Illugi braut lög, en það er allt í lagi - Virðingu Alþingis setur niður

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.9.2011. Efnisflokkur: Stjórnmál

LEX lögmannsstofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarmenn Sjóðs 9 hafi brotið lög.  Stofan hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að þetta lögbrot sé hið besta mál þar sem það var bara minniháttar.  Lögmannsstofan kemst einnig að þeirri niðurstöðu að eðlilegir og góðir viðskiptahættir hafi ekki verið hafðir í heiðri.  En það er líka allt í lagi.

Út frá þessari niðurstöðu ætlar Illugi Gunnarsson að taka sæti aftur á Alþingi.  Maður sem braut lög og hafði ekki í heiðri eðlilega og góða viðskiptahætti, sem varð til þess að félagar í Sjóði 9 töpuðu milljarða tugum, ef ekki meira, af fé sínu.

Virðing Alþingis þverr

Því miður er þetta dæmi um hve margir þingmenn eru langt frá því að vera vandir að virðingu sinni.  Fjármálaráðherra er staðinn að því að segja ósatt í viðtali við Morgunblaðið og það er allt í lagi.  Forsætisráðherra fylgist ekki betur en svo sem þingstörfum, að hún veit ekki hvað hefur verið samþykkt þar.  Kemur fram í fjölmiðlum og fullyrðir að utanríkisráðherra hafi farið eftir þingsályktunartillögu sem aldrei var lögð fram, hvað þá samþykkt.  Tveir efnahags- og viðskiptaráðherrar koma í pontu á Alþingi og ljúga að þingheimi.  Í staðinn fyrir að biðjast afsökunar og leiðrétta mál sitt, þá festa þeir sig frekar í þvælunni.  Umræða á Alþingi snýst um útúrsnúninga og brandara, einhvers konar mælskukeppni, frekar en brýn málefni þjóðarinnar, en það er allt í lagi.

Hvað er í gangi hjá alþingismönnum?  Er í lagi að brjóta lög og halda síðan áfram trúnaðarstörfum fyrir þjóðina?  Er allt í lagi að vera með einhvern sandkassaleik í þingsal til að sýna hinum hvað maður getur verið sniðugur?

Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, kemst vel að orði í pistli í dag:

Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar standa í ræðustóli og reyna að snúa út úr hver fyrir öðrum, gjamma frammí og rífast við forsetann eins og óþekk börn og eiga sviðið fyrir bragðið.  Raddir þeirra þingmanna og ráðherra sem halda til streitu málefnalegri umræðu, og þeir eru vissulega margir og ágætir, beinlínis drukkna í kappræðumenningu Morfísmannanna, stóryrðunum og fúkyrðunum.

Því miður er þetta það Alþingi sem blasir við fólkinu í landinu, kjósemdum, og er það nema von að fólk hafi ekki geð í sér að veita þeim stuðning í skoðanakönnunum, þrátt fyrir að vera þráspurt.  Forvitnilegt væri að vita hver staðan var eftir fyrstu spurningu.

Um daginn sagði japanskur ráðherra af sér.  Hann sagði sannleikann um mál sem ekki mátti ræða.  Þ.e. að svæði kringum Fukusima kjarnorkuverið væri dauðasvæði.  Hér á landi hanga þingmenn og ráðherrar á sætum sínum eins og enginn væri morgundagurinn.  Þeir þekkja ekki takmörk sín, þegar kemur að hæfi til ákvarðana eða þátttöku í atkvæðagreiðslu.  Allt of margir eru búnir að glata sjálfstæði sínu til eigin skoðana.  Hefur sérstaklega verið áhugavert að horfa á þingmenn hringsnúast í skoðunum vegna þess að formaður þeirra hefur skipt um skoðun, og það ekki einu sinni heldur margoft.

Árni Páll heldur áfram að rugla saman nýju og gömlu bönkunum

En ég verð í lokin að ræða Árna Pál Árnason.  Hann hefur lýst því yfir að útreikningar bankanna séru svo flóknir að hann skilji þá ekki.  Þetta kom berlega í ljós um daginn þegar hann bar fram rangar upplýsingar yfir Alþingi um meintar afskriftir Íslandsbanka III, Arion banka og Landsbankans.  Hann fullyrti að þessir bankar hefðu afskrifað 503,3 ma.kr.  á árunum 2009 - 2010.  Þegar honum var bent á það í þættinum Á Sprengisandi í gær að þetta væru ekki allt raunverulegar afskriftir, þá sagði hann eitthvað á þá leið að bankarnir þyrftu samt að afskrifa þetta í bókum sínum.  Árni Páll hefur oft viðurkennt vanþekkingu sína á stærðfræði, en þarna sýndi hann og sannaði að hann hefur heldur ekki vit á bókhaldi.  Nýju bankarnir þrír geta ekki afskrifað það, sem ekki var fært til eignar hjá þeim.  Daginn sem ráðherra, Fjármálaeftirlit og alþingismenn skilja það, verður stór dagur í lífi þjóðarinnar.  Þann dag hætta menn nefnilega að ljúga að þjóðinni um þessar afskriftir.

Eins og ég benti á um daginn, þá hafa komið fram upplýsingar um ríflega 630 ma.kr. afskriftir og þær verið eignaðar nýju bönkunum.  Til þess að þetta geti staðist, þá hefðu þessi sömu bankar þurft að hagnast um ríflega 740 ma.kr. fyrir afskriftir, en árs- og árshlutareikningar þeirra bera þess engin merki.  Svo Árni Páll geti hugsanlega skilið þetta, þá langar mig að skýra þetta betur út.

A.  Í október og nóvember 2008 var gerður samningur milli hrunbankanna og nýju kennitölunnar um flutning innlendra lánasafna frá hrunbankanum til nýju kennitölunnar.  Áður en þessi flutningur átti sér stað, fór fram endurmat á þessum lánasöfnum hjá hrunbönkunum.  Þetta endurmat gaf mun lægra virði lánasafnanna, en staða þeirra var fyrir endurmatið.  Munurinn hljóp á, skv. skýrslu fjármálaráðherra, 1.800 til 2.120 ma.kr. af lánasöfnum sem voru að nafnvirði 4.000 ma.kr.  Hrunbankarnir færðu því lánasöfnin niður í hina endurmetnu upphæð og "seldu" nýju kennitölunni lánasöfnin á hinu endurmetna verði með því fyrirvara að endanlegt uppgjör ætti sér stað árið 2012.

B.  Nýju kennitölurnar færðu innlendu lánasöfnin til eigna hjá sér.  Bankinn sem núna heitir Arion banki færði lánasöfn upp á 455,5 ma.kr., sá sem heitir Íslandsbanki færði lánasöfn upp á 631,4 ma.kr. og sá sem heitir Landsbankinn færði lánasöfn upp á 739,4 ma.kr.  Í endurskoðuðum stofnefnahagsreikningi bankanna þriggja þá höfðu tölurnar breyst í 324,7 ma.kr., 482,6 ma.kr. og 655,7 ma.kr.  Síðan bættust lán við hjá Arion banka, sem voru á þeim tíma í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., þannig að þessi 324,7 ma.kr. urðu eitthvað hærri tala.  Afskriftirnar sem framkvæmdar voru í hrunbönkunum urðu eftir þar.  Þær færðust ekki á milli.

Miðað við þetta, er það enn ein hagræðingin á sannleikanum að segja að nýju bankarnir hafi þurft að afskrifa um 623 ma.kr.  Það er rangt og þess sér hvergi stað í árs- og árshlutareikningum bankanna.  Þeir hafa kannski afskrifað um einhverja milljarða og hugsanlega milljarða tugi, en ekkert fram yfir það.  En Árni Páll er bara lögfræðingur og segist ekki kunna að reikna.  Er skelfilegt að sjá það staðfest aftur og aftur í staðlausum málflutningi ráðherrans.


Færslan var skrifuð við fréttina: Ekkert athugavert við fjárfestingarstefnu Sjóðs 9