Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.11.2011. Efnisflokkur: Dómsmál
Hæstiréttur hafði margt fyrir stafni í dag. Stærsta mál réttarins var líklegast staðfesting á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 118/2011 Íslandsbanki gegn Hermanni Harðarsyni, stofnfjáreiganda í Sparisjóði Norðlendinga. Hæstiréttur fer ekki mörgum orðum um málið, enda er rökstuðningur Ásmundar Helgasonar, héraðsdómara, ákaflega ítarlegur.
Héraðsdómur hafið komist að þeirri niðurstöðu að Glitnir hafi ekki viðhaft heiðarlega viðskiptahætti, þegar hann kynnti fyrir væntanlegum lántökum að eingöngu stofnbréfin sjálf væru höfð til tryggingar lántökunni en síðan hafi verið sett inn ákvæði um persónulega ábyrgð í skuldabréfið. Eða eins og segir í dómnum:
Glitni banka bar samkvæmt þessu m.a. að fylgja almennri reglu 5. gr. laganna sem leggur þá skyldu á fjármálafyrirtæki að starfa í samræmi við eðlilega viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi...Ekki verður séð að Glitnir banki hafi gætt skyldu sinnar samkvæmt þessu ákvæði þannig að stefndi fengi nægilega greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem fólst í að taka lán til kaupa á stofnfjárbréfum sem námu margfaldri stofnfjáreign stefnanda.
Mér sýnist þetta mál vera í meginatriðum alveg eins og mál Saga Capital (eða hvað það nú heitir í dag) gegn stofnfjárkaupendum í Sparisjóði Svarfdælinga og líklegast til fleiri málum. Virðist mér sem allir stofnfjárkaupendur sem fengu tilboð frá fjármálafyrirtækjum um að eingöngu bréfin og arður af þeim væri til tryggingar lánum til kaupa bréfanna séu því lausir allra mála eða eins og segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur (sem Hæstiréttur staðfesti):
Það er óumdeilt að stefndi getur borið fyrir sig að ósanngjarnt sé að byggja á umræddum lánssamningi, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, þó að krafa samkvæmt samningnum hafi verið framseld frá Glitni banka til stefnanda. Þegar litið er til framangreindra atriða, er lúta að atvikum við samningsgerðina og stöðu aðila, efni lánssamningsins og atvika sem síðar komu til, er það niðurstaða dómsins að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann felur í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu stefnda í öðru en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Því er rétt að breyta efni hans þannig að stefnanda sé einungis unnt að leita fullnustu í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Þar sem krafa stefnanda beinist að því að fá aðfararhæfan dóm um skyldu stefnda til greiðslu eftirstöðva lánsins verður hann sýknaður af kröfum stefnanda.
Ég hef fylgst með þessu máli, þar sem ég var fyrir fjórum árum beðinn um að lesa yfir tilboð Saga Capital til stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla. Mér sýnist það mál vera á allan hátt eins og þetta, þ.e. sent er tilboð þar sem boðin er fjármögnun á stofnfjáraukningu gegn tryggingu í bréfunum sjálfum og arði af þeim. Þessum málflutningi er haldið á lofti allt kynningartímabilið, en síðan er bætt inn í lánasamninginn, sem kemur til undirritunar, ákvæði um persónulegar ábyrgðir. Þetta hátterni hefur Hæstiréttur núna dæmt bera vott um óeðlilega viðskiptahætti!
Færslan var skrifuð við fréttina: Þurfa ekki að greiða fyrir stofnfjárbréf