Fölsun upplýsinga heldur áfram

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.8.2011. Efnisflokkur: Nýir bankar, Afskriftir, Lánasöfn

Ég er búinn að vekja athygli á þessu áður og sé mig knúinn til að endurtaka það hér:

Fjármálafyrirtækin sendu rangar upplýsingar til ríkisskattstjóra um stöðu áður gengistryggðra lána heimilanna vegna framtals þess árs.  Lánin voru ennþá reiknuð sem gengistryggð þrátt fyrir dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010.  Er alveg með ólíkindum að skattstjóri hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum mínum til hans um þetta efni.  Skil ég ekki hvers vegna rangar tölur eru látnar standa.

Samkvæmt útreikningu Fjármálaeftirlitsins þá námu áhrifin af dómum Hæstaréttar vel á annað hundrað milljarða sem eftirstöðvar lána einstaklinga lækkuðu.  Í gagnaskilum til ríkisskattstjóra ákváðu fjármálafyrirtækin að virða að vettugi dómana, eins og þeir hefðu aldrei fallið.  Og þrátt fyrir endurteknar ábendingar mínar, þá lætur ríkisskattstjóri (að því virðist) eins og ekkert sé.  Er það grafalvarlegur hlutur, þar sem það varðar við sektum og jafnvel þyngri refsingu að gefa upp rangar upplýsingar á skattframtölum.  En ekki fyrir fjármálafyrirtækin.  Þau virðast geta sent hvaða bull sem er til skattstjóra og hann tekur við þeim þegjandi og hljóðalaust án minnstu tilraunar til að fá réttar upplýsingar.  Ætli Steingrímur átti sig á því, að með þessu er skattstjóri að lækka skattstofna ríkisins?  Þessi "mistök" fjármálafyrirtækjanna hafa nefnilega áhrif á, svo dæmi sé tekið, auðlegðarskatt.

Nú ratar þessi vitleysa um ranga skuldastöðu heimilanna inn í eitt ritið í viðbót, Peningamál Seðlabanka Íslands.  Þaðan fara tölurnar inn í ótal önnur rit, því Peningamál er eitt af þessum grunnritum sem sífellt er vitað í.  Hvers vegna ríkisskattstjóri lætur fjármálafyrirtækin komast upp með að mata sig á röngum upplýsingum, er mér með öllu óskiljanlegt og er ekki til að auka traust almennings á íslenskri stjórnsýslu.


Færslan var skrifuð við fréttina: Dómur dregur úr óvissu