Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.8.2011.
Einhvers misskilnings virðist gæta varðandi kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til umboðsmanns Alþingis. Samtökin eru að kvarta undan þeirri aðferðafræði að bæta verðbótum ofan á höfuðstól lánsins, en samkvæmt lögfræðiáliti sem samtökin hafa í höndunum (og eru raunar búin að hafa í höndunum frá því í janúar) þá heimila ákvæði laga það ekki heldur eingöngu að greiðslur séu verðbættar.
Um hvað snýst ágreiningurinn?
1. Grein 4 í reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 hafi ekki lagastoð, en þar segir m.a.:
Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.
þ.e. undirsktrikaði textinn styðjist ekki við nein lagaákvæði.
2. Að bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands (sett inn 1978) hafi fallið úr gildi í árslok 1980. Ákvæðið hljóðar sem hér segir:
Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þar á meðal um heimildir til skuldabréfaskipta af þessu tilefni.
Takið eftir að ákvæðið átti eingöngu við vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 og hefur því ekkert gildi eftir það.
3. Að bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 10/1961 hafi ekki haft stoð í lögunum sjálfum, þar sem VII. kafli sem vísað er til er augljóslega í allt öðrum lögum, þ.e. um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, en ekki lögum nr. 10/1961. Spurningin er því hvort þetta bráðabirgðaákvæði hafi nokkru sinni verið gilt.
4. Að fyrri reglur SÍ um sama efni hafi ekki haft lagastoð, ýmist alls ekki (sbr. lið 3), frá árslokum 1980 (sbr. lið 2) eða frá því að lög nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands tóku gildi, en bráðabirgðaákvæðið frá 1978 var ekki endurnýjað í þeim.
Hvaða máli skiptir það hvort verðbætur eru reiknaðar á höfuðstól annars vegar eða greiðslur hins vegar? Ég hef verið að skoða hver áhrifin eru og hef notað við það reiknivélar bankanna og Íbúðalánasjóðs annars vegar og hins vegar líkön sem ég hef aðgang að. Auk þess er ég að reyna að bera saman raungreiðslur og útreikninga í samræmi við reiknivélar banka og ÍLS. Vandamálið er, að reiknivélar bankanna (Landsbankans og Arion banka, vél Íslandsbanka var ekki tiltæk) sýna aðra niðurstöðu en vél ÍLS og munar þar talverðu þó notaðar séu sömu forsendur. Á ég eftir að skoða betur í hverju þessi mismunur felst.
Guðbjörn Jónsson hefur birt þrjú myndbönd á YouTube, þar sem hann fer ítarlega yfir sína útreikninga og fær út gríðarlegan mun eftir því hvort hans aðferð er notuð eða reiknivél Landsbankans. Vissulega notar hann ýkta verðbólgu til að sýna fram á muninn, en eingöngu við mjög litla verðbólgu skiptir munurinn á aðferðafræðinni ekki máli svo nokkru nemur.
Fyrsti hluti myndbands Guðbjörns
Annar hluti myndbands Guðbjörns
Þriðji hluti myndbands Guðbjörns
Hvort allt sé rétt sem kemur fram á myndböndunum hef ég ekki sannreynt, en skýringar Guðbjörns eru góðar svo langt sem þær ná.
Viðbót
Í fréttaskýringu Morgunblaðsins eru vangaveltur um hvað verður um höfuðstólinn. Vissulega gæti höfuðstóllinn lækkað, en í skýringu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands við setningu tilmæla þessara stofnana í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010, þá kom fram að það var framtíðargreiðsluflæðið sem skipti mestu máli. Eign bankanna væri metin út frá þessu greiðsluflæði, en ekki höfuðstóli lánanna. Nú hlýtur það sama að gilda. Framtíðargreiðsluflæðið lækkar líklegast eitthvað, en ekki er víst hversu mikið. Það veltur allt á verðbólgunni á lánstímanum.
Morgunblaðið fer yfir þá þrjá kosti sem einn bankamaður segir vera í stöðunni, en gleymir þeim sem virðist augljósastur. Kostirnir sem bankamaðurinn sér, er 1) að borga allar verðbætur strax; 2) að verðbætur leggist með nýju láni ofan á það lán sem er fyrir (þ.e. í reynd sama fyrirkomulag og nú er); 3) að óheimilt sé að leggja verðbætur á höfuðstól. Fjórði kosturinn og sá sem lögin segja til um, er að hver afborgun sé verðbætt líkt og Guðbjörn lýsir í myndböndunum sínum. Þá er höfðustóllinn óverðbættur, afborgunin fundin fyrir hvern gjalddaga og hún síðan verðbætt. Það sem stendur þá út af er hvernig á að fara með vextina, þar sem höfuðstóllinn lækkar við hverja afborgun en hækkar ekki eins og núverandi fyrirkomulag segir til um. Á þá að verðbæta vextina líka?
Stærsta málið varðandi verðtryggð lán er þó óútkljáð, þ.e. standast þau evrópskan neytendarétt? Um það eru deildar meiningar, en ég ætla ekki að fjalla um það núna.