Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.3.2011. Efnisflokkur: Lánasöfn, Leiðrétting
Fréttablaðið og Eyjan hafa verið fylgja eftir umræðu um hagnað bankanna og hlut endurmats lána í þeim hagnaði. Frétt á Eyjunni byrjar með þessum orðum:
Hinn aukni hagnaður íslensku bankanna mun ekki nýtast heimilum landsins til frekari skuldaleiðréttinga en orðið er eins og Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur kallað eftir. Ástæðan sú að kröfuhafar bankanna telja sig hafa verið hlunnfarna við færslu lána yfir í nýju bankana og arður af rekstri þeirra sé lágmarkskrafa þeirra.
Er nú verið að finna nýjan blóraböggul fyrir því að heimilin og atvinnulífið fá ekki eðlilega leiðréttingu lána sinna. Ég hef nú séð betri leikfléttu en þetta. Staðreyndir málsins eru að það eru starfsmenn og stjórnendur bankanna sem ákveða hvernig afslátturinn af lánasöfnunum er nýttur. Mark Flanaghan hjá AGS sagði í nóvember 2009 að eitt helsta viðfangsefnið þá hafi verið að sjá til þess að lífvænlegir lántakar fengju viðeigandi leiðréttingu lána sinna. Í staðinn fyrir að fara út í slíka vinnu, hafa bankarnir farið út í að yfirtaka fyrirtæki í stórum stíl, þ.e. í staðinn fyrir að nýta afsláttinn til að hjálpa eigendunum að endurreisa fyrirtækin, þá eru þau færð inn í eignarhaldsfélög bankanna. Þetta heitir eignaupptaka. Sama á við þegar heimilin eru annars vegar. Fyrsta skrefið virðist allt of oft vera að ná eigninni af fólki. Það fær að heita eigendur á pappírunum, en skuldsetningin er skilin eftir í 100 - 110% af matsverði. Ráði fólk ekki við þetta, þá getur það góðfúslega fengið 70% skuldsetningu í 3 ár. Í desember 2007 var skuldsetning sömu eignar miðað við sama mat kannski 60%. Það hefur sem sagt misst allt sitt eigið fé og gott betur.
Já, bankarnir geta reynt að blekkja fólk og kenna hinum "vondu" kröfuhöfum um. Staðreyndin er að kröfuhafar vildu ganga mun lengra í leiðréttingu lána heimila og fyrirtækja, en gert hefur verið. Það er rétt að þeim fannst afslátturinn vera mikill sem fór á milli, en í þeirra huga voru það samt smámunir. Mismunurinn á hugmyndum þeirra og þess sem kom fram í mati Deloitte var kannski mikill fyrir okkur almenning, en mínar heimildir herma að þeir hafi sætt sig við það með því skilyrði að afslátturinn rynni í staðinn til lántakanna og þá fyrst og fremst heimilanna. Þetta var í ágúst 2009. Síðan varð kröfuhöfum ljóst að ekki stóð til að veita afsláttinn áfram. Hann átti að nota til að byggja upp eigið fé bankanna þriggja (eins og ég spáði fyrir í febrúar 2009) og þannig gera þá seljanlegri. Það vildu kröfuhafarnir ekki sætta sig við og þess vegna ákváðu þeir að koma sem stórir hluthafa inn í Íslandsbanka og Arion banka. Fram að því höfðu þeir ekki viljað það. Trixið hans Steingríms misheppnaðist. 200 milljarðarnir sem ríkissjóður hefði lagt í þessa tvo banka voru smámunir miðað við væntan hagnað næstu ára.
Upplýst var í morgun að 80% af endurmati lánasafna Arion banka renni til kröfuhafa. Þetta verður ekki há upphæð samanborði við hina bankana, þar sem lánasöfnin voru færð með minnstum afslætti til Arion banka. Tölurnar verða stærstar hjá Íslandsbanka. En þó lánasöfnin hafi verið flutt yfir með einhverjum tilteknum afslætti, þá var það bara bráðabirgða gjörningur. Uppgjörið milli bankanna verður tekið upp á næsta ári. Þá verða allar tölur og prósentur endurskoðaðar. Slík endurskoðun getur leitt til þess að afslátturinn á lánasöfnunum eykst, en líklegast lækkar hann. Nema að dómstólar á Íslandi, ESA eða EFTA-dómstóllinn verði búnir að komast að því að ekki megi breyta vöxtum fyrrum gengistryggðra lána afturvirkt. Mér sýnist það geta rýrt verðmæti lánasafna bankanna um 30-40%, ef ekki meira.
Enn og aftur, ekki hlusta á þann málflutning að allt sé erlendum kröfuhöfum að kenna. Í fyrsta lagi er ekkert vitað hverjir þessir kröfuhafar eru í raun og veru. Í öðru lagi, þá er uppi þrálátur orðrómur um að innlendir aðilar hafi keypt umtalsverðan hluta af kröfunum. Í þriðja lagi, þá hafa einhverjir þegar fengið skuldatryggingar sínar greiddar út og hafa sætt sig við tjón sitt. Í fjórða lagi, þá koma kröfuhafar ekkert að rekstri bankanna og hafa því ekkert með það að gera hvernig bankarnir deila út afslættinum til réttlátra og ranglátra. Skilanefndir og slitastjórnir eru á milli kröfuhafa og bankaráða.
Mér finnst þessi málflutningur heldur aumur og ekki sýna vilja bankanna að koma hér að raunverulegri endurbyggingu þjóðfélagsins. Mér finnst bankarnir gleyma uppruna sínum og hvernig lánasöfnin sem um ræðir bólgnuðu út vegna svika, lögbrota og pretta fyrrverandi stjórnenda og eigenda hrunbankanna. Vilji bankarnir byggja upp traust aftur, þá er þetta EKKI rétta leiðin.