Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 2.1.2011. Efnisflokkur: Neytendamál
Ég verð að viðurkenna, að mér kemur þetta nákvæmlega ekkert á óvart. Hér er enn eitt dæmið um það að neytendavernd er besta falli til í skötulíki hér á landi. Hvernig í ósköpunum getur einstaklingur sem er tryggður gegn slysum samkvæmt (að ég reikna með) kjarasamningi átt að bera ábyrgð á því hvort fyrirtækið sem hann vinnur hjá er í skilum eða ekki?
Þetta mál sýnir þann litla rétt sem einstaklingar hafa í þessu samfélagi. Undanfarin ár hafa lántakar mátt upplifa það, að réttur þeirra er enginn þegar fjármálafyrirtæki settu allt á hausinn. "Borgið upp og þegið", eru skilaboðin sem fólk fær frá fjármálakerfinu og stjórnvöldum. Eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar eru til að vernda kröfuhafa þó kröfur þeirra séu byggðar á svikum, lögbrotum og prettum. Rannsóknarskýrsla Alþingis er ekki næg sönnun fyrir þeim rangindum sem almenningur var beittur, nei, stjórnvöld skulu hjálpa lögbrjótunum með því að setja lög til að verja þá.
Varðandi þetta mál Sjóvár gegn starfsmanni, sem varð fyrir líkamstjóni, þá fatta ég ekki hvernig þriðji aðili (þ.e. sá tryggði) getur verið ábyrgur fyrir því að fyrirtækið, BM-Vallá, hafi verið í vanskilum með greiðslur iðgjalda. Í slíku tilfelli höfum við vexti og dráttarvexti, vanskilagjöld og hvað það er nú annað sem innheimtulögfræðin snýst um. Ég get líka skilið, að hafi fyrirtækið orðið fyrir tjóni, sem tryggingarfélagið var að bæta, þá megi draga vanskilin frá greiðslunni. Í þessu tilfelli varð þriðji aðili fyrir tjóni og það kemur honum ekki hót við hvort vanskil voru á greiðslu iðgjaldanna. Hafi tryggingin verið í gildi, þá ber tryggingarfélaginu að greiða og það undanbragðalaust.
Þó svo að fyrirtækið hafi verið í vanskilum, þá varð maðurinn fyrir líkamstjóni sínu í apríl 2009. Voru iðgjöldin í vanskilum á þeim? Ef svo var, eigum við að trúa því að iðgjöldin hafi verið í vanskilum allan þann tíma?
Ég held að kominn sé tími til, að stjórnvöld taki til í neytendaverndarákvæðum íslenskra laga. Það gengur ekki að réttur neytenda sé ítrekað fyrir borð borinn stórfyrirtækjum til hagsbóta.
Færslan var skrifuð við fréttina: Fær ekki bætur að fullu vegna vanskila atvinnurekanda