Skuldakynslóðin og áhrifin á hagvöxt framtíðarinnar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.11.2011.

Á viðskiptavef visir.is er myndband um skuldakynslóðina, þar sem David Malone, einn þekktasti heimildarmyndagerðarmaður breska ríkisútvarpsins BBC, heldur því fram að heil kynslóð væri skuldum vafin eftir glórulausar ákvarðanir bankamanna. Hér á landi erum við að upplifa þetta.

Í gærkvöldi var fundur hjá Samtökum lánþega og eins á fyrri fundum samtakanna, þá kemur sífellt betur í ljós hve breiður hópur aldurslega það er, sem er í vanda.  Tölur úr lífskjararannsókn Hagstofunnar staðfesta þetta einnig.

Það sem veldur mér mestum áhyggjum er ekki endilega hve margir eru skuldum vafnir, heldur hvaða hópur stendur verst.  Þekkt er að um 20% þjóðarinnar er vel skuldsettur.  Þannig hefur það verið frá því að ég fór fyrst að fylgjast með slíkum tölum og greining Seðlabanka Íslands á þessu hefur sýnt að á árunum fyrir hrun, í mesta góðærinu, þá voru 20% heimila verulega skuldsett.  Nei, áhyggjur mínar lúta frekar að því að hópurinn sem venjulega stendur að baki nýsköpun og uppbyggingu, er í vanda.

Ég er að tala um fólk undir 40 ára og þá helst frá 30 - 39 ára.  Þetta er sá hópur sem er búinn með sitt nám á háskólastigi, hefur byrjað að vinna í almennri launavinnu, en hefur alla jafna verið tilbúinn að taka næsta skrefið.  Hópurinn með ferskustu hugmyndirnar en nógu mikla reynslu til að vita að ekki gengur hvað sem er.  Hópurinn sem er nógu ungur til að vilja taka stökkið vitandi um áhættuna sem því fylgir, en nógu efnaður til að þola högg sem mögulega kæmi.  Hópurinn sem bankarnir hafa treyst vegna þess að hann hefur átt eignir til að veðsetja og framtíðartekjur til að greiða niður lánin.  Samkvæmt tölum Hagstofunnar á 60% af þessum hópi í vanda, þ.e. á í erfiðleikum með að ná endum saman.

Ef hópurinn, sem á að vera helsta uppspretta vaxtar í þjóðfélaginu, er geldur fjárhagslega, þá mun hann ekki geta sinnt þessi hlutverki sínu.  Margir munu fara leið gjaldþrots sem mér sýnist vera bara ágætlega skynsamt val, meðan aðrir fara út úr landi og freista gæfunnar handan við hafið.  Vissulega verður sá hópur, sem sér tækifæri í kreppunni eða sér sig knúinn til sjálfshjálpar, en þau áform verða að öllum líkindum mun smærri í sniðum en hjá þeim sem fetað hafa sömu slóð undanfarna áratugi.

Vel getur verið, að versta kreppan verði yfirstaðinn eftir 3 - 5 ár, jafnvel fyrr.  Áhrifa hennar mun gæta mun lengur, ef ekki verður gengið lengra í endurskipulagningu og leiðréttingu skulda heimilanna. 

Ég hvatti til þess strax í lok september 2008 að farið yrði í róttækar aðgerðir til að létta undir greiðslubyrði heimilanna.  Síðan höfum við farið í gegn um tímabil smáskammtalækninga og tekist þannig að "bjarga" hluta þeirra sem verst stóðu og létta undir með mörgum.  Gríðarlega stórir hópar eru ennþá í vanda.  Samkvæmt tölum Hagstofunnar á ríflega helmingur heimila, 51,5%, í erfiðleikum með að ná endum saman.  Þessi tala stóð í 36,8%árið 2005.  Sé eingöngu litið til barnafólks, þá hefur tala farið úr 39,4% í 60,1% á þessum 6 árum.  Þetta er ríflega 50% aukning.  (Breytingin er enn meiri, ef 2007 er notað sem viðmiðunarár.)

Tími smáskammtalækninga er liðin.  Stjórnvöld verða að ganga fram fyrir skjöldu og knýja fjármagnseigendur og lándrottna að samningaborðinu.  Þessir aðilar græða ekkert á því að halda kröfum sínum til streitu.  Hagsmunasamtök heimilanna lögðu það til í fyrra að lífeyrissjóðirnir gæfu eftir hluta af kröfum sínum á Íbúðalánasjóð og skerðingin sem kæmi á áunnin lífeyrisréttindi væri dreift á sjóðfélaga þannig að þeir sem ættu lengstan starfsaldur framundan tækju á sig mesta skerðingu meðan þeir sem hafa hafið töku lífeyris fengju enga skerðingu á sig.  Hagnaður bankakerfisins sýnir að þar er borð fyrir báru.

Í mínum huga er þetta sáraeinfalt og hefur alltaf verið það.  Annað hvort verður farið í þessar aðgerðir með heimilunum og þau studd til uppbyggingar eða fjármálafyrirtækin halda sínu til streitu og þurfa að afskrifa þessar skuldir síðar.  Fyrri kosturinn leiðir til þess að við vinnum okkur vonandi hratt og vel út úr kreppunni, en sú síðari dregur hana á langinn.  Eins og ég sagði í færslu haustið 2009:  Leiðréttingar strax eða afskriftir síðar.  Menn nýttu ekki tækifærið þá og því sitjum við nánast í sömu sporum, ef við höfum ekki færst nokkur skref aftur á bak.