því fram að Lilja Mósesdóttir og SAMSTAÐA hafi ekki viljað og vilji ekki vinna með Hreyfingunni og elur á því að hún sé ekki húsum hæf og vilji ekki vinna með neinum. Nú er ég einn af þeim sem er í baklandi SAMSTÖÐU þó svo að ég hafi ekki talið rétt að bjóða mig fram til skilgreindra trúnaðarstarfs fyrir flokkinn. Kom ég að vinnu við grunnstefnu flokksins og stefnuskrá var á eins mörgum undirbúningsfundum og mér var mögulegt. Ég veit því upp á hár hvaða umræða hefur átt sér stað og á hvaða línu.
Það fer enginn í samstarf við annan aðila nema vera með sína stefnu á hreinu. Stefna er ekki á hreinu nema hún sé skjalfest. Þetta er sú leið sem var farin. Ég er fyrsti maður til að viðurkenna, að margt er líkt með því sem Hreyfingin stendur fyrir og því sem stendur í stefnuskrá SAMSTÖÐU, en það var ekki vitað fyrr en stefnuskrá SAMSTÖÐU var komin niður á blað. Hitt er að Hreyfingin var í viðræðum innan svo kallaðrar Breiðfylkingarog er það enn. Spyrjum að leikslokum varðandi Breiðfylkinguna og sjáum svo hvort Breiðfylkingin og SAMSTAÐA eigi einhverja samleið. Sjálfur sé ég marga vinkla á slíku og hef marg lýst því yfir að ég mundi vilja sameina það fólk sem harðast hefur barist fyrir nýju Íslandi með réttlátri leiðréttingu skulda heimila og rekstrar fyrirtækja og nauðsynlegri siðbót í samfélaginu.
Ótrúlegur Sighvatur
Sighvatur Björgvinsson er greinilega ekki hættur í pólitík og þekkir manna best þá leið að búa sannleikann í trúverðuga felubúninga. Málið er að hann er ekki að segja sannleikanna. Tvö atriði standa upp úr:
1. Erlendir kröfuhafar eiga stjórnarskrárvarðan rétt á kröfur sínar í gömlu bankana. Kröfuhafar gömlu bankanna skiptast í þá sem áttu kröfurnar fyrir 6. október 2008 og þá sem eignuðust þær eftir þann dag. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að eignarréttur þeirra sem áttu kröfurnar fyrir 6. október 2008 er ríkari en þeirra sem eignuðust þær síðar. Samkvæmt yfirliti yfir kröfuhafa í gömlu bönkunum sem hafa birst í fjölmiðlum, svörum ráðherra á þingi og í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, þá hefur stór hluti núverandi kröfuhafa eignast kröfurnar eftir 6. október 2008. Hæstiréttur sagði í Icesave dómum sínum, að þeir sem keyptu kröfurnar með miklu afslætti, allt niður í 5% af nafnverði, eigi bara varinn eignarrétt fyrir þessum 5 prósentum en ekki öllum 100. Þannig, Sighvatur, hættu að fara með svona steypu og ferðu að tala fyrir hagsmunum Íslands en ekki hagsmunum sem kröfuhafar eiga ekki.
2. Meginhluti lífeyris hans kæmi frá þeim tíma þegar hann var blaðamaður. Sighvatur Björgvinsson er búinn að vera þingmaður, eins og kom fram, síðan áður en verðtryggingunni var komið á. Hann kom fyrst inn á þing árið 1974. Hann hefur því fengið lífeyrisrétt af blaðamannalaununum sínum fyrir þann tíma (1969-1974). Guðmundur Gunnarsson fletti óvart ofan af bullinu í Sighvati, þegar hann sagðist hafa greitt í lífeyrissjóð frá 1970 og á þeim tíma þegar verðtryggingunni var komið á átti hann andvirði eins lambalæris! Sé Sighvatur að fá megnið af lífeyri sínum af því sem greitt var inn þegar hann var blaðamaður, þá er greinilegt að einhver annar er að greiða fyrir hann. Svo skulum við ekki gleyma því að Sighvatur var þingmaður í 15 eða 17 ár, ráðherra í nokkrum ríkisstjórnum og loks kommissar í Tryggingastofnun ríkisins. Ætli hann sé ekki að njóta lífeyris vegna þeirra starfa í dag, þ.e. úr Eftirlaunasjóði þingmanna (sem aldrei hefur átt fyrir útgreiddum lífeyri), Eftirlaunasjóði ráðherra (sem aldrei hefur átt fyrir útgreiddum lífeyri) og loks LSR. Ég skal hundur heita, ef Sighvatur er að fá meira út úr lífeyrissjóðnum sínum sem hann greiddi í sem blaðamaður með grænjaxlalaun, en úr öllum hinum. Nú ef svo er, þá er alveg öruggt að hann er ekki að fá þann lífeyri fyrir þann pening sem hann og Alþýðublaðið greiddu inn, því eins og Guðmundur lýsti svo vel var hann orðinn að lambalæri árið 1979 og Sighvatur vill bara fá lambalæri í dag hafi hann lagt inn lambalæri! Svo má náttúrulega ekki gleyma því að Sighvatur fengi lambalærið út á 6-8 árum, þannig að hann fær bara nokkrar sneiðar á hverju ári!
Ég gæti tekið nokkur atriði til viðbótar hjá Sighvati, en læt það vera.
Mér leiðist það, þegar maður eins og Sighvatur kemur fram og skreytir sannleikann eins og hann gerði í Silfrinu. Það er honum ekki samboðið.
Tvö atriði hjá Guðmundi Gunnarssyni
Guðmundur Gunnarsson sagði að verið væri að greiða milli 70 og 80 ma.kr. á ári úr lífeyriskerfinu. Það er bara núna þegar greiddir hafa verið vel yfir 50 ma.kr. úr séreignarsjóðum á þremur árum. Sleppum greiðslunni úr séreignarsparnaði og þá er talan um 40-45 ma.kr.
Annað var þessi umræða um að lífeyrissjóðirnir hafi ekki mátt gefa verðtrygginguna eftir, þar sem menn hefðu með því brotið lög. Enginn var að segja að þetta hefði verið gert án lagasetningar. Mér finnst þetta aumur útúrsnúningur sem var líka notaður á okkur í Hagsmunasamtökum heimilanna á fundi með Landssamtökum lífeyrissjóða haustið 2010. Fyrirgefið, þið eruð að tala við hugsandi fólk en ekki tóma grautarhausa.
Hægri - vinstri - snú
Ingimar Karl Helgason þykist hafa himinn höndum tekið vegna ummæla Sigurðar Þ. Ragnarssonar í Silfrinu um að SAMSTAÐA - flokkur lýðræðis og velferðar væri ekki vinstri flokkur og þegar litið væri á þá sem stóðu að stofnun hans væri alveg eins hægt að kalla hann hægri flokk. Greinilegt er að fjölmiðlamenn og stjórnmálaskýrendur eru í miklum vanda. Kominn er fram flokkur sem ekki vill taka sér sæti samkvæmt skipaninni í franska þinginu á 18. öld.
Átta menn sig ekki á því, að stjórnmál í dag eru ekki lengur um hugmyndafræði 19. aldar? Landsstjórn snýst um að gera það sem kemur best út fyrir þjóðfélagið á hverjum tíma. Eina stundina getur það þýtt aðgerð sem er í anda frjálshyggju eins og að losa verslun undan verðlagsákvörðunum, aðra róttæk þjóðnýting eins og þegar Landsbankinn var tekinn yfir, þriðja atriðið er dreifingar ábyrgðar eins og þegar grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna á sínum tíma. Vá, Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þessu öllu, en eitt atriðið er argasti kommúnismi, annað frjálshyggja og þriðja félagshyggja. Hér á landi er meiri ríkisrekstur en í flestum samfélögum í kringum okkur, en þar hafa þó oftar verið vinstri stjórnir en hér á landi. Velferðarkerfið er í anda jafnaðarmennsku Norðurlandanna. Er Sjálfstæðisflokkurinn þá í raun og veru vinstri flokkur, þar sem hann hefur verið oftast í stjórn og viðhaldið þessu kerfi? Nei, hann er bara sambland af öllum stjórnmálastefnum og leggur eins og fleiri áherslu á það sem selur best hverju sinni, en hann kallar sig hægri flokk þar hefði honum verið skipað til sætis í franska þinginu. Hægra megin við hina!
Bara til að fólk átti sig á því hvaðan fólk er að koma sem stendur að SAMSTÖÐU - flokki um lýðræði og velferð, þá koma nokkrir úr Fólkinu í bænum í Garðabæ, þarna er varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna og fyrrum Sjálfstæðismaður, fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna, fyrrverandi formaður Landsamtaka framsóknarkvenna, sjálfur hef ég hvergi verið í flokki fyrir utan að ég skráði mig í Framsókn vorið 2010 til að styðja Gísla Tryggvason í prófkjöri flokksins. Hef ég ekki komið því í kring að skrá mig úr flokknum. Út frá þessu er ljóst að margir koma af hægri vængnum, aðrir úr miðjunni og enn aðrir, eins og Lilja, af þeim vinstri. En við sameinumst í þessu afli sem neitar að láta draga sig í dilka úreltrar hugmyndafræði sem á enga samleið með nútímanum.