Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.4.2011. Efnisflokkur: Bankakreppa
Stóru matsfyrirtækin þrjú eru í sérkennilegri klemmu. Á árunum fyrir fjármálakreppuna voru lykill í markaðssetningu fjármálafyrirtækja á skuldabréfavafningum sem síðar hleyptu fjármálakerppunni af stað. Núna eru þau líklegast að reyna að bæta fyrir fyrri misgjörðir með því að koma með raunhæft mat á stöðunni í dag. Klemman sem fyrirtækin eru í, er að þau hafa því miður glatað trúverðugleika sínum vegna þáttöku í svindlinu sem gekk á fyrir hrun og hitt er hvort neikvæðar breytingar þeirra, hvar sem er í heiminum, eigi ekki á hættu að verða að sjálfsuppfyllandi spádómum.
Árin 2008-10 birti ég nokkrar færslu hér, þar sem ég er mjög gagnrýninn á matsfyrirtækin. Hér eru nokkrar þeirra:
Hrunið - hlutar 4 og 5: Basel II og matsfyrirtæki (16.2.2010)
Svindl matsfyrirtækjanna og Basel II reglurnar (25.10.2008)
Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu? (11.10.2008)
Sökudólgurinn fundinn! Er það? (16.9.2008)
Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB (17.7.2008)
Eru matsfyrirtækin traustsins verð? (3.4.2008)
Eru matsfyrirtækin traustsins verð - hluti 2 (23.4.2008)
Ég geri mér fulla grein fyrir að ekki stenst allt í þessum skrifum stenst nánari skoðun en ótrúlega margt gerir það og það sem meira er, að atriði sem byggð voru á hreinni rökvísi í upphafi hafa verið staðfest síðar.
Í stuttu máli eru staðreyndir málsins sem hér segir:
Matsfyrirtækin voru beggja vegna borðsins þegar kom að mati á ýmsum afurðum fjármálafyrirtækjanna fyrir hrun alþjóðlegra fjármálamarkaða.
Matsfyrirtækin gættu ekki að því að viðhalda hlutleysi milli mats og ráðgjafar. Þannig aðstoðuðu þau fjármálafyrirtæki við að útbúa vafninga, sem ættu möguleika á að fá hátt mat.
Matsfyrirtækin virtu ekki kröfur um "kínverska veggi" milli ólíkrar starfsemi. Þannig vann sami aðili að því að semja við fjármálafyrirtæki um verð á matsgerð og tók síðan þátt í matinu.
Matsfyrirtækin höfðu hag af því að meta afurðir fjármálafyrirtækja hátt, þar sem það jók líkurnar á því að fjármálafyrirtæki beindi meiri viðskiptum til matsfyrirtækisins.
Matsfyrirtækin tóku þátt í að útbúa fjármálaafurðir sem höfðu í sér innbyggða galla. SEC fjallar sérstaklega um þetta í skýrslu sumarið 2008.
Matsfyrirtækin tóku þátt í ráðstefnum á vegum fjármálafyrirtækja, þar sem þau voru virk í markaðsstarfi vegna afurðanna sem þau voru að meta.
Matsfyrirtækin endurskoðuðu ekki fyrra mat sitt undirmálslánavafningum og gáfu út ný, þrátt fyrir að staðreyndir sýndu að áhættan tengd þeim væri allt önnur og meiri, en forsendur fjármálafyrirtækjanna sögðu til um.
Vafalaust væri hægt að telja fleira upp, en vil ljúka færslunni með tilvitnun í bloggfærslu mína frá 11.10.2008 þar sem ég fjalla m.a. skýrslu SEC frá júní 2008:
Í skýrslu SEC með frumniðurstöðum þá er að finna ólýsanlega fáránlega hluti. Hér eru tvö dæmi:
Tölvupóstur sendur 15. des. 2006 milli tveggja greinenda í sama fyrirtæki að lýsa CDO (collateralized debt obligations):
Let's hope we are all wealthy and retired by the time this house of cards falters.
Pælingar starfsmanns í tölvupósti frá 2004 um hvort viðskiptavinur fari annað ef greiningin sé óhagstæð:
I am trying to ascertain whether we can determine at this point if we will suffer any loss of business because of our decision and if so how much.
Ég fæ ekki betur séð en þetta þætti glæpsamlegt athæfi, ef þetta ætti sér stað innan verðbréfafyrirtækis.
Skýrslu SEC er að finna í heild á vefsíðu SEC og má nálgast hana með því að smella hér.
PS. Mæli með því að fólk skoði þátt BBC The Greed Game sem er að finna á færslu hjá Láru Hönnu Einarsdóttur frá 10.10.2008, frá þeim tíma þegar flóðbylgja bankahrunsins var að skella á okkur.
Færslan var skrifuð við fréttina: Moody's lækkar einkunn írskra banka