Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.10.2011.
Í síauknu mæli virðist vera orðið ljóst að hagstjórn er meira en fólk með brennandi áhuga á stjórnmálum ræður við. Hin gamla kunna aðferð að kjósa áhugafólk um stjórnmál á þing í þeim erindagjörðum að reka þjóðfélagið af ábyrgð, virðist vera að renna sitt skeið á enda. Út um allan heim erum við að sjá hagkerfi komin niður á hnén, ef þau eru ekki alveg fallin til jarðar. Japanska kreppan var fyrir 20 árum og landið hefur ekki enn náð að vinna sig út úr vandanum. Hvað ætli það taki Ísland, Írland eða Grikkland langan tíma að koma sér á svipað ról og fyrir 2008?
Stjórnmálamenn um allan heim eru að komast að því, að þeir hafa ekki hundsvit á fjármálum. Þeir hafa ennþá minna vit á bankamálum og alls ekkert á því hvernig fjármálakerfi heimsins virkar. Með fullri virðingu fyrir Geir H. Haarde, Ingibjörgu S. Gísladóttur, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, þá held ég að þau hafi ekki áttað sig á því hvað fólst nákvæmlega í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland. Ég held að ekkert þeirra hafi áttað sig á því fyrir hvern AGS var að vinna í raun og veru. Sama á við um stjórnmálamenn í öðrum löndum þar sem AGS hefur farið inn.
Ég er með þessu hvorki að hallmæla stjórnmálamönnunum né AGS, bara að benda á staðreyndir. Hér á landi hefur nefnilega komið í ljós, að vanþekking íslenskra stjórnmálamanna á hlutverki AGS er að kosta okkur háar upphæðir. AGS kom ekki hér til að byggja upp Ísland. Nei, sjóðurinn kom hingað til að sjá til þess að kröfuhafar Íslands yrðu ekki hlunnfarnir í uppbyggingu hagkerfisins. Stjórnvöld þorðu ekki annað, líklegast vegna þess hve stjórnmálamenn skömmuðust sín fyrir ástandið, en að samþykkja alls konar hluti sem engin ástæða var til að samþykkja.
Ég hef aldrei getað skilið hvers vegna almenningur á Íslandi átti að greiða fyrir klúður bankamanna. Eins og ég fjalla um í næstu færslu, þá eru allar stofnanir sem koma að stefnumótun í fjármálakerfinu, búnar að komast að þeirri niðurstöðu að það voru fyrst og fremst innri verkferlar fjármálafyrirtækjanna sem klikkuðu, voru rangir eða ekki til staðar. Út um allan heim er almenningur að gjalda fyrir það. Hér á landi er búið að skera niður heilbrigðisþjónustu út um allt land meðan bankarnir græða á tá og fingri. Er ekki eitthvað rangt við þá mynd?
Á morgun (fimmtudag) verður haldin ráðstefna í Hörpu um hvernig endurreisn Íslands hefur tekist til. Þar munum við örugglega heyra margar ræður með innihaldi sem hinn almenni landsmaður getur ekki samsamað sig við. Menn munu berja sér á brjósti og hrósa sér fyrir velheppnaða endurreisn. En er hún vel heppnuð? Bera tölur um gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja þess vitni að endurreisnin sé vel heppnuð. Eða fjöldi nauðungarumboða á eignum einstaklinga, yfirtökur fjármálafyrirtækjanna á rekstrarfyrirtækjum, atvinnuleysistölur, brottflutningur, niðurskurður í velferðarkerfinu, fjárfestingar á síðustu þremur árum og svona mætti lengi telja.
Ég viðurkenni alveg að stjórnvöld hafa náð stjórn á þjóðarskútunni. Þau hafa raunar unnið afrek, sem ég tel að þeim beri að hrósa fyrir. En þjóðarskútan er illa löskuð og áhöfnin hamast á dælunum. Hætt er við að komi stormur, þá endi hún á hafsbotni. Á meðan áhöfnin hamast, þá sigla þrjú glæsifley framhjá en áhafnir þeirra telja sig ekki þurfa að hjálpa. Er það ekki ósanngjarnt og hreinlega rangt, að meðan nærri allt á Íslandi líður fyrir hrunið sem gömlu bankarnir ollu, þá vaða þeir nýju í peningum sem vinnandi hendur landsmanna hafa aflað. Er ekki eitthvað rangt við það, að nýju bankarnir skili 163 ma.kr. hagnaði meðan heimilin og fyrirtækin í landinu þurfa að sjá á eftir fjármunum sínum og eignum til þessara sömu banka. Banka sem reistir voru á rústum bankanna sem settu allt á hliðina. Ég vil að bankarnir þrír greiði þessa 163 ma.kr. til ríkissjóðs sem framlag sitt til endurreisnar Íslands. Þeir eiga ekki að hagnast á óförum þeirra sem urðu fyrir skaða vegna aðgerða gömlu bankanna. Meðan þetta ástand varir, þá get ég ekki samþykkt að Fönix hafi risið úr öskustónni. Ég get ekki samþykkt að endurreisnin hafi heppnast. Hún er misheppnuð!