Eftirlit með lyfjum en ekki fjárglæfrum bankanna

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.8.2011. Efnisflokkur: Bankahrun, Bankaeftirlit

Skoðum þessa frétt, sem var fyrsta frétt Sjónvarpsins í kvöld:

Karlmaður um þrítugt hefur verið ákærður fyrir að hafa svikið út úr heimilislækni um 1.500 töflur af morfínskyldum lyfjum á sex mánaða tímabili. Þetta kom fram í fréttum RÚV. 

 

Ímyndum okkur nú að fréttin hafi verið svona:

Bankastjórar Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings hafa verið ákærðir fyrir að hafa svikið út úr heimilum landsins 450 milljarða á 12 mánaða tímabili frá október 2007 til septemberloka 2008.

Nei, við munum aldrei sjá svona fréttir vegna þess að það virðist ekki hafa verið ólöglegt að setja þjóðfélagið á hausinn.  Engin lög virðastkoma í veg fyrir að menn geti með staðið í fjárglæfrum sem hafa þær afleiðingar að lán viðskiptavina margfaldast á stuttum tíma.  Það sem meira er, að þessi hækkun lánanna telst, að mati fjármálaráðherra og tveggja efnahags- og viðskiptaráðherra, vera stjórnarskrárvarin eign kröfuhafa og bankanna.

Ótrúlega skrítið, en svona er Ísland.

Fer eitthvað á milli mála, að fjármálafyrirtækin Glitnir hf., Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. bökuðu landi og þjóð óheyrilegu tjóni.  Þarf einhverja rannsókn á því?  Valdi maður banaslysi, þá er hann ákærður, þó svo að slysið megi ekki á nokkurn hátt rekja háttsemi viðkomandi.  Vissulega verður dómurinn vægari eftir því sem sökin er minni.  Hvers vegna gildir ekki sama um menn, sem vísvitandi eða ekki bökuðu landi og þjóð ómældu tjóni?  Af hverju hefur þeim ekki verið stefnt fyrir að hafa valdið skaðanum?  Nei, þeir geta valsað um stræti og torg eða fengið sér vinnu í Kanada, svo dæmi sé tekið, og efnahagshrunið sem þeir ollu með háttsemi sinni, er bara eins og blettur á hvítflibba.  Hvað er að réttarfarinu og lögum í þessu landi? Hvers vegna er ekki búið að ákæra þessa menn?

Maðurinn sem sveik út 1.500 töflur af morfínsskyldum lyfjum, hann er ákærður og er það gott.  Hann mun fá mun þyngri refsingu, en mennirnir sem stuðluðu að hruni efnahags þjóðarinnar.

Ótrúlega skrítið, en svona er Ísland.


Færslan var skrifuð við fréttina:  Sveik út morfínskyld lyf