Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.8.2011. Efnisflokkur: Ójöfnuður
Forvitnilegt er að lesa ummæli þessara þriggja ofurlaunamanna um ástandið hjá almúganum í Bretlandi. Eins og þeir hafi ekki séð svona hluti gerast áður. Ástandið meðal minnihlutahópa í Bretlandi er og hefur verið eldfimt um mjög langt skeið. Atvinnuleysi er umtalsvert og í sumum fjölskyldum hafa margar kynslóðir aldrei kynnst því að hafa vinnu. Þó þessar óeirðir virðist vera sprottnar upp úr engu, þá hefur það einmitt sýnt sig í gegn um tíðina að oft veldur lítill neisti miklu báli. Í Grikklandi fór allt í bál og brand eftir að lögregluþjónn banaði af slysni ungum dreng. Í Bandaríkjunum hefur margoft gerst að lögregluofbeldi hefur komið af stað gríðarlegum óeirðum. Bretland er svo sem ekki óvant þessu og hafa ýmsar borgir orðið mjög illa úti í gegn um tíðina. Engu er líkar en neisti hafi hlaupið í púðrið og allt fer í háaloft.
Ég horfði á fréttir Sky í gærkvöldi og fram eftir nóttu bæði af áhuga fyrir ástandinu og vegna þess að dóttir mín er búsett í London um þessar mundir. Meðan ég horfði á myndir frá London og Liverpool, þá datt mér helst í hug að krökkunum sem voru þarna fremst í fylkingunni þætti þetta sjálfum bara sport eða líkt og þetta væri tölvuleikur sem yrði síðan resettaður ef ekki gengi nógu vel. Margt hafði einkenni leiksins Grand Theft Auto, sem byrjaði fyrir rúmum 20 árum sem ákaflega saklaus leikur miðað við hvernig hann hefur þróast í dag. Fólk dregið út úr bílum sínum svo hægt sé að kveikja í þeim eða stela, handtöskur rifnar af konum, farið ofan í bakpoka hjá ungum krökkum, kastað molotovkokteilum til að kveikja í byggingum, ráðist á verslanir með nauðsynjar og raftæki.
Stjörnunar þrjár sem vitnað er í, eru hluti af ástandinu, þó þær skilji það ekki. Ég hef fylgst í mörg ár með umræðum á spjallborði eins úrvalsdeildarliðs. Þar hefur sífellt orðið sterkari ólund og óþol fólks fyrir ofurlaunakröfum knattspyrnumanna. Wayne Rooney er t.d. með um 150.000 pund í laun í viku hverri. Flestum úr hópi óeirðaskeggja þætti gott að þéna það á 8 til 10 árum og mánaðarlaun Rooneys á starfsævinni. Rio Ferdinand er með eitthvað lægri laun, en nóg til þess að hann þénar meira á mánuði en margur á starfsævinni. Joey Barton er síðan hálfdrættingur miðað við Rooney, en samt eru vikutekjur hann svo ótrúlegar að velmenntaður sérfræðingur er varla að ná þeim á einu ári.
Allt byrjaði í Tottenhamhverfi sem er jú hverfi Tottenhamliðsins. Þar hafa "hógvær" laun knattspyrnumanna einmitt verið að víkja fyrir ofurlaunum. Nágrannarnir eru Arsenal, þar sem 90.000 pund á viku þykja víst ekki mannsæmandi laun, og jafnvel litlu liðin í úrvalsdeildinni verða að fara að bjóða leikmönnum árslaun sérfræðings í vikulaun ætli þau að geta fengið þá í vinnu. Þessi ofurlaunaþróun manna sem eltast við bolta 90 mínútur í senn er komin út fyrir öll velsæmismörk. Hún verður til þess að félögin hækka verð aðgangsmiða, þannig að færri og færri úr hópi þeirra verr stöddu hafa efni á að sækja leiki. Sums staðar í mið og norður Englandi eru það nánast trúariðkun að sækja leiki liðsins síns og þegar launin hrökkva ekki fyrir miðaverði, þá hrynur tilveran hjá mörgum.
Hinn gríðarlegi aðstöðumunur sem er milli hinna ríku og hinna efnaminni, virðist vera rót vandans. Verið er að sýna þeim sem eitthvað eiga hversu brothætt staða þeirra er. Hversu auðvelt er að kippa fótunum undan tilverunni með rétt staðsettri íkveikju eða innbroti. Þannig var kveikt í sögufrægu húsi sem hýsti húsgagnverslun og -framleiðslu, líklegast vegna þess að fyrirtækið var svo gamalt og ekki af neinni annarri ástæðu. Ráðist var inn á heimili aldraðrar konu sem safnaði bókum og nokkrum bókakössum stolið. Verið er að veikja öryggistilfinningu fólks á eins andstyggilegan hátt og hægt er. Þó þessi fórnarlömd teljist seint til aðalsins, þá virðist sem þetta fólki hafi orðið að skotmarki vegna þess að það hafði það betra en almúginn. (Þetta er svo sem ágiskun án sönnunar.)
Þó ekkert réttlæti þau skemmdarverk og þjófnað sem á sér stað í London og fleiri borgum Englands síðustu daga, þá hefur "kerfið" alið af sér kynslóð eftir kynslóð af einstaklingum sem finna ekki hjá sér neina samfélagslega ábyrgð vegna þess að þeim finnst þeir ekki vera virtir af samfélaginu. Þetta fólk horfir síðan upp á goðin sín, sem eru tónlistarmenn eða knattspyrnumenn, vera með himinháar tekjur sem það getur ekki einu sinni dreymt um að fá. Þessi samfélagslegi ójöfnuður er jarðvegurinn sem nærir óánægjuna, þó hún brjótist sem betur fer ekki út nema örsjaldan í atburðum sem þessum.
Ríkisstjórnir Verkmannaflokksins bera mesta ábyrgð á því að þetta ástand hefur myndast, þó svo að einkennin brjótist ekki út fyrr en Íhaldsmenn og Frjálslyndir eru komnir til valda. Greinilega hefur ekki verið tekið nægilega vel á vanda hinna sem minna mega sín, hvorki með sköpun starfa eða tækifærum til menntunar. Þó svo að Verkamannaflokkurinn eigi að teljast flokkur félagshyggju, þá er ljóst að líkt og hér á landi, þá fara ekki saman orð og gjörðir. Verði ekki brugðist við hinum gríðarlega félagslega vanda sem er víða á Bretlandseyjum, þá má því miður búast við að óeirðir eins og þessar geti endurtekið sig reglulega. Tryggja verður þó að þeir sem tekið hafi þátt í gripdeildum verði látnir skila því sem þeir stálu, þó ég sé þeirrar skoðunar að refsingar muni ekki leiða til sátta.
Færslan var skrifuð við fréttina: Fótboltastjörnur áhyggjufullar vegna óeirðanna