480 ma.kr. menntunarkostnaður lífeyrissjóðanna - Lífeyrissjóðirnir taki yfir Íbúðalánasjóð

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.2.2012. Efnisflokkur: Lífeyrissjóðir, Íbúðalánasjóður

Oft hef ég deilt á sýn Guðmundar Gunnarssonar á hlutina.  Í dag birtir hann færslu á bloggi sínu, Samhengi hlutanna, og setti ég meðfylgjandi athugasemd inn á hjá honum. Í þessu tilfelli get ég tekið undir flest það sem hann segir.

Sparisfjáreigendur ekki skúrkar hrunsins

Rétt er það að eigendur sparifjár er ekki skúrkar hrunsins.  Þeir eru miklu fremur þeir sem stjórnvöld ákváðu að ættu ekki að taka hrunið á sig ólíkt öllum hinum.  Að mörgu leiti finnst mér staða þessa hóps verst af öllum þeim mismunandi hópum sem urðu fyrir tjóni af hruninu.

Rétt er það, að þeir sem lögðu sparnað sinn í hlutfé í góðum og gildum fyrirtækjum (eða það héldum við öll) þeir eru búnir að missa þann sparnað.  Hef ég margoft mælt fyrir því að þessu fólki, þ.e. litlum hlutabréfaeigendum, væri bætt tjón sitt þó ekki nema að hluta.  Ég veit um marga sem fóru frá ríkidæmi til nánast örbirgðar á þremur dögum út af þessu.

Upplýsingagjöd stjórnvalda brást

Rétt er að á árunum fyrir hrun var viðhöfð aðferð svepparæktar varðandi stóran hluta upplýsingargjafar um stöðu fjármálakerfisins (og er að hluta enn gert), þ.e. "keep them in the dark and feed them shit!"

Skiptir ekki máli hvað við köllum það sem tapaðist

Mér finnst það aftur vera orðaleikur að tala um að iðgjöld hafi ekki glatast, bara ávöxtun.  Það er náttúrulega ekki rétt, þar sem iðgjöld voru notuð til að kaupa hlutabréf og skuldabréf.  Þetta var ekki keypt fyrir ávöxtun sem aðrar fjárfestingar gáfu af sér.  Raunar skiptir ekki máli hvort það var sem tapaðist.  Mestu máli skiptir að lífeyrissjóðirnir töpuðu eignum sem áttu að ganga upp í réttindi sjóðfélaga.

Skattgreiðendur taka á sig mest allt tapið

Ég held að menn verði að horfast í augu við það, að tap allra lífeyrissjóðanna lendir á skattborgurum.  Ekki í formi inngreiðslna, eins og hjá LSR/LH, heldur sem annars vegar tapaðar skatttekjur og hins vegar aukin framlög til almannatrygginga, a.m.k. eins og kerfið er í dag.  Kostnaður ríkisins af ríkisábyrgð á LSR/LH er því mun minni en mann vilja vera láta.  Eins og kerfið er í dag rennur allt að 100% af greiðslum úr líferyissjóði aftur til ríkisins, annað hvort í formi skatta eða í formi lækkaðra útgjalda.

Langtímaávöxtun á að ráða för

Lífeyrissjóðirnir villtust út af þeirri leið, að langtímaávöxtun skipti meira máli en skammtímaávinningur.  Kröfur um mikla ávöxtun geta farið saman með því að henni sé náð til langstíma.  Hrunið er skýrasta sönnun þess.  Þeir lífeyrissjóðir sem töpuðu minnstu voru í langtímafjárfestingum á föstum vöxtum.

Hæfi stjórnarmanna skiptir máli og ekkert annað

Hvernig menn eru nákvæmlega valdir inn í stjórnir sjóðanna skiptir ekki mestu máli meðan að viðkomandi er hæfur til setu.  Ég hef ekki tekið undir það sjónarmið að seta launagreiðenda sé af hinu illa.  Allt veltur á einstaklingnum.  Þess fyrir utan er hæfi afstætt.  Mestu skiptir að menn viðhafi fagleg vinnubrögð sem tryggi langtímahagsmuni.  Mér liggur við að segja, að banna eigi fjárfestingar/ávöxtunarleiðir sem eingöngu er ætlað að tappa af einhverri tískubólu.

Slíðrum sverðin og byggjum saman upp

Loks vil ég segja, að tími sé kominn til að slíðra sverðin og snúa bökum saman.  Framundan er grettistak í viðreisn lífeyrissjóðanna og ekki minni í endurreisn trausts í samfélaginu.  Vissulega þurfa einhverjir að stíga til hliðar, en þrátt fyrir allt verðum við að halda einhverjum "skúrkum" eftir í þeirri von að þeir hafi lært af reynslunni.  Gleymum því ekki að við vorum að leggja 480 ma.kr. í menntunarkostnað þeirra og synd væri að láta þá menntun fara til ónýtis.

En uppbyggingin verður að ná til fleiri þátta en bara eigna lífeyrissjóðanna.  Stórt verkefni sem tengist sjóðunum sterkum böndum er vandi þeirra sem eru með síhækkandi húsnæðislán fengin hjá Íbúðalánasjóði.  Nú vil svo til að lífeyrissjóðirnir eiga stóran hluta af þeim lánum sem ÍLS (og forverar hans) hefur nota  til að fjármagna útlán sín.  Ég hef því velt fyrir mér hvort réttast væri að lífeyrissjóðirnir hreinlega eignuðust sjóðinn.  Þar með væru þrjár flugur slegnar í einu höggi.  Í fyrsta lagi væri fjármögnun húsnæðislána tryggð um líklegast alla framtíð.  Í öðru lagi fengju lífeyrissjóðirnir farveg fyrir drjúgan hluta fjármuna sinna.  Í þriðja lagi færi ríkisábyrgðin af húsnæðislánakerfinu.

Bæði eru kostir og gallar á því að lífeyrissjóðirnir taki yfir Íbúðalánasjóð.  Þá þyrfti að skoða og meta, en ég held að þetta gæti verið ólitlegur kostur með þeim fyrirvara að ég hef ekki ígrundað hann djúpt.