Halelúja samkunda með engin tengsl við raunveruleikann

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.11.2011. Efnisflokkur: Stjórnmál

Eftir lestur tveggja frétta af landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá sýnist mér fundargestir þar vera á kafi í meðvirkni.  Tveir fyrrverandi formenn flokksins stíga í pontu og lýðurinn ærist af fögnuði.  Engir tveir einstaklingar innan opinberar stjórnsýslu bera eins mikla ábyrgð á hruninu og þessir tveir menn.  Það getur verið að einhverjar réttar aðgerðir hafi verið teknar EFTIR hrun, en málið er allt það sem var gert rangt FYRIR hrun.

EF ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu haft efni á því að bjarga bönkunum, þá hefði það verið reynt.  Sem betur fer hafði hvorugur aðili burði til þess, þannig að við URÐUM að fara þá leið sem var farin.  Þetta er staðreynd sem við skulum ALDREI gleyma.  Það var okkar happ að hvorki Seðlabankinn né ríkisstjórnin höfðu efni á að bjarga bönkunum.  Annars værum við í stöðu Íra að vera búin að þjóðnýta alla banka landsins eða því sem næst og sjá ekki út um augu fyrir skuldum.

EF ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu gripið í taumana í nóvember 2007, eftir fræga ræðu seðlabankastjóra, þá hefði kannski farið betur.

EF ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu sagt sannleikann í febrúar og mars 2008 í staðinn fyrir að fara í skrumherferð í fjölmiðlum og til annarra landa, þar sem logið var til um styrk ríkissjóðs og bankanna, þá hefði tjónið örugglega orðið minna.

EF Seðlabankinn hefði ekki keypt "ástarbréf" af bönkunum upp á hundruð milljarða sumarið 2008, þá hefði bankinn ekki orðið gjaldþrota.

EF Seðlabankinn hefði ekki fengið lánalínu hjá einum helsta lánveitanda Glitnis, þá hefði bankinn ekki misst sína lánalínu.

EF seðlabankastjóri hefði kunnað sér hóf í fjölmiðlum og látið stjórnmálmenn um stjórnmál, þá hefðu bresk stjórnvöld kannski sleppt því að nota ákvæði hryðjuverkalaga gegn íslensku þjóðinni.

Nei, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, héldu uppi berum ósannindum, neituðu að þiggja ráð eða hlusta á ábendingar nágranna okkar, höfnuðu aðkomu AGS um sumarið 2008 og svona mætti lengi telja, vegna þess að það gat ekki verið að þetta væri að gerast á þeirra vakt.  Svo voga þessir menn sér að kenna slökkviliðinu um afleiðingar eldanna sem þeir sjálfir kveiktu eða báru í eldmat svo þeir löguðu betur.  Og undir þetta taka með lófataki landsfundargestir sem eru greinilega illa haldnir af meðvirkni.

Það sorglega við þetta, er að stór hluti landsmanna virkilega heldur að þjáningarnar sem þjóðin er að ganga í gegn um núna séu Steingrími og Jóhönnu að kenna.  Þau hefðu alveg örugglega getað gert meira til að lina þjáningarnar, en ástandið núna er vegna þess að hér varð hrun og tveir af þeim mönnum sem verulega ábyrgð bera á því hruni eru Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra.  Að þessir tveir menn séu hylltir með lófataki sem einhverjar hetjur eða mikilmenni er móðgun við þjóðina.


Færslan var skrifuð við fréttina: Þrennt bjargaði Íslendingum