Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.4.2011.
Ég get nú ekki sagt að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í dag hafi komið mér á óvart. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 92/2010 frá 16. júní 2010 komst rétturinn að því að leigusamningur var lánasamningur, lánsamningurinn hafi verið í íslenskum krónum með gengisbindingu og gengisbindingin hafi verið ólögleg gengistrygging. Héraðsdómur kemst að nánast samhljóða niðurstöðu í aðeins fleiri orðum.
Ég skil vel að fjármálafyrirtækin reyna allt til að fá klúðri sínu snúið sér í hag. Þau buðu upp á ólöglega afurð sem er að valda þeim fjárhagstjóni. En þegar maður les dóm Hæstaréttar í máli nr. 92/2010, þá er niðurstaða réttarins mjög skýr:
Kaupleigusamningur var dæmdur vera lánasamningur, þar sem "leigutaki" greiddi vexti og átti að eignast bifreiðina í lok "leigutímans".
Samningsupphæð var tilgreind í krónum.
"Leigugjald" tók breytingum í samræmi við dagsgengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla.
Öll þessi atriði áttu við í máli nr. X-532/2010 sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm um í dag.
Misskilningurinn um erlend lán og fjórfrelsið
Íslandsbanki lét reyna á í málflutningi sínum á fjórfrelsi EES samningsins um frjálst flæði fjármagns. Hélt lögmaður bankans því fram að með banni við gengistryggingunni væri verið að hamla gegn frjálsu flæði fjármagns. Þessu atriði hafnaði dómarinn alfarið með eftirfarandi rökstuðningi:
Með setningu laga nr. 38/2001 voru heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla felldar niður. Lögin standa því hins vegar ekki á nokkurn hátt í vegi að lán séu veitt hérlendis í erlendri mynt. Reifun sóknaraðila á þeim málatilbúnaði að framangreind niðurstaða sé í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um frelsi til fjármagnsflutninga, sbr. 40. samningsins, er alls ófullnægjandi. Þykir sóknaraðili ekki hafa fært fram fyrir því haldbær rök að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 séu andstæð ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga, sbr. 40. gr. samningsins. Verður því að hafna þeim málatilbúnaði sóknaraðila.
Ég held raunar að dómarinn hafi getað gengið ennþá lengra.
Eftir að hafa rætt þetta atriði við ansi marga aðila á undanförnum tveimur árum eða svo, þá held ég að Íslandsbanki sé að misskilja þetta ákvæði EES-samningsins. Ákvæðinu um frjálst flæði fjármagns er ekki ætlað að verja hagsmuni innlendra lánveitenda til að lána hér á landi í erlendri mynt. Tilgangurinn er að gera erlendum lánveitendum kleift að veita lán hér á landi í mynt síns lands eða einhverri annarri mynt, þ.m.t. í íslenskum krónum. Frjálst flæði fjármagns snýst um að fjármagn geti flætt yfir landamæri. Innan hvers ríkis hefur slíkt frelsi ríkt frá því að bankaviðskipti voru gefin frjáls. Fjórfrelsið á að tryggja að Íslandsbanki (eða þess vegna ég sem einstaklingur) geti tekið lán hjá erlendu fjármálafyrirtæki og það fyrirtæki geti fengið lögmætt veð til tryggingar lánveitingunni. Ekki má koma í veg fyrir að a) peningarnir fari á milli landa og b) að lánveitandi þinglýsi veðbandi á veðhæfa eign sem lántaki veitir sem tryggingu. Stjórnvöld mega setja reglur um framkvæmd þessara hluta og þær mega meira að segja vera íþyngjandi, en ekki má koma í veg fyrir lánveitinguna og ekki má koma í veg fyrir veðsetninguna. Hér á landi gilda þær reglur að ekki má þinglýsa erlendu skuldabréfi á íslenska eign, en í staðinn er þinglýst tryggingabréfi.
Ég hef nokkrum sinnum vitnað í grein Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda, Almenningur skuldar ekki erlend lán, sem hann birti á Lúgu Eyjunnar í desember 2009. Þar bendir Gunnlaugur á þá augljósu staðreynd að krónan sé lögeyrir þessa lands. Skuldbindingar milli innlendra aðila séu því alltaf í krónum. Lán milli tveggja innlendra aðila séu því íslensk lán og geti aldrei verið erlend lán. Sé lánveitandinn aftur erlendur aðili, þá sé lánið erlent lán, sama í hvaða mynt það sé veitt.
Að þessu sögðu, þá er alveg sama hvernig menn snúa sér í þessu máli, að lán sem veitt er hér á landi er íslenskt lán. Skuldbindingin er í íslenskum krónum, útborgunin er í íslenskum krónum og greiðslan er í íslenskum krónum. Fari ég með 100 USD seðil og vilji leggja hann inn á gjaldeyrisreikning, þá kaupir bankinn af mér seðilinn á kaupgengi og selur mér síðan gjaldeyri til að leggja inn á reikning. Þannig var þetta a.m.k. um árið, þegar ég átti gjaldeyrisreikning í USD hjá SPRON. Þegar ég síðan vildi taka út af reikningnum, þá snerist ferlið við.
Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Bretlandi og þurfti að millifæra greiðslu vegna reiknings í dollurum í banka. Ég hafði búið mig undir þetta með því að hafa með mér nóg af dollaraseðlum. Ég fyllti út innlagnarseðil í bankanum og rétti gjaldkeranum peningana. Þá hófst ferli sem kostaði mig 10% aukalega. Fyrst var seðlunum skipt yfir í pund og síðan var pundunum aftur skipt yfir í dollara sem millifærðir voru inn á hinn bandaríska reikning. Svona fara gjaldeyrisviðskipti fram. Og þess vegna skiptir ekki máli í hvaða mynt íslenskur banki gefur út skuldabréf. Hann getur aðeins greitt lánið út í íslenskum krónum, þó peningarnir endi inni á gjaldeyrisreikningi. Það getur verið að hann sleppi lántakanum við þóknanir og pappírsvnnu sem felst í því að skipta fram og til baka, en í bókum bankans eru viðskiptin skráð í íslenskum krónum og það er það sem skiptir mestu máli. Frjálst flæði fjármagns hefur ekkert með það að gera hver lögeyrir landsins er eða í hvaða mynt viðskipti innanlands eru stunduð.