Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.9.2011.
Í dag 11. september eru 10 ár frá því að gerðar voru ótrúlega vel undirbúnar hryðjuverkaárásir á tvær borgir í Bandaríkjunum, New York og Washington. Tala látinna skipti þúsundum og fleiri hundruð þúsund hafa látist í átökum í Afganistan og Írak sem beint eða óbeint má rekja til hefndaraðgerða Bandaríkjanna vegna árásanna. Hvorugt af þessu ætla ég að fjalla um.
Oft er sagt að 11. september 2001 hafi heimurinn orðið hættulegri en áður. Ég er ekki viss um að það sé rétt. Ég held að 11/9 2001 hafi verið birtingarmynd þess að heimurinn hafi þróast smátt og smátt yfir í að vera mjög hættulegur í ár og áratugi þar á undan. Raunar hafi vissri pressu verið létt þennan dag og heimurinn í reynd orðið öruggari.
Frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948 hefur byggst upp gríðarleg spenna í Miðausturlöndum. Spenna sem Vesturlöndin hafa ekki gefið nægilegan gaum eða talið nægilega hættuleg til að leysa á farsælan hátt. Í árhundruð hefur verið ágreiningur um nýtingu ákveðinna landsvæða á milli gyðinga, hinna kristnu Vesturlanda og múslima sem búa fyrir botni Miðjarðarhafs og löndunum þar í kring. Eftir lok síðar heimstyrjaldarinnar þá fylltust Vesturlöndin sektarkennd vegna helfarar nasista á hendur gyðingum og ákváðu að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. að enda skærur við hersveitir gyðinga sem höfðu herjað á breska hernum á svæðinu og finna evrópskum gyðingum samastað í nýju landi. Niðurstaðan var stofnun Ísraelsríkis.
Nú ætla ég ekkert að tjá mig um réttlæti þessarar ákvörðunar og mun ekki taka afstöðu til kröfu gyðinga til þessa lands. Hvorugt skiptir máli varðandi þessa færslu. Nei, efni hennar er afleiðingarnar af þeim óleystu málum sem komu upp í kjölfar stofnunar Ísraelsríkis.
Greinilegt er að stofnun nýs ríkis á svæði þar sem fólk af ólíkum uppruna bjó var ákaflega illa ígrunduð og ekki síst illa undirbúin ákvörðun. Efast ég þar á engan hátt um réttmæti þess að gyðingar eignist sitt ríki, en hvernig var staðið að því var augljóslega kolrangt. Stórir hópar Palestínumanna sem bjuggu á því svæði, sem féll undir hið nýja ríki, voru ósáttir við ákvörðunina, ákváðu að una henni ekki og flytja frekar af landi sínu. Fluttust þeir að mestu til Jórdaníu, en einnig til annarra landa í kring. En það voru ekki bara Palestínumenn sem voru ósáttir við hið nýja ríki, nágrannar þessu litu einnig á það sem þyrn í síðu þjóðanna. Reyndu þau á einum tímapunkti að eyða ríkinu með hernaði, en tókst ekki betur til en svo að bíða afhroð. Síðan hafa verið háðar nokkrar styrjaldir sem allar eiga það sammerkt að Ísrael hefur haft betur eða í versta falli náð að halda í horfinu. Ekki er hægt að tala um sigurvegara, þar sem aldrei hefur komist á varanlegur friður sem allir aðilar geta lifað við.
Það er þessi vangeta alþjóðasamfélagsins að leysa ágreininginn á milli Ísraels og nágranna þeirra sem er megin ástæðan fyrir því að heimurinn hefur smátt og smátt orðið hættulegri. Haldi menn að hernaðaraðgerðir leysi vandann, þá hefur hið gagnstæða komið í ljós. Með auknum hernaði hefur spennan og þar með hættan ávallt aukist. Kynslóð eftir kynslóð af múslimum hefur alist upp við hatur á Ísrael og Vesturlöndum. Þó hóparnir hafi verið misstórir eftir löndum, þá eru þeir þarna, og í sumum löndum er nánast hægt að segja að þetta hatur sé landlægt.
Birtingarmynd gerandans í því óréttlæti, sem múslimum í nágrannalöndum Ísrael fannst bæði þeir og trúbærður þeirra í Palestínu höfðu verið beittir, var fyrst og fremst Bandaríkin. Af þeirri ástæðu færðist hatur á fólks smátt og smátt yfir á Bandaríkin, en þau fóru ekki leynt hve mikið þau studdu tilvist Ísraelsríkis að ónefndum alls konar aðgerðum sem Bandaríkin hafa staðið fyrir í Miðausturlöndum.
Óleyst mál eiga til að vinda upp á sig og verða sífellt erfiðari viðfangs. Svo er reyndin með þetta mál. Vesturlandabúar hafa mátt reyna á eigin skinni hina stigmagnandi ógn sem stafaði af óánægðum múslimum í Miðausturlöndum og norðanverðri Afríku. Alls konar atvik komu upp og hryðjuverkaárásir urðu sífellt svæsnari. Um tíma voru það tíð flugrán, flugvél var sprengd upp yfir Lockerbie í Skotlandi, sprengjur sprengdar á flugvöllum, saklausir ferðamenn myrtir í flugstöðvum, sprengju sprengdar hér og þar. Með hverju árinu sem leið varð ógnin var hryðjuverkum meiri og heimurinn því hættulegri til að búa í. Persaflóastríðið varð síðan enn frekar til að hella olíu á eldinn.
Flugránin og árásirnar á Tvíburaturnana í New York og Pentagon í Washington voru til vitnis um hve hættulegur heimurinn var orðinn. Hver sem stóð að baki þessu árásum var greinilega til í að grípa til ákaflega róttækra aðgerða við að koma sínum málstað á framfæri og tryggja framgang sinna mála. Árásirnar voru afleiðing af þessum ásetningi, þ.e. raunbirting hættunnar. Raunar má segja að heimurinn hafi orðið hættu minni í kjölfar árásanna, vegna þess að þeim var lokið. Með árásunum fækkaði hættunum um eina (eða tvær) og það ekki neina smávægilega.
Dagana eftir 11/9/2001 var eins lítil hætta samfara því að fljúga milli staða á hnettinu og hægt var að hugsa sér. Dagana fyrir hafði aftur verið ákaflega hættulegt að fljúga og hámarki náði hættan fyrir farþega vélanna fjögurra sem notaðar voru í árásirnar.
Það er margt líkt með hryðjuverkum og náttúruhamförum. Minnstar líkur eru á nýjum stuttu eftir að atburður hefur átt sér stað og þær aukast sífellt eftir því sem fjær dregur. Suðurlandsskjálftinn 2008 gerði það líklegast að verkum að dregið hefur verulega úr hættunni af nýjum stórum jarðskjálfta nálægt Hveragerði og Selfoss á næstu árum. Hafi nýr jarðskjálfti ekki riðið yfir fyrir 2088, þá er hættan á nýjum skjálfta aftur orðin umtalsverð.
Varð heimurinn hættulegri 11/9/2001? Mitt svar er nei. Hann varð, þó furðulegt sé, öruggari af þeirri einföldu ástæðu, að mjög sjaldgæft er að mannskæð hryðjuverk verði strax í kjölfar mannskæðra hryðjuverka. Það sem aftur gerðist 11/9/2001 er að almenningur varð betur meðvitaður um hætturnar í umhverfi okkar. Hann áttaði sig betur á því hve langt þeir sem stóðu að árásunum voru tilbúnir að ganga til að vinna málstað sínum brautargengi. Að almenningur varð meðvitaðri um hve mikil ógnin er gerði, eins furðulegt og það virðist hljóma, heiminn öruggari, þar sem besta vörn við afleiðingum ógna er að vera meðvitaður um hvað gæti gerst og kunna að bregðast við hættumerkjum í umhverfinu. Afleiðingar náttúruhamfara eru almennt tvenns konar, þ.e. beint tjón af hamförunum og síðan röskun sem tjónið veldur á daglegum störfum fólks, fyrirtækja og stjórnvalda. Þannig er þetta líka með hryðjuverk. Þau leiða af sér beint tjón, en síðan leiða þau líka af sér röskun sem er oftar en ekki mun kostnaðarsamara en hið beina tjón.
Sé menn búnir undir að bregðast við hugsanlegri röskun, þá verða afleiðingarnar minni. Þetta kom vel í ljós 11/9/2001. Þrátt fyrir að mörg fyrirtæki hefðu misst stóran hluta starfsemi sinnar, þá voru þau nettengd allan tímann. Vefir fyrirtækjanna voru aðgengilegir án truflunar allan þann dag og næstu daga. Aðrar starfsstöðvar fyrirtækjanna voru "virkar", þ.e. fólk var starfandi þar og hafði aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum fyrirtækis síns. Ástæðan var sú, að nokkrum árum áður hafði verið reynt að fella Tvíburaturnanna með því að sprengja mikilvægar stoðir í kjallara þeirra. Fyrirtækin í byggingunum tóku það alvarlega og bjuggu sig undir aðra slíka árás, þó svo að engum hafi dottið í hug að hún yrði framkvæmd á þann hátt sem gert var. Með því að búa sig undir röskun er dregið úr hættunni sem fylgir ógninni. Þess vegna varð heimurinn á vissan hátt hættuminni 11/9/2001. Hvort hann hafi haldist hættuminni síðan er svo allt annað mál og atburðunum 11/9/2001 í sjálfu sér óviðkomandi.