Vaxtahlé Icesave samninga var blekking - Icesave samninganefndin þarf að útskýra þetta

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.4.2011.

Dómar héraðsdóms um forgang Icesave innstæðna í þrotabú Landsbanka Íslands eru mikil lesning.  Áhugavert er hvernig umfjöllun um einstök atriði sveiflast á milli löggjafar landanna og hafa dómarar lagt sig fram við að greina hvar hvert atriði á heima.  Hvergi er hlaupið að neinu í niðurstöðunni, að ég fæ best séð, en löglærðir gætu verið á annarri skoðun.

Tvennt verkur sérstaka athygli mína.  Fyrra er að vextir frá vanefndardegi til 22. apríl 2009 teljast forgangskröfur og kostnaður erlendu tryggingasjóðanna vegna samskipta við innstæðueigendur eru það ekki.  Hvorutveggja snýr að Icesave-samningunum, en í fyrsta samningnum kröfðust erlendu sjóðirnir, FSCS í Bretlandi og DNB í Hollandi, að íslensk stjórnvöld ábyrgðust þetta tvennt.  Og það sem meira er Svavarsnefndin samþykkti það.  Síðara atriðið hefur (að ég best veit) hangið inni í hinum tveimur samningunum, en vextirnir duttu út fyrir framgreint tímabil.  Í staðinn var Íslendingum talið trú um að stjórnvöld fengju "vaxtahlé".  Nú kemur í ljós að það er var og er blekking.

DNB gerði kröfu um að Landsbankinn greiddi dráttarvexti vegna vanefndatímabilsins.  Aðalkrafa þeirra var að íslenskir dráttarvextir giltu, þ.e. allt að 26,5% vextir, fyrsta varakrafa var að hollenskir dráttarvextir giltu, þ.e. 6%, ogönnur varakrafa að innlánsvextir Icesave giltu.  FSCS gerði sams konar kröfur, nema skrefin eru fleir.  Meðal krafna er að greiddir séu 8% dráttarvextir.  Héraðsdómur fellst á dráttarvextina í báðum tilfellum, þ.e. 6% til Hollendinga og 8% til Breta.  Samkvæmt hinum mjög svo "hagstæða" Icesave 3 átti að greiða rétt rúmlega 3% vexti og fá vaxtahlé í eitt ár eða svo.  Þannig fékk íslenska samninganefndin það út að vextir yrðu innan við 3% á ári allan samningstímann.  Nú kemur sem sagt í ljós, að þetta vaxtahlé var bara blekking.  FSCS og DNB voru búnir að gera kröfu um mun hærri vexti í bú Landsbankans.  Vissulega var sú krafa til skemmri tíma, en 6% vextir í hálft ár er 3% í heilt ár.  Einnig var ekki öruggt að vextirnir yrðu viðurkenndir sem forgangskrafa, en hvers vegna áttu Íslendingar að bera hallann af því?

Næsta er að spyrja sig hverjir vissu af þessu sjónarspili.  Vissu samningamenn Íslands af því?  Fjármálaráðherra? Aðrir ráðherrar? Þingmenn?  Lee Buchheit kom fram á blaðamannafundi og barði sér á brjósti vegna þessa vaxtahlés sem hafði fengist fram.  Það var ekkert vaxtahlé.  Kröfunni hafði bara verið beint annað.

Mér finnst svona blekkingarleikur heldur ómerkilegur.  Þjóðinni er seld sú staðhæfing að tekist hafi að fá vaxtahlé sem spari 25-30 ma.kr., þegar staðreyndin er ekkert slíkt vaxtahlé var veitt.  Menn höfðu farið með kröfuna þangað sem hún átti heima.  Vá, þarna fauk út um gluggann hluti af áróðri já-sinna. 

Annað sem fauk út um gluggann í dag var ógnin að neyðarlögin stæðust ekki.  Ég óttaðist svo sem þann þátt ekkert, þar sem ESA hafði þegar gefið álit með þeirri niðurstöðu.  Auðvitað er alltaf möguleiki á að íslenskir dómstólar komist að annarri niðurstöðu en ESA, en þá væri bleik brugðið.