Birt á Moggablogginu 28.3.2012 - Efnisflokkur: Lífeyrissjóðir
Eftir að hafa lesið skýringu Tryggingastofnunar ríkisins á kostnaðarþátttöku lífeyrisþega vegna dvalar á sjúkrastofnunum eða dvalar- og hjúkrunarheimilum, þá eru skilaboðin alveg skýr:
Ef þú sérð fram á að þurfa að nýta þér þjónustu sjúkrastofnunar, dvalar- eða hjúkrunarheimilis á efri árum, borgar sig ekki að greiða í lífeyrissjóð, eyddu peningunum strax eða gefðu hann afkomendum þínum
Lífeyriskerfið miðar við að sjóðfélagi skuli fá greiddan lífeyri sem nemur 56% af mánaðarlaunum. Í fréttatilkynningu frá TR kemur fram að hver íbúi á dvalar- eða hjúkrunarheimili greiði með tekjum sínum allt að 311.741 kr. á mánuði til viðkomandi heimilis umfram fyrstu 65.005 kr. eftir skatta. Það sem upp á vantar 689.417 kr. kemur frá ríkinu. Þessar 311.741 kr. er örugglega eftir skatta, þannig að til að fá eitthvað umfram 65.005 kr. á mánuði í sinn hlut, þá þarf viðkomandi að vera með 376.746 kr. á mánuði í lífeyri eftir skatta eða 541.420 kr. áður en skattar eru teknir af miðað við núverandi skattkerfi. Nú til að fá 541.420 kr. í lífeyrisgreiðslur, þá þarf viðkomandi að hafa yfir 966.000 kr. á mánuði í laun meðan viðkomandi er á vinnumarkaði, þ.e. 541.420/0,56 = 966.821.
Sá sem er með launatekjur milli 116.000 - 966.000 kr. og dvelur á sjúkrastofnun, dvalar- eða hjúkrunarheimili sér ekki eina krónu af þeim iðgjöldum sem viðkomandi greiðir í lífeyrissjóð af þessum allt að 850.000 kr. Bara til að skilja um hvaða upphæð er að ræða, þá er 12% af 844.000 = 102.000 kr. á mánuði eða 1.224.000 kr. á ári og 42.840.000 kr. á starfsævinni miðað við 35 ára starfsævi. Sé starfsævin 40 ár fer upphæðin upp í tæplega 49 m.kr. og 55 m.kr. fari starfsævin upp í 45 ár. Skilaboðin eru skýr: Eingöngu þeir allra tekjulægstu eiga að leggja fyrir í lífeyrissjóð. Allir aðrir koma verr út úr því en að eiga peninga undir kodda. (Allar tölur eru núvirtar. 56% talan er fengin úr lögum og út frá henni er 3,5% árleg raunávöxtunarkrafan reiknuð.)
Færslan er skrifuð við fréttina: TR borgar alltaf meirihluta kostnaðar