Nær allur raunverulegur hagnaður greiddur út sem arður - Gloppa í skattkerfi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.1.2011. Efnisflokkur: Bankahrun

Hún er áhugaverð fréttaskýringin í DV um arðgreiðslur úr nokkrum þekktum fyrirtækjum vegna rekstraráranna 2006 og 2007.  Eftirfarandi fyrirtæki eru skoðuð:

  • FL Group:  Hagnaður 2006 kr. 44,6 milljarðar, arður 15 milljarðar

  • Exista:  Hagnaður 2006 kr. 37,4 milljarðar, arður 10,9 milljarðar

  • Kaupþing:  Hagnaður 2006 kr. 85,3 milljarðar, arður 10,4 milljarðar; Hagnaður 2007 kr. 71,2 milljarðar, arður 14,8 milljarðar.

  • Glitnir: Hagnaður 2006 kr. 38,2 milljarðar, arður 9,4 milljarðar; Hagnaður 2007 kr. 27,7 milljarðar, arður 5,5 milljarðar.

  • Straumur: Hagnaður 2006 kr. 45,2 milljarðar, arður 7,8 milljarðar

  • Landsbankinn: Hagnaður 2006 kr. 40,2 milljarðar, arður 4,4 milljarðar

  • Fons: Arður vegna 2007 kr. 4,4 milljarðar

Alls gerir þetta hagnað upp á hátt í 400 milljarða króna og arðgreiðslur upp á 82,6 milljarða, en af þeirri upphæð fór stórhluti til fyrirtækja í skattaparadísinni Hollandi.  (Já, það vill oft gleymast að Holland er að sumu leiti með hagstæðara skattaumhverfi en meira að segja Lúxemborg.)

Miðað við upplýsingar sem komið hafa fram um raunverulegan hagnað bankanna úr skýrslum norskra og franskra endurskoðunarfyrirtækja, þá má gera ráð fyrir að stór hluti af þessum 400 milljörðum hafi verið froða.  Ekki hafi legið raunveruleg verðmætaaukning að baki þeim hagnaði, heldur uppblásið verðmat á útlánum, hlutabréfum og skuldabréfum.  Þar sem 82,6 milljarðar eru um 20% af hagnaðinum, má fastlega búast við því að 50 - 80% af raunverulegum hagnaði fyrirtækjanna hafi þannig verið færður til eigenda sinna, m.a. í skattaparadísinni Hollandi.  Hér á landi varð eingöngu eftir skattur af þeim arði sem rann til innlendra aðila, en þeir útsjónarsömu komu peningunum undan.  Kaldhæðnin í þessu, er að fyrirtækin greiddu umtalsverðan skatt í ríkissjóð umfram það sem þau hefðu annars þurft, ef bókhaldið hefði verið rétt fært.  En þá hefði ekki verið hægt að greiða út eins háan arð.

Ég hef áður sagt og segi enn, að skattfríðindi erlendra aðila hér á landi vegna tvísköttunarsamninga er að byrja á röngum enda.  Vissulega færðu íslensk fyrirtæki einhvern hagnað frá örðum löndum hingað til lands, en það er líka röng aðferðafræði.  Skatta af fjármagni á að greiða í því landi sem fjármagnstekjurnar verða til.  Það hefði t.d. þýtt að hollensku félögin þeirra Ólafs Ólafssonar og Hannesar Þórs Smárasonar hefðu greitt skatt hér á landi af arðgreiðslum sínum.  Sama hefði átt við um innstæðueigendur á Icesave.  Þar sem reikningarnir voru jú tæknilega séð íslenskir, þá hefði fjármagnstekjuskattur runnið í fjárhirslur íslenska ríkisins, en ekki þess hollenska eða breska.