Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.1.2011.
Mikið hlýtur Kaupþing að hafa staðið vel. Með nokkurra daga millibili ákveður stjórn bankans að lána vildarviðskiptavinum 450 milljarða kr. og síðan að aflétta ábyrgðum starfsmanna á lánum vegna hlutabréfakaupa. Inni í 450 milljörðunum er sagður vera fyrirframgreiddur arður upp á 50 milljónir dala til Mohamed Bin Khalifa Al Thani. Ég hélt að hann hefði ekki einu sinni keypt hlutabréf fyrir þessa upphæð, auk þess sem hann fékk lán fyrir allri upphæðinni.
Þetta lán til Mohamed Bin Khalifa Al Thani er ákaflega sérkennilegur gjörningur. Ef Kaupþingsmenn héldu ekki alltaf fram sakleysi sínu, sverðu og sárt við lögðu að þeirra business hefði alltaf verið strangheiðarlegur, þá hefði ég haldið að þetta væri mútugreiðsla til mannsins. En Sigurður og Hreiðar hafa alltaf sagt að þessi viðskipti hafi verið 100% heiðarleg, þannig að þetta er líklegast bara tilviljun. Fyrst fær Al Thani 100% lán fyrir kaupum á hlutabréfum á uppsprengdu verði og síðan fær hann lán 2 vikum áður en bankinn fellur fyrir sömu upphæð. Kannski var hann að fá lán til að greiða hitt lánið til baka? Ef svo er, þá var fyrra lánið sýndarviðskipti, þ.e. Al Thani fékk lán frá einhverjum huldumanni (eða var það frá Ólafi Ólafssyni), svo hægt væri að segja að hann hafi fjármagnað kaupin á hlutabréfunum sjálfur. Síðan nokkrum dögum síðar fær hann lán frá Kaupþingi upp á svipaða upphæð og eitthvað klink í viðbót.
Ég fæ ekki betur séð en að Kaupþing hafi verið að fjármagna kaup á hlutabréfum í sjálfum sér. Það gengur þvert á allt sem Sigurður og Heiðar hafa sagt hingað til. Þess fyrir utan, þá þýðir þetta að eiginfjárgrunnur bankans var rangt reiknaður, þar sem hlutabréf sem fjármögnuð eru af bankanum á ekki að telja með þegar eigið fé er reiknað út. Úps, er mögulegt að Kaupþing hafi verið að falsa bókhaldið, líkt og lýst er í skýrslum norsku og frönsku endurskoðendanna um sambærileg viðskipti hjá Glitni og Landsbankanum.
Þessi skrípaleikur í kringum bankana fram að hruni í október 2008 er sífellt að verða furðulegri. Þetta atriði kemur svo sem ekkert á óvart, þ.e. maður er hættur að verða hissa á einhverju makki eða sjónarspili. Staðreyndin er að ekkert virðist hafa verið gert samkvæmt lögum og reglum á þessum tíma. Stöðugt var verið að beygja og brjóta reglur. Áhættustýring var að því virðist kjánalegur brandari, a.m.k. hefur ekkert komið fram á síðustu rúmum tveimur árum sem bendir til þess að virk áhættustýring hafi verið viðhöfð. Basel II kröfur var spilað í kringum, eins og þær hefðu enga þýðingu. Ég hef verið að stúdera þær upp á síðkastið og það er alveg kýrskýrt að íslensku bankarnir voru ekki að uppfylla þær kröfur sem þar eru settar fram um Tier 1 og Tier 2 eiginfjárgrunn. Reglulega hefur samband við mig maður af landsbyggðinni, sem svíður hvernig fólkið í sveitinni var svikið til að skrifa upp á lán til kaupa á stofnfé, og hans skoðun á tiltekinni fjármálastofnun leiðir í ljós að menn voru annað hvort að spila á Tier 2 eiginfjárgrunninn eða höfðu ekki hugmynd um að slíkar kröfur voru til.
Ég skil vel að Kaupþingsmenn vilja ekki að sérstakur saksóknari komist í gögnin í Lúxemborg. Þau munu alveg örugglega sýna að svikamyllan var vel skipulögð. Mér kæmi raunar ekkert á óvart að núverandi eigendur Kaupþings í Lúxemborg væru bara leppar fyrir raunverulega eigendur, þ.e. gömlu eignendur Kaupþings. Hvers vegna ættu núverandi stjórnendur annars að leggjast gegn afhendingu gagnanna? Menn bera fyrir sig að einhverjir viðskiptavinir vilji ekki að sérstakur saksóknari komist í gögnin. Ætli það sé vegna þess að menn eru með hreinan skjöld? Nei, alveg örugglega ekki. Það er náttúrulega skandall, að menn geti stundað svik og pretti í skjóli bankaleyndar. Ætli menn geti verið með barnaklám í skjölum banka og komist upp með það vegna þess að þeir njóta bankaleyndar? Hver er munurinn á fjármálaglæpur og öðrum glæpum? Af hverju má stunda fjármálaglæpi í skjóli bankaleyndar, en ef þeir eru stundaðir í viðskiptum án aðkomu banka, þá ber bankanum að greina frá telji hann eitthvað grunsamlegt vera á ferðinni. Ég hef aldrei skilið þetta og hvet löggjafann til að gefa nú framkvæmdavaldinu langt nef og hafa sjálft frumkvæði á að setja lög sem afnema bankaleynd, ef grunur er um refsivert athæfi. Bankar eiga ekki að komast upp með að hylma yfir með glæpum sem þeir eru sjálfir þátttakendur í að fremja.