Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.9.2011.
Á síðustu dögum hafa birst fréttir um meintar afskriftir og niðurfærslur bankanna þriggja hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Samkvæmt efnahags- og viðskiptaráðherra þá hafa bankarnir þrír afskrifað 503 ma.kr. hjá fólki og fyrirtækjum og samkvæmt Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) hafa fjármálafyrirtækin fært niður skuldir heimilanna um 140 ma.kr. Samtals gerir þetta (þegar búið er að taka tillit til tvítalningar) 620 ma.kr. Þetta eru afskriftir og niðurfærslur frá því að nýju bankarnir voru stofnaðir (eða því sem næst). Á sama tíma hafa þessir sömu bankar skilað 120 ma.kr. í hagnað.
Það er aðeins til eitt orð um þessar meintu afskriftir: Skáldskapur. Eða ætti ég að segja: LYGI.
Þegar lán er afskrifað, eins og sagt er að bankarnir hafi gert, þá kemur það til gjalda í bókhaldi. Hafi bankarnir þrír afskrifað 620 ma.kr. og samt haft 120 ma.kr. í hagnað, þá þýðir það að þeir voru með 740 ma.kr. í hagnað fyrir afskriftir. Málið er að ekkert í bókhaldi fjármálafyrirtækjanna bendir til slíks.
Hvers vegna dettur Árna Páli Árnasyni að koma í ræðustól í Alþingi og leggja þar fram falsaðar upplýsingar? Eða hvernig dettur SFF að ljúga að almenningi um afskriftir sem hvergi sjást í bókhaldi bankanna þriggja? Er það kannski vegna þess, að flestir trúa öllu sem sagt? Mér misbýður stórlega háttsemi ráðherra og SFF. Logið er að fólki að nýju bankarnir séu svo góðir og séu að afskrifa í stórum stíl, þegar staðreyndin er að þeir eru óforskammaðir fjárplógar og eru að reyna að innheimta á hærra verði kröfur sem voru afskrifaðar í hrunbönkunum. Nýju bankarnir þrír keyptu kröfur, sem þegar höfðu verið afskrifaðar í hrunbönkunum. Nýju bankarnir þrír færðu kröfurnar til bókar hjá sér á hinu afskrifaða virði, en innheita þær eins og hrunbankarnir hafi ekki afskrifað þær.
620 ma.kr. afskriftir finnast ekki í bókhaldinu
Ekki þarf mikla hæfileika í að lesa ársreikninga til að sjá, að hvergi í ársreikningum bankanna þriggja er talað um 620 ma.kr. afskriftir. Eftir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar er ekki einu sinni að finna háar afskriftir vegna lækkunar lána. Nei, þegar betur er gáð, þá greina allir bankarnir frá því að afskriftir lána hafi farið fram í hrunbönkunum og að bókfært virði í nýja bankanum eigi ekkert skylt við bókfært virði fyrir afskrift í hrunbankanum.
Hvers vegna er þá verið að telja fólki trú um að bankarnir hafi afskrifað svona mikið? Jú, til þess að láta þá líta vel út, þegar fáránlegar hagnaðartölur líta dagsins ljós. Hagnaðartölur sem eru byggðar á því að bankarnir eru að færa til tekna að þeir eru hækka bókfært virði lána viðskiptavina. Sé þetta skoðað nánar, þá er þetta óheyrileg ósvífni og spurning hvort hér sé ekki um lögbrot að ræða. A.m.k. er þetta gjörsamlega siðlaust.
Dæmi um ósvífni bankanna
Hér er tilbúið en dæmigert dæmi um ósvífni nýju bankanna.
30/9/2008 er bókfært virði láns í einum af bönkunum þremur 40 m.kr.
9/10/2008 er þetta lán fært niður í bókum bankans í 20 m.kr. Sama dag er það fært yfir í nýja bankanna á 20 m.kr. og hann tekur á móti á sig 20 m.kr. skuldbindingar vegna innstæðna.
1. nóvember fær lántakinn sendan greiðsluseðil frá nýja bankanum og þar kemur fram að eftirstöðvar lánsins séu 40 m.kr., ekki 20 m.kr. eins og lánið er skráð í bókum bankans. Þessar 20 m.kr. sem þarna munar koma hvergi fram í bókhaldi bankans, a.m.k. er þær ekki að finna í ársreikningi vegna 2008. Hvernig getur bankinn innheimt það sem ekki er til í bókum bankans? Ef til væri varúðarfærsla þar sem 20 m.kr. mismunurinn væri færður, þá væri ekkert hægt að segja, en hún er ekki einu sinni til.
Við endurmat á láninu árið 2009 er metið að 24 m.kr. fáist greiddar af láninu. Bókfært virði lánsins er hækkað og hækkunin talin til tekna.
Við endurmat á láninu árið 2010 er metið að 28 m.kr. fáist greiddar af láninu. Bókfært virði lánsins er hækkað og hækkunin talin til tekna.
Árið 2011 fer viðkomandi lántaki í gegn um 110% leið bankans og fundið er út að 110% af eignum lántakans er 32 m.kr. Bókfært virði lánsins er hækkað og hækkunin talin til tekna. Jafnframt er mismunurinn á stöðu lánsins, sem núna er komið í 44 m.kr., og 32 m.kr. fært reiknað á einhverjum hliðarreikningi sem afskrift.
Þannig hefur bankinn fengið 12 m.kr. í hagnað af láninu, en segist jafnframt hafa afskrifað 12 m.kr. af sama láni (þó það komi ekki fram í ársreikningi).
Svona verður hagnaður bankanna til. Hann fæst með því að innheimta lán sem afskrifuð höfðu verið í hrunbankanum eins og þau hafi aldrei verið afskrifuð. Síðan er allt sem hægt er að fá aukalega út úr láninu, fært sem hagnaður. Til þess að hagnaðurinn líti ekki of illa út, þá er jafnframt greint frá því að restin hafi verið afskrifuð. Sem sagt í annað sinn eru sömu krónurnar "afskrifaðar" af sama láninu.
Afslátt skal skila til viðskiptavinarins
Dómstólar hafa komist að því, að svona hátterni brjóti í bága við lög. Fyrir nokkrum árum ætlaði kona nokkur að kaupa vöru af fyrirtæki, en verktaki sem vann fyrir hana bauðst til að kaupavöruna fyrir konuna. Verktakinn fékk góðan afslátt af vörunni, en lét konuna greiða fullt gjald, sem auk þess var hærra en það verð sem fyrirtækið hafði boðið konunni. Hún fór í mál og niðurstaða var að verktakanum bar að framselja afsláttinn til konunnar.
Margt er líkt í þessum málum. Hrunbankarnir afskrifuðu lán áður en þau voru flutt yfir í nýju bankana. Lántakinn er neyddur til að eiga viðskipti við nýja bankann, þó svo að hann hefði mögulega geta fengið hagstæðari kjör hjá hrunbankanum. Nýi bankinn telur sig eiga rétt á að innheimta lán á fullu verði, þrátt fyrir afskrift hrunbankans, afskrift sem kom nýja bankanum ekkert við, þar sem hún er framkvæmd í bókhaldi hrunbankans.
Nær ómögulegt er fyrir einstaka lántaka að höfða mál vegna lána sinna. Nýi bankinn getur alltaf borið fyrir sig, að þetta tiltekna lán hafi ekki verið afskrifað hjá hrunbankanum vegna þess að afskriftir fóru ekki fram lán fyrir lán, heldur eftir mun einfaldari forskrift. Eina leiðin til að hnekkja þessu væri, ef allir lántaka hvers banka fyrir sig tækju sig saman og færu í mál. Ólíklegt er að það gerist.
Hvers vegna ber Árni Páll lygar fyrir Alþingi?
Greinilegt er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er í slæmum málum. Hlutirnir hafa ekki gengið eins vel og hún og Steingrímur J. hefðu óskað. Þess vegna er farið út í það að bera á borð almennings og það sem verra er, þingsins alls konar skreyttar upplýsingar. 503,3 ma.kr. afskriftir er svaka flott tala, en málið er að hún er lygi. Þessar afskriftir fóru ekki fram 2009 og 2010, eins og efnahags- og viðskiptaráðherra fullyrðir í svari sínu. Þær fóru að mestu fram í október og nóvember 2008 í bókum hrunbankanna. Langstærsti hluti upphæðarinnar rataði ALDREI inn á eignarhlið bókhalds nýju bankanna. Málið er að ráðherrann kemst upp með að bera þessa vitleysu fyrir þingið vegna þess að þar kveikir enginn á vitleysunni. Og ekki eru fjölmiðlar skárri. Þeir eru hættir. Búnir að gefast upp. Nenna ekki lengur að fletta ofan af lyginni og blekkingunum. Birta tölur gagnrýnilaust af því að þeir nenna ekki öðru eða vegna þess að annars verða þeir ekki lengur í náðinni hjá ráðherrum og ríkisstjórn. Meðan fjölmiðlar leyfa ráðherrum og SFF að vera bull og lygar á borð, þá halda þessir aðilar áfram að bulla og ljúga. Hættið þessari meðvirkni og segið hinum forföllnu lygurum að orð þeirra séu ekki marktæk, þar sem þau innihaldi bara blekkingar, hugaróra og lygar. Hversu oft sem einhver segir að svart sé hvít, þá breytir það því ekki að svart er ekki hvítt NEMA að við leyfum þeim að breyta staðreyndum og hliðra til sannleikanum.
Stjórnvöld og SFF komast upp með að beita blekkingum eða ljúga að okkur vegna þess að við sem hlustum erum meðvirk. Það er okkar að segja: "Stopp við tökum ekki meiru af þessu bulli, segið okkur sannleikann." Því meðan það er ekki gert, þá hættir hinn óforbetranlegi lygari ekki að ljúga að okkur.