Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.3.2011.
Egill Helgason er með skemmtilega pælingu um Icesave á Eyjunni. Mér finnst hann aftur ekki taka á kjarna málsins.
Að mínu áliti, eftir að hafa stúderað lögin um innstæðutryggingar og tilskipun ESB, þá eru kjarnaspurningar tvær. Sú fyrri er: Er greiðsluskylda fyrir hendi? Ef svarið við henni er já, þá er næst að spyrja: Hver ber þessa greiðsluskyldu? Að flækja inn í þessa umræðu hvort dómsmál vinnist eða lán fáist er hreint aukaatriði meðan við höfum ekki svarað þessum kjarnaspurningum. Að því loknum getum við velt öllu hinu fyrir okkur.
Ég held að það sé alveg öruggt að greiðsluskyldan sé fyrir hendi. Hún hvílir fyrst og fremst á Landsbanka Íslands, enda voru innstæðurnar í bankanum. Að Bretar og Hollendingar hafi tekið upp á því hjá sjálfum sér að greiða mun hærri tryggingu, en íslensk lög kveða á um, kemur íslenskum skattgreiðendum ekkert við meðan við hugsum þetta eingöngu út frá lögunum um tryggingasjóð innstæðueigenda. Að hluta til er þetta málefni íslenska tryggingasjóðsins sem fékk ekki tækifæri til að grípa inn í á sínum tíma, þar sem Bretar og Hollendingar voru fljótari til. Samkvæmt íslenskum lögum og tilskipun ESB, þá skal tryggingasjóður innstæðueigenda greiða innan 6 mánaða komi upp staða eins og haustið 2008. (Raunar er það þannig, að hann hefur 3 mánuði og getur síðan tekið sér aðra 3 mánuði.) Neyðarlögin breyttu engu um það. Eins og áður segir þá fékk hann ekki tækifæri til að standa við skuldbindingar sínar. Hann hafði svo sem ekki neina burði til þess, enda ekki nægilega digur til að reiða út fleiri hundruð milljarða á allt að 6 mánuðum.
Hafi tryggingasjóðurinn ekki fjármuni til þess að greiða út kröfurnar, þá ber aðildarfyrirtækjum sjóðsins, samkvæmt lögum og tilskipuninni, að leggja honum til meiri fjármuni. Hver eru þessi aðildarfyrirtæki sjóðsins? Jú, það eru þær innlánsstofnanir sem tóku við innlánum hér á landi. Meðal þeirra eru/voru Landsbanki Íslands Glitnir, Kaupþing, Straumur-Burðarás, SPRON, BYR, MP banki og sparisjóðirnir. (Seðlabankinn tekur einnig við innlánum, en hann er ekki aðili að sjóðnum.) Þessir aðilar hefðu því átt að leggja tryggingasjóðnum til þá peninga sem vantaði upp á 20.887 EUR lágmarkið svo hægt væri að greiða þá út innan 6 mánaða, svo fremi sem Landsbankinn hafi ekki sjálfur verið búinn að greiða þessa upphæð út. Spurningin er hvort slitastjórn Landsbankans hafi ekki átt að grípa sterkar inn í þetta ferli og byrja endurgreiðslur fyrr líkt og Kaupþing og Glitnir gerðu. Hvers vegna höfðust menn þar ekkert að (kannski ósanngjarnt að segja þeir hafi ekkert gert) eða a.m.k. hófu útgreiðsluferlið? Glitnir og Kaupþing biðu ekki eftir að kröfulýsingarfrestur var útrunninn eða að búið væri að taka tillit til krafna. Innstæðueigendur lýstu kröfum í bú þessara banka, en það kom ekki í veg fyrir að innstæður væru greiddar út. Hvers vegna var ekki sami háttur hafður á varðandi Icesave? Líklegast er sökin Breta og Hollendinga, þar sem ríkisstjórnir þessara landa þurftu að slá pólitískar keilur á kostnað Íslendinga.
Pökkurinn er því kominn aftur til íslenska tryggingasjóðsins. Eins og áður segir hvílir sú ábyrgð á aðildarfyrirtækjum sjóðsins að leggja honum til fjármuni standi sjóðurinn ekki undir kröfum sem á hann eru gerðar. Nú vill svo til að ríkið er búið að taka yfir sum þessara fjármálafyrirtækja og eingöngu vegna þess leggst greiðsluskylda á ríkissjóð, þ.e. sem eiganda fyrirtækjanna, en ekki vegna ríkisábyrgðar á tryggingasjóðnum. En tryggingasjóðurinn fékk aldrei tækifæri til að rækja skyldur sínar og svo má spyrja sig hverjar voru þessar skyldur sjóðsins.
Samkvæmt tilskipun ESB og íslenskum lögum ber tryggingasjóðurinn ábyrgð á öllum innstæðum upp að 20.887 EUR. Upphæðir umfram þessa upphæð eru ekki tryggðar að íslenskum lögum né samkvæmt tilskipun ESB. Lögin segja einnig að sjóðurinn skuli gera kröfu á viðkomandi fjármálastofnun um endurgreiðslu á öllu því sem hann leggur út fyrir. Hvernig sem ég horfi á þetta mál, þá skil ég ekki hvernig hægt er að semja um að kröfur breska tryggingasjóðsins og þess hollenska séu gerðar jafnréttháar kröfum þess íslenska í þrotabú Landsbankans. Þetta er það atriði sem stendur fastast í mér, enda brýtur þetta gegn allri rökhugsun.
En burt séð frá kröfuröðinni í þrotabú Landsbankans, þá er greiðsluskylda íslenska tryggingasjóðsins alveg klár í mínum huga upp að 20.887 EUR. Einnig er í mínum huga alveg klárt að sjóðurinn er ekki nógu stöndugur til að greiða þá fjárhæð út. Samkvæmt lögunum og tilskipunni, þá eiga aðildarfyrirtæki sjóðsins að hlaupa undir bagga og þar með fjármálafyrirtæki, sem eru komin í eigu ríkisins. Síðasta spurningin er því (í mínum huga) hvort þessi greiðsluskylda vegna eignar ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé hærri eða lægri en samkvæmt Icesave samningnum. Ekki hef ég hugmynd um það, en mig grunar að hún sé eitthvað lægri. Á móti kemur, að mörg þeirra fyrirtækja sem ættu að leggja tryggingasjóðnum til peninga eru farin á hausinn og því mun krafan á hin hækka og þar með á ríkissjóð.
Ef neyðarlögin hefðu ekki komið til, þá hefði pökkurinn endað hjá gjaldþrota fjármálafyrirtækjum og eigendum þeirra. Þar með hefði hann ratað til ríkisins, ekki í formi ríkisábyrgðar á tryggingasjóðnum, heldur vegna eignarhalds á stórum hluta innlánafyrirtækja. En neyðarlögin eru þarna og þau segja að innlán séu forgangskröfur. Þannig ætti pökkurinn enda hjá Landsbanka Íslands hf. svo fremi sem hann hefur efni á að borga. Þá kemur að ákvörðun FME um stofnefnahagsreikning NBI ehf.
Við mótun stofnefnahagsreiknings NBI ehf. gleymdist, að því virðist, að taka tillit til þess að eignir Landsbanka Íslands dygðu hugsanlega ekki fyrir öllum innstæðum. Ólíkt Glitni og Kaupþingi voru innstæður hjá Landsbankanum meiri en raunvirði eigna bankans á þeim tímapunkti. Það var því hreint og beint glapræði að flytja allar innstæður innlendra aðila yfir í NBI ehf. Hið rétta hefði verið að flytja eingöngu innstæður í sama hlutfalli og þá leit út fyrir að eignir næðust upp í forgangskröfur. Þetta atriði er í mínum huga stærstu mistökin sem gerð voru í kjölfar hruns Landsbankans og er eina ástæðan fyrir því að Icesave er eitthvert vandamál. Hefðu menn haft vit á því að setja þak á flutning innstæðna og gætt með því jafnræðis á milli innstæðna hér á landi og á Icesave reikningum, þá snerist Icesave deilan bara um það hvenær íslenski tryggingasjóðurinn gæti greitt út að hámarki 20.887 EUR vegna hvers Icesave reiknings. Höfum í huga, að þegar Kaupþing greiddi innstæðueigendum út innstæður sínar á KaupthingEdge, þá greiddi bankinn enga vexti. Tilskipun ESB gerir ekki kröfu um slíkt, að ég fæ best séð. Hún snýst bara um að greiða höfuðstól innstæðunnar upp að tryggðu lágmarki. Íslenski tryggingasjóðurinn hefði sjálfkrafa orðið forgangskröfuhafi í þrotabú Landsbankans, þar sem hann hefði orðið eigandi að forgangskröfum innstæðueigenda upp að EUR 20.887 og sjóðurinn hefði auk þess komið á undan hollenska sjóðnum og breska sjóðnum, þar sem þeir tóku yfir kröfur sem voru umfram EUR 20.887.
Þetta klúður, eins og ég vil kalla það, við stofnun NBI ehf. verður í mínum huga til þess, að aukin greiðsluskylda leggst mögulega á ríkissjóð. FME hugsaði málið ekki til enda og mismunaði innstæðueigendum. Annar hópurinn átti að fá allt sitt strax meðan hinn átti að fá sitt eins og erlendar eignir Landsbanka Íslands dugðu til og eftir dúk og disk. Til að tryggja, að fyrri hópurinn fengi allt sitt strax, lagði ríkissjóður NBI ehf. meira að segja til aukið fé. Er nokkuð óeðlilegt að hinn hópurinn geri kröfu um það líka. Það sem meira er, innlendir aðilar með það sem kallað er heildsöluinnlán fengu allt sitt, en erlendir aðilar með heildsöluinnlán eiga ekki að teljast forgangskröfuhafar. (Í einhverjum tilfellum er þó deilt um þetta fyrir innlendum dómstólum.)
Nú segi ég, að mögulega muni þetta "klúður" FME leiða af sér hærri greiðsluskyldu ríkissjóðs. Það veltur allt á því hvort dómstólar meti, að íslenskum stjórnvöldum hafi verið heimilt að verja íslenska innstæðueigendur betur en erlenda. Fyrstu vísbendingar gefa slíkt til kynna, en niðurstaða Hæstaréttar er ekki komin og síðan geta erlendir aðilar leitað til dómstóls ESB eða EFTA-dómstólsins. Þar til niðurstöður fást frá þessum æðri dómstólum, þá leikur vafi á því hver greiðsluskylda ríkisins er vegna Icesave.
Síðasti kubburinn í púslið er að mínu mati að fá allar tölur upp á borðið. Þær eru á reiki og í því erfitt að henda reiður á eða reikna út hvaða leið er hagkvæmust. Stundum getur verið betra að taka samningi strax frekar en að láta reyna á niðurstöðuna fyrir dómstóli. Þetta snýst um að reikna út vænta niðurstöðu og velja þá leið sem gefur hagkvæmustu væntu niðurstöðu. Tökum dæmi: Ef kostnaður við eitthvað er 100, en það eru 30% líkur á að tekjur séu 10, 50% að þær séu 100 og 20% að þær séu 200, þá er væntur hagnaður -7 eða tap upp á 7. (0,3 * 10 + 0,5 * 100 + 0,2 * 200 - 100 = 7). Miðað við þetta, er það slæmur kostur að framkvæma það sem hér um ræðir. Breyttar líkur geta síðan gert niðurstöðuna hagstæða. Í tilfelli Icesave, þá þarf að vega tvær hliðar á talsvert flóknari jöfnu og finna út hvort vænt útkoma hallar til hægri eða vinstri. Ég hef ekki hugmynd í hvora áttina vænt útkoma vísar, þar sem tölurnar liggja ekki fyrir og óháð mat á líkum hefur ekki verið framkvæmt. Mér kæmi aftur ekki á óvart, þó vænt útkoma segi að betra sé að samþykkja lögin og virkja núverandi samning, en að fella þau og taka áhættuna í dómsmáli. Helgast það eingöngu á tilfinningu minni um hver versta hugsanlega niðurstaða kynni að verða og líkunum á því að hún verði ofan á. Það er aftur mín skoðun, að ekkert í tilskipun ESB eða íslenskum lögum setji þá kröfu á ríkissjóð að hann ábyrgist tryggingasjóð innstæðueigenda og vil raunar ganga svo langt að segja, að slíkt væri brot á samkeppnistilskipun ESB. Kaldhæðnin er meira að segja sú, að írsk stjórnvöld voru kærð til ESB fyrir að veita írskum bönkum 100% ríkisábyrgð á innstæðum og mig minnir einhvern veginn að málið hafi fallið Írum í óhag.
Svo ekkert fari á milli mála, þá hef ég ekki gert upp hug minn í málinu, og á hvorn veginn sem atkvæði mitt fellur, þá viðurkenni ég aldrei að kröfur erlendu tryggingasjóðanna í þrotabú Landsbankans séu jafnréttháar þess íslenska eða að ríkissjóður beri einhverja bakábyrgð á íslenska tryggingasjóðnum, enda álít ég það brot á samkeppnistilskipun ESB.