Af launakjörum, hagnaði bankanna og endurútreikningi lána - Neyðarkall lántaka

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.3.2011.

Fréttir um launakjör í Arion banka og Íslandsbanka nudda salti í sár þjáðra heimila.  Ég ætla ekki að öfundast yfir launum bankamanna, en á meðan laun utan bankanna hafa nánast staðið í stað, þá hækkuðu mánaðarlaun á hvert stöðugildi að jafnaði um 19% milli 2009 og 2010 hjá Arion banka og 17% hjá Íslandsbanka. Ætli þetta sé ástæðan fyrir því að launavísitalan er að hækka og þar með greiðslujöfnunarvísitalan?

Í tilfelli Arion banka var hækkunin að meðaltali kr. 111 þús. og kr. 101 þús. hjá Íslandsbanka (upplýsingar úr frétt DV um málið).  Ekki veit ég hvað það eru mörg stöðugildi hjá Arion banka, en gefum okkur að þau séu ívið færri en hjá Íslandsbanka, þar sem þau eru 1.100.  Ef reiknað er með 1.000 stöðugildum hjá Arion banka, þá þýðir 111 þús.kr. meðalhækkun á mánuði 1,3 ma.kr. hækkun launa, sem er sama tala og hjá Íslandsbanka.  Bætum ofan á þetta launatengdum gjöldum og þá hefur launakostnaður hækkað nálægt 1,6 ma.kr. hjá hvorum banka um sig.   Þarna er því 3,2 ma.kr. kostnaðarauki sem þessir bankar verða fyrir og skila samt stæðilegum hagnaði.  Meðan stór hluti landsmanna á í miklum vanda vegna óréttlátra krafna bankanna um greiðslu á stökkbreyttum höfuðstóli lána vegna háttsemi fyrirrennarar þessara banka, þá finnst mér þetta ósmekklegt.  Síðan má ekki gleyma milljörðunum og milljarðatugunum sem núverandi og fyrrverandi starfsmenn þessara banka hafa fengið fellda niður af lánum sem viðkomandi fengu hjá bönkunum.

Endurútreikningur lána

Þá er það hin hliðin, þ.e. stökkbreyttar kröfur bankanna á almenna lántaka.  Á undanförnum dögum og vikum hafa landsmenn fengið send bréf frá viðskiptabönkum sínum og fjármögnunarfyrirtækjum með nýjum útreikningi á stöðu lán sem voru gengisbundin.  Ég hef farið eins ítarlega og mér hefur frekast verið kostur yfir þessa útreikninga og fundist þeir almennt ákaflega furðulegir.  Einnig hafa mér borist beiðnir frá óteljandi aðilum að skoða útreikninga þeirra.  Mín niðurstaða af öllu þessu er að Alþingi lét plata sig og að 4. gr. laga nr. 38/2001 innifelur í sér ákvæði um okurvexti sem hvergi væri fallist á í hinum siðmenntaða heimi að lagðir væru á húsnæðislán.

Aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna við endurútreikninginn er mismunandi, en tveir af þeim bönkum sem ég fékk endurútreikning frá fóru þá leið að taka annars vegar upphaflega höfuðstólinn og vaxtareikna hann eins og engar greiðslur hefðu verið greiddar og síðan taka afborganir og aðrar greiðslur og vaxtareikna það á sama hátt.  Eitt lána minna er 2 m.kr. lán sem tekið var 30.6.2004 og var greitt skilvíslega af því fyrir utan að ég fékk frystingu á það og síðan neitaði ég að greiða af því eftir að dómar Hæstaréttar féllu 16. júní 2010.  Samkvæmt útreikningi viðskiptabanka míns, þá stendur uppreiknaður höfuðstóll lánsins (án tillits til afborgana) í 4.351.035 kr. sé farin verðtryggð leið, en 4.465.993 kr. sé farin óverðtryggð leið.  Höfuðstóllinn á sem sagt annars vegar að hafa hækkað um 118% á sex og hálfu ári og hins vegar um 123%.  Gengistryggður höfuðstóll lánsins er aftur á móti 3.641.586 kr. eða 82% hærri en upphaflegur höfuðstóll, sem var alveg nógu slæm hækkun.  Ég stend sem sagt frammi fyrir þremur afleitum kostum:  A.  að halda 82% hækkun höfuðstóls vegna hruns krónunnar; B. 118% hækkun höfuðstóls vegna verðbólgu og verðtryggðra vaxta; C. 123% hækkun höfuðstóls vegna uppspenntra stýrivaxta Seðlabanka Íslands.  Í mínum huga eru allar leiðirnar afleitar og óaðgengilegar.  Bankinn minn er búinn að fá verulegan afslátt af þessu láni frá gömlu hryggðarmyndinni sinni, fyrirtæki sem ásamt tveimur öðrum fjárglæfrastofnunum setti hagkerfið á hliðina í umboði þáverandi ríkisstjórnar.  Nú fæ ég val um þrjár leiðir að gjaldþroti, því engin þessara leiða, sem líka bjóðast fyrir öll hin lánin mín, mun nýtast mér.  Frekar en svo mörgum öðrum landsmönnum.  Greiðslubyrði þessa láns var kr. 70.000 á þriggja mánaðafresti árið 2007, en verður ekki undir 240.000 kr. eftir þessa endurútreikninga.  Þetta gerir um 350% hækkun á greiðslubyrði.  Bankinn er með samviskubit yfir þessu og hefur góðfúslega boðið mér 25% lækkun á eftirstöðvum lánsins, sem færu þá úr rétt tæplega 2,2 m.kr. í 1.640 þús.kr.  Greiðslubyrðin af þeirri upphæð reiknast mér til að vera um 160 þús.kr. í hvert sinn eða ríflega tvöföldun þess sem gengið var út frá í upphafi.  Já, þau eru kostakjörin sem fjármálafyrirtækin bjóða viðskiptavinum sínum og velti ég því fyrir mér hvers vegna fólk er almennt að eiga viðskipti við kvalara sína.

Neyðarkall lántaka

Ég get ekki farið frá þessari færslu án þess að vekja athygli á athugasemdum sem skráðar voru við aðra færslu hjá mér í gær.  Þó svo að viðkomandi sé í viðskiptum við Frjálsa fjárfestingabankann, þá sýnist mér að hægt sé að skipta nafni FF út fyrir hvaða nafn fjármálastofnunar sem er.  Báðar eru þær frá manni sem kallar sig Sigurður #1 og hefur verið virkur í umræðunni á síðunni hjá mér og líka á Eyjunni að ég best veit.

Fyrri athugasemdin:

Ég var að borga 120þúsund af mínu láni fyrir hrun, gengistryggt.

Var að fá í hendurnar endurútreikning frá Frjálsa þar sem er boðið upp á fjóra valkosti á lánskjörum.

Ef ekkert er valið fyrir 28mars verður leið 1 sjálfkrafa valin fyrir mig og þá verða afborganirnar 340 þúsund eða rétt tæplega þrefalt hærri en ég var að borga, og fannst nóg.

Lægstu afborganirnar sem hægt er að komast í eru um 270þúsund á mánuði eða helmingi hærri en fyrir hrun.

Ef þetta er lokaniðurstaðan er ljóst að Frjálsi er að hirða af mér húsið í skaðabætur fyrir að hafa veitt mér ólöglegt lán því ekki er ég að fara að borga þessar upphæðir af húsinu mínu.

Þetta er víst ekki forsendubrestur að mati bankanna eða íslenskra dómstóla.

Takk fyrir mig.

Síðari athugasemdin:

Ég greiddi upp lífeyrissjóðslán 2006 og skipti yfir í gengistryggt til að losna við verðtrygginguna.

 Ég gerði þetta í "minikreppunni" þegar danske bank setti hér allt á hliðina og vísitalan var í ca 170stigum.

 Ég taldi mig ekki vera í neinni fjárglæfrastarfssemi, tók engin ný lán út á húsið í bólunni og ekkert annað fyllerí.

Þessu er allavega lokið hjá mér, ég ræð ekki við þessar afborganir og hef ekki efni á málaferlum.

Ég er hins vegar að nálgast miðjan aldur, með þrjú börn og ætla ekki að byrja upp á nýtt á þessu landi.

Ég fer úr landi þegar bankinn hefur fengið húsið og mitt síðasta verk hér verður að aka jarðýtu í gegnum kofann, því það er alveg á hreinu að bankinn fær það ekki.

Ég byggði þetta hús, og ég ríf það.

Mér finnst mikilvægt að fjármálafyrirtæki átti sig á þeim skilaboðum sem verið er að senda þeim.  Almennir lántakar, sem sýndu fyllstu aðgátar í sínum fjármálum, hafa dregist niður í hyldýpið með hrunbönkunum.  Í staðinn fyrir að tekið sé tillit til aðstæðna fólks, þá horfa fjármálafyrirtækin bara á hvað þau komast upp með.  Þau hunsa alveg neyðarköll fólks, eins og þau komi þeim ekki við.  Ekkert fjármálafyrirtæki hefur sýnt fram á að kostnaður þess af hinum stökkbreyttu lánum viðskiptavina þeirra sé neitt í líkingu við stökkbreytinguna.  Raunar bendir allt til þess, að fjármögnunarkostnaður þeirra sé mjög lágur og jafnvel enginn.  Hagnaðartölur Arion banka og Íslandsbanka benda til þess að afslátturinn af lánasöfnunum, sem færð voru yfir, sé að skila sér sem verulegur hagnaður fyrir fyrirtækin.  Það er kannski löglegt, en algjörlega siðlaust.

Ég hef hvatt til þess að endurútreikningur lána verði takmarkaður við tímann frá 1.1.2008.  Þá stóð lánið mitt í 1.256.664 kr.  Uppreiknum hann um 17,8% vegna 2008, 14,1% vegna 2009 og 8% vegna 2010 og drögum frá greiðslur, þá er niðurstaðan í kringum 1.600.000 kr.  eða 5-800 þús. kr. lægri tala en samkvæmt uppreikningi bankans.  Mér er sem sagt ætlað að greiða bankanum 5-800 þús.kr. vegna gjalddaga sem ég greiddi samkvæmt heimsendri innheimtu.  Ég á öll þessi bréf frá bankanum og hvergi er á þeim gerður fyrirvari um af hálfu bankans, að þetta væri ekki endanleg greiðsla fyrir þennan gjalddaga.

Ég á ennþá eftir að fá einn endurútreikning.  Það er vegna láns sem ég tók fyrst af þeim gengistryggðu lánum, sem ég er með.  Mig hryllir við tilhugsuninni.

Ábyrgð fjármálafyrirtækjanna hverfur ekki með nýrri kennitölu

Fjármálafyrirtæki verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni og fyrirrennara sinna á ástandinu í þjóðfélaginu.  Við stofnun nýju bankanna tóku þeir yfir réttindi og skyldur gömlu birtingamynda sinna gagnvart viðskiptavinum sínum.  Það þýðir að þeir geta ekki innheimt af lánum viðskiptavina meira en réttlátt er burt séð hvað lögin segja.  Hæstiréttur hefur þegar úrskurðað að Arion banki sé ekki aðili að nema hluta máls vegna gengistryggðs láns.  Ef sá úrskurður er fordæmisgefandi, þá er það ekki hlutverk nýju bankanna að rukka viðskiptavini um "vangreidda" vexti aftur í tímann.  Í öðru máli tilgreindi Hæstiréttur að útreikningar á vöxtum sem ekki standast nánari skoðun skyldu gilda.  Í þriðja málinu skyldi Hæstiréttur eftir "skítarönd" í úrskurði sínum, þannig að ekki er klárt hversu langt aftur nýir vextir skulu reiknaðir.  Í fjórða málinu og raunar hinum líka, sneiðir Hæstiréttur framhjá því álitamáli hvort c-liður 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 nýtist neytendum varðandi þessi lán.  Þá hunsar Hæstiréttur í nýlegum úrskurðum nýsett lög nr. 151/2010 um hvernig skuli staðið að endurútreikningi lána.

Það neyðarkall, sem ég birti að ofan, er eitt af mörgum sem mér berast.  Örvænting fólks er að aukast.  Óánægja fólks hefur aldrei verið meiri.  Vantrú fólks á að réttlæti fáist er algjör.  Tiltrú fólks á samfélagið fer þverrandi.  Ég fagna því að rekstur bankanna gangi vel, en sá rekstrarbati má ekki vera á kostnað heimilanna í landinu.  Hagur samfélagsins byggir á því að öllum stoðum þess farnist vel.  Um þessar mundir gengur vel hjá nokkrum fjármálastofnunum, um 10% fyrirtækja, 2-3% einstaklinga og þar með er það upptalið.  Er þetta það Ísland sem við viljum?