Niðurgreiðslur, beingreiðslur og styrkir til landbúnaðar - tilgangur, áhrif og líkar aðgerðir

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.8.2011.

Öðru hvoru rís upp umræða um að landbúnaður og bændur séu einhvers konar afætur á þjóðfélaginu vegna niðurgreiðslna, beingreiðslna og styrkja sem bændur fá frá ríkinu.  Horfa menn þá til upphæðarinnar sem rennur til bænda, en hún mun vera um 10 ma.kr. á þessu ári, og segja hana vera til vitnis um að þennan afætuhátt.

Ég tók þátt í umræðu á  Eyjunni um daginn, þar sem þessi mál voru rædd, oftar en ekki í upphrópunum og út frá pólitískum skoðunum, en staðreyndum.  Langar mig að gera hér tilraun til að skýra tilgang niðurgreiðslna/beingreiðslna til landbúnaðarins, hvar áhrifin koma fram og benda á aðrar niðurgreiðslur sem tíðkast í þessu þjóðfélagi.

Tilgangurinn með niðurgreiðslum/beingreiðslum

Tilgangur niðurgreiðslu ríkis eða beingreiðslu eða hvað við köllum aðgerðina er fyrst og fremst að tryggja aðgengi að nauðsynlegri vöru eða þjónustu.  Þannig hefur þetta fyrirkomulag virkað um allan heim í fleiri áratugi, ef ekki árhundruð.  Ekki er um að ræða aðgengi stjórnvalda að vörunni og/eða þjónustunni heldur markaðarins, þ.e. neytenda vörunnar og þjónustunnar.  Hér á landi njóta mjög margir aðilar greiðslna úr ríkissjóði eða sjóðum sveitarfélaganna og þó greiðslan til bænda sé myndarleg, þá er hún líklega ekki eins há hlutfallslega miðað við fjölda neytenda og það sem margir aðrir fá.

Niðurgreiðslur geta verið með fjölbreyttu formi.  Algengasta formið er einhvers konar beingreiðsla, þ.e. gerður er samningur við þiggjanda greiðslunnar um ákveðna upphæð gegn því að viðkomandi tryggi tiltekið framboð af þeirri vöru eða þjónustu sem á í hlut.  Í öðrum tilfellum, þá kaupir ríkið þjónustu langt umfram þarfir, eins og var varðandi áskriftir að pólitískum málgögnum hér í gamla daga.  Síðan er óskilyrt greiðsla um þjónustuafhendingu, en miðað er við rekstrarkostnað.  Þá er það afkastatengd greiðsla til einkarekinna fyrirtækja sem bjóða almenna þjónustu, t.d. í samkeppni við ríkisrekna þjónustu.  Loks eru niðurgreiðslur í formi styrkja.

Áhrif niðurgreiðslna

Lítið fer á milli mála hver áhrifin af niðurgreiðslunum eru fyrir neytendur.  Þeir fá aðgang að vöru eða þjónustu á verði sem mun lægra en hefði þurft að greiða ef engar niðurgreiðslur væru til staðar.  Þannig er menntun grunnskólabarna að mestu ókeypis í opinberum grunnskólum og skólagjöld hjá einkareknum grunnskólum mun lægri en ef engar greiðslur kæmu frá sveitarfélögunum.  Sama á við um leikhúsmiðann eða miðann á tónleika hjá Sinfóníuhljómssveit Íslands, að væri ekki fyrir greiðslur frá ríki og sveitarfélögum, þá væri umfang starfseminnar líklega minni og miðaverð umtalsvert hærra.  Afleiðingin er augljós.  Færri hefðu efni á að sækja, t.d. tónleika, og færri fengju vinnu hjá hljómsveitinni.  Já, þetta eru allt sambærilegar greiðslur og bændur þiggja, þó við lítum þær líklegast öðrum augum.

Stærstu áhrifin af niðurgreiðslum eru á verðlag og hér á landi því á vísitölu neysluverðs.  Ef, t.d. Listasafn Íslands, fengi ekki framlög á fjárlögum, þá myndi örugglega kosta margfalt að skoða sýningar safnsins miðað við það sem nú er.  Í tilefni 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar kostar ekkert inn á safn Jóns Sigurðssonar að Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Þarna er ríkið að greiða niður kostnað almennings af því að sækja viðkomandi safn.  Með niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum er ríkið að leggja bændum til tekjur svo þeir þurfi ekki að krefja um eins hátt verð á afurðum sínum og annars yrði.  Áhrifin eru því til lækkunar á kostnaði almennings við kaup vörunnar eða þjónustunnar og þar sem við búum við verðtryggingu húsnæðislána, þá koma áhrifin einnig fram í minni hækkun þeirra.

Önnur áhrif, en alveg eins mikilvæg, eru á launaþróun í landinu.  Væru engar niðurgreiðslur á alls konar vöru og þjónustu, þá þyrfti almenningur að hafa mun hærri tekjur til að standa undir útgjöldum sínum.  Hluti vöru og þjónustu stæði hreinlega ekki til boða meðan önnur þjónusta hækkaði mikið í verði.  Háskólinn í Reykjavík hefur t.d. samning við ríkið um framlög til skólans og nema þau háum upphæðum á hvern nemanda.  Þrátt fyrir það greiða nemendur há skólagjöld, en þau myndu hækka verulega, ef framlag ríkisins myndi hverfa.  Höfum í huga, að þetta er framlag sem aðeins nokkur þúsund manns njóta, þar sem eingöngu þeir sem sækja nám í skólanum eru með þessu að fá menntun sína niðurgreidda.  (Tekið fram að ég er ekki að hnýta í HR eða greiðslurnar til hans.)  Nemandinn sem útskrifast frá HR þarf þess vegna ekki að gera eins háar launakröfur að námi loknum vegna þess að ríkið tók þátt í kostnaði við nám hans/hennar.  Íbúar Vestmannaeyja (og þeir sem þangað sækja) njóta niðurgreiðslna í ferðum til og frá Eyjum, hvort heldur farin er sjóleiðin eða landleiðin.  Væru þessar niðurgreiðslur ekki til staðar væri kostnaður við búsetu í Eyjum hærri, bæði vegna ferðalaga og vegna hærra vöruverðs.  Hærri lifikostnaður leiðir til krafna um hærri laun.  Óbeinu áhrifin af niðurgreiðslum eru því í reynd lægri launakostnaður, þ.e. segja má að með niðurgreiðslum á vöru og þjónustu sé óbeint verið að greiða niður launakostnað atvinnulífsins og spara í lífeyrisgreiðslum til lífeyrisþega.

Niðurgreiðslur tíðkast í öllum löndum í kringum okkur

Þær niðurgreiðslur sem mest er talað um hér á landi, eru til landbúnaðarins.  Eins og ég bendi á, þá eru margar mun fyrirferðarmeiri, en við kippum okkur ekki upp við þær, þar sem við teljum þær vera eðlilegan hluta af velferðarþjóðfélaginu og er ég sama sinnis.  Niðurgreiðslur til landbúnaðarins voru ekki fundnar upp hér á landi, langt því frá.  Raunar er staðan sú, að líklegast stingur ekki eitt einasta strá upp kollinum í sumum ríkjum hins vestræna heims öðru vísi en að bóndinn sem á landið þar sem stráið gerir sig heimakomið, fái ekki greitt eitthvað með því.  Hveiti, sykur, bómull, maískorn og flest annað sem bændum dettur í hug að rækta fær sína styrki úr viðkomandi ríkiskassa.  Markmiðið er að tryggja framboð vöru og þjónustu á frambærilegu verði og slá á verðsveiflur sem verða t.d. vegna duttlunga náttúrunnar.

Kornið, hveitið, sykurinn, grasið og fleiri ræktarplöntur er síðan slegið og sett í fullvinnslu ýmist til manneldis eða sem fóður fyrir skepnur.  Hvort heldur sem er, þá verða áhrifin þau sömu.  Niðurgreidda afurðin verður fyrir vikið ódýrari til neytendanna og þar með lækkar rekstrarkostnaður annars vegar heimilanna og hins vegar hjá bændunum.  Lægri kostnaður hjá bændunum leiðir síðan til þess að þeir geta selt skepnur til slátrunar á lægra verði en ella, sem skilar sér í lægra verði til neytenda.

Niðurgreiðslur á útflutning veldur deilum

Það væri nú gott og blessað, ef niðurgreiðslur næðu bara til innanlands neyslu.  En svo er ekki.  Síðustu áratugi hafa menn rifist um það innan GATT hvernig nota megi niðurgreiðslur á útflutta vöru og þjónustu.  Niðurgreiðslunum hefur nefnilega verið beitt til að grafa undan framleiðslu í öðrum löndum.  Þannig hafa stáliðjuver í Bandaríkjunum fengið ríkisstyrki (sem er eitt form niðurgreiðslna) til að geta haldið áfram starfsemi sinni og keppt á alþjóðlegum mörkuðum.  Þessu hefur ESB svarað með verndartollum svo niðurgreiðslurnar í Bandaríkjunum skekki ekki samkeppnisstöðu stáliðnaðarins innan ESB.

Hér á landi njótum við á verulegan hátt niðurgreiðslna erlendra ríkisstjórna á vöru og þjónustu sem neytt er hér.  Bæði væri ýmis iðnaðarvarningur dýrari, ef ekki kæmi itl niðurgreiðslna eða styrkja, og ekki síst væri bara framboð minna.  Færri framleiðendur sæu sér hag í því að framleiða vöruna, þar eftirspurn væri minni, a.m.k. miðað við breytt laun.

Hvar nýtist niðurgreiðslan hlutfallslega best?

Þessari spurningu er fljót svarað.  Því framar í framleiðsluferlinu sem niðurgreiðslan kemur, því betur nýtist hún hlutfallslega bæði fyrir framleiðandann og neytandann.  Fyrir bóndann er best að hráefnið sem hann notar kosti sem minnst, þar sem lágt hráefnisverð hefur m.a. áhrif á fjármagnskostnað fyrir utan að sjálfsögðu mun kostnaður við hverja skepnu minnka verulega.

Staðreyndin er að verðlagning byggist allt of oft á því að leggja ákveðna hlutfallstölu ofan á innkaupsverð.  Tökum dæmi um vöru sem kostar x kr. frá framleiðanda. Heildsalinn leggur 100% ofan á vöruna hvort heldur x er 3 kr. eða 3 m.kr.  og smásalinn leggur önnur 100% á vöruna.  3 krónurnar hækka því fyrst í 6 kr. og svo í 12 kr., þ.e. fjórföldun í verði.  10 ma.kr. greiðslur til íslensks landbúnaðar gæti því hugsanlega komið í veg fyrir að verð landbúnaðarframleiðslu hækkaði um 40 ma.kr. til neytenda. Sömu 10 ma.kr. sem greiddar væru beint til neytenda dygðu til að bæta þeim upp 1/4 af hækkuninni, en þeir sætu uppi með 3/4 eða 30 ma.kr. sem yrði að sækja í vasa launagreiðenda.  Miðað við núverandi skatthlutfall, þá þyrfti launagreiðandinn að hækka launin um líklega 50 ma.kr. svo launþegi hefði 30 ma.kr. til ráðstöfunar.  Þannig gætu 10 ma.kr. niðurgreiðsla, sem hætt er við, orðið að 50 ma.kr. aukningu í launakostnaði laungreiðenda og lífeyriskerfisins.  Bætum svo við þetta áhrifum hærra matvælaverðs og aukins launakostnaðar á vísitölu neysluverðs og þá hækka húsnæðislánin okkar um tugi, ef ekki hundruð, milljarða.

Umræðan um íslenskan landbúnað

Mér hefur stundum fundist umræðan um íslenskan landbúnað vera á villigötum.  Hún hefur snúist um hvað bændur fá í sinn hlut, en ekki hver ávinningurinn er fyrir land og þjóð.  Eins og ég bendi á að ofan, þá er auðvelt að sýna fram á að niðurgreiðslur til landbúnaðarins koma margfalt til baka eða eigum við að segja, að falli þær niður, þá mun það kosta okkur neytendur háar upphæðir.  Þær gera líka landið samkeppnishæfara hvað varðar ferðaþjónustu og raunar alla gjaldeyrisskapandi starfsemi.

Eðlilegt er og sjálfsagt að gera ríkar kröfur til hagræðingar, vöruþróunar og gæða i íslenskum landbúnaði.  Ég held raunar að margt hafi þróast í þá átt undanfarin ár, en vafalaust er frekara svigrúm.  Viljum við hins vegar leggja af beingreiðslur til íslenskra bænda, þá verðum við jafnframt að hafna öllum slíkum niðurgreiðslum á innfluttum matvælum.  Annars er samkeppnisstaðan ójöfn.  Ég er ekki viss um að íslenskir neytendur yrðu sáttir við það að greiða allt í einu þrefalt verð fyrir maísdós og fimmfalt verð fyrir danska kjúklinga (eða hver hækkunin yrði).  Innflutt viðbit myndi skyndilega hækka margfalt og sama gerði sófasettið sem gert er úr niðurgreiddum skinnum.  Ég held að betra sé að átta sig á afleiðingunum, áður en tekin er sú ákvörðun að leggja niðurgreiðslur til landbúnaðar af.

Áhrifin á launakostnað mest

Mjög margt í þessu þjóðfélagi er, eins og áður segir, niðurgreitt af ríki og sveitarfélögum.  Sund, íþróttaiðkun barnanna, strætómiðar, skólakostnaður, leikhúsmiðar, bókasöfn, heilbrigðisþjónusta og svona mætti lengi telja.  Í þessa hluti fara árlega milljarðar á milljarða ofan ýmist úr ríkissjóði eða úr sveitarsjóðum.  Tilgangur er sá að gera þessa þjónustu aðgengilegri fyrir neytendur.  Sama á við um styrki til landbúnaðarins.  Hverfi þessar niðurgreiðslur og styrkir, þá munu útgjöld ríkis og sveitarfélagana breytast.  Í staðinn fyrir þessi útgjöld, þá mun koma fram krafa um hærri laun frá opinberum starfsmönnum og lífeyrisgreiðslur.  Þær kröfur verða síðan til þess (verði orðið við þeim sem er óhjákvæmilegt) að ekki er hægt að lækka skatta eða lækkun þeirra verður umtalsvert minni en nemur lækkun útgjalda til niðurgreiðslna og styrkja.  Launþegar á almennum markaði þurfa því að sækja sinn kostnaðarauka til vinnuveitenda sinna, sem ekki geta mætt slíku án þess að velta kostnaðinum út í verðlagið.

Fyrir atvinnulífið eru niðurgreiðslur á ýmsu formi mjög mikilvægar.  Samkeppnishæfni þess gagnvart erlendum aðilum byggir m.a. á því að launaumhverfi sé innlendum fyrirtækjum hagstætt.  Hvort heldur niðurgreiðslurnar koma í formi styrkja til landbúnaðarins eða sjómannaafsláttar, þá hefur þetta allt áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækja.  Bara svo dæmi sé tekið af sjómannaafslættinum, þá hefur ekki verið hægt að afnema hann vegna þess að bæta þarf sjómönnum missinn upp í hærri launum.  Hvernig heldur fólk þá að atvinnulífið myndi bregðast við, ef allar niðurgreiðslur hyrfu?  Eða eru það bara niðurgreiðslur til íslenskra bænda sem eiga að hverfa, en allir hinir eiga að halda sínu?