Sorgleg niðurstaða - Við viljum fagmennsku en bara með réttri niðurstöðu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.10.2011. Efnisflokkur: Bankasýslan

Ég veit að ég mun ekki afla mér vinsælda með þessari færslu, en mér finnst þessi niðurstaða, að stjórn Bankasýslunnar hafi ákveðið að segja af sér, sorgleg.  Í mínum huga sýnir hún, að við höfum ekkert komist áfram.  Ég get alveg tekið undir að ráðning Páls Magnússonar var ekki það sem flestir vildu sjá, en það er ekkert sem bendir til þess að vinnubrögðin við ráðninguna hafi verið ófagleg.  Raunar verð ég að viðurkenna, sem menntaður á sviði ákvörðunarfræði, þá hef ég ekki séð betra ráðningarferli af þeim sem hafa verið gerð opinber.  Ég segi þetta með þeim fyrirvara, að ég hef bara séð það sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Við getum haft hverjar þær skoðanir sem við viljum á Páli Magnússyni, en mér virðist sem verið sé að kenna honum um eitthvað sem hann afrekaði ekki.  Að láta sér detta í hug að aðstoðarmaður viðskiptaráðherra hafi haft eitthvað með það að gera að S-hópurinn hafi fengið Búnaðarbanka Íslands er nú heldur langt gengið.  Í fyrsta lagi, þá sendi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þetta mál til einkavæðingarnefndarinnar, þar sem það fékk (vonandi) faglega meðferð, og þegar Halldóri og Davíð líkaði ekki niðurstaðan, þá tóku þeir málið yfir ásamt aðstoðarmönnum sínum, Birni Inga og Illuga Gunnarssyni.  Hvorki Páll né Valgerður komu mér vitanlega að málinu eftir það og hef þó lesið það sem segir um það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Í öðru lagi, þá er ákvörðunarvald Framsóknar ekki hjá aðstoðarmanni ráðherra.  Það er hjá nokkurs konar æðstaráði flokksins, en gert er grín af því að helst sé hægt að átta sig á því hverjir þar sitja með því að fylgjast með fundum Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga nú Gift.  Það er því barnalegt að ætla að refsa Páli Magnússyni fyrir einkavæðingu bankanna.  Hann var í versta falli nytsamt verkfæri, en ákvarðanirnar voru annarra.

Þannig að ráðningarferlið var eins faglegt og frekast er hægt að gera kröfu um og ólíklegt er að Páll hafi ráðið nokkru um að Ólafur Ólafsson fékk að kaupa stóran hluta í Búnaðarbankanum.  (Ekki ætla menn að kenna Páli um Björgólfar eignuðust Landsbankann.)  Þá stendur eftir hvort Páll hafi verið a) hæfur og b) hæfastur.

Varðandi það hvort Páll hafi verið hæfur, þá hef ég ekki hugmynd um það.  Samkvæmt upplýsingum stjórnar Bankasýslunnar, þá stóðst hann hæfiskröfur ásamt þremur öðrum og fór því í viðtöl og próf.  Ef einhver hefur nánari upplýsingar um það hvers vegna hann hefði ekki átt að teljast hæfur, miðað við rökstuðning stjórnar Bankasýslunnar á hæfismati þeirra, þá væri gott að fá að vita það.  Að aðeins fimm hafi sótt um stöðuna, segir ansi margt um starfið. Að einn hafi strax dottið út, segir að ekki voru allir hæfir í starfið og því hefði Páll dottið út á því stigi, ef það hefði verið mat þeirra sem komu að ráðningarferlinu að hann stæðist ekki lágmarkskröfur.  En hann komst upp á næsta stig.

Varðandi það hvort hann var hæfastur, þá hefur Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrverandi formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, lýst því nákvæmlega hvernig Páll stóð sig á hinum mismunandi prófum.  Stundum var hann lakastur, stundum næst lakastur, stundum næst bestur og stundum bestur.  Þegar allt var lagt saman, þá reyndist Páll einfaldlega hafa staðið sig best.  Eitt er þó alveg ljóst, að enginn þessarra fjögurra sem voru metnir hæfir, sköruðu afgerandi fram úr.  Við erum því hvorki að tala um að Páll hafi verið áberandi hæfastur eða að einhver annar hafi verið áberandi sístur, a.m.k. hefur ekkert slíkt komið fram.

Gott ákvörðunarferli eykur líkur á góðri útkomu

Eins og áður segir, þá er ég með menntun á sviði  ákvörðunarfræði, þ.e. ég er með tvær gráður í aðgerðarannsóknum frá Stanford háskóla.  Ég sótti nánast alla áfanga í ákvörðunartöku (decision making), ákvörðunargreiningu (decision analysis) og ákvörðunarfræði (decision theory) sem ég vissi af í skólanum.  Eitt af því mikilvægasta sem ég lærði í þessu námi var að láta ekki eigin vilja trufla leiðina að niðurstöðu.  Hafi maður ákveðið að fylgja ferli og það ferli er hafið yfir vafa (a.m.k. eins hafið yfir hann og hægt er), þá verður maður að sætta sig við það sem út úr ferlinu kemur.  Þannig komst ég að því við vinnu lokaverkefnis míns, þvert á allt sem mér hafði dottið í hug áður, að ekki væri alltaf hagkvæmt að virkja vatnsföll og jarðgufu til að selja rafmagnið til stóriðju.  Verðið fyrir rafmagnið skipti meira máli.  Landsvirkjun líkaði ekki niðurstaðan haustið 1988, en núverandi forstjóri áttar sig á þessum sannindum.  Þar leiddi, sem sagt, ferlið mig að niðurstöðu sem mér hafði ekki hugkvæmst áður.  Hvað átti ég að gera?  Afneita niðurstöðunni, breyta ferlinu og vonast til að fá aðra niðurstöðu?  Nei, ég aftur framkvæmdi næmnisathuganir á niðurstöðunni og skoðaði hvað þyrfti að gerast svo niðurstaðan breyttist.  En niðurstaðan stóð óhögguð og hún fór í skýrsluna mína ásamt útkomu næmnisathugana.  Í dag er þetta viðurkennd staðreynd.

Margt er líkt með þessari reynslu minni og niðurstöðu stjórnar Bankasýslunnar.  Menn settu upp ferli og keyrðu umsækjendur í gegn um það.  Og út kom að Páll Magnússon var metinn hæfastur.  Hvað átti stjórn Bankasýslunnar að gera?  Átti það að vera gamla Ísland, þar sem bara þeir sem eru þóknanlegir valdhöfunum sleppa í gegn um nálaraugað eða átti það að vera nýja Ísland, þar sem allir eru jafnir gagnvart því ferli sem var notað.  (Ég hef séð menn ýja að, að ferlinu hafi verið breytt til að fá fram þessa niðurstöðu.  Auðvitað er ekki hægt að útiloka slíkt, en segja slíkar vangaveltur ekki meira um hvað viðkomandi dettur í hug, en hvað öðrum dettur í hug.)  Kannski var framkvæmd næmisgreining á niðurstöðunni til að sjá hve mikið einstakar útkomur eða vægi þeirra þyrftu að breytast svo niðurstaðan breyttist.  Það veit ég ekki, en það hefði getað bæði styrkt og veikt þá ákvörðun að ráða Pál.

Nýja Ísland eða gamla Ísland

Ég held að stjórn Bankasýslunnar hafi mátt vita að ráðning Páls yrði umdeild.  Samt var ákveðið að fylgja niðurstöðu ferlisins.   Ég get ekki séð annað, en að með því væri verið að sýna vandaða stjórnsýslu.  Verið var að kveðja gamla Ísland, þar sem niðurstöðum var breytt til samræmis við pólitískan vilja ríkisstjórnarinnar eða eitthvað þess háttar.  Vissulega hefði enginn hreyft nein andmæli fyrir Páls hönd, ef hann hefði ekki fengið stöðuna.  Á sama hátt er ekki verið að taka upp hanskann fyrir hönd eins sérstaks umsækjanda í því fjölmiðla- og bloggheimafári, sem gengið hefur yfir.  Allt hefur snúist um að Páll sé vanhæfur vegna þess að hann aðstoðaði Valgerði Sverrisdóttur árið 2003 og að stjórn Bankasýslunnar hafi dregið taum Páls vegna fyrri samskipta formanns stjórnar og Páls fyrir langa löngu.

Alveg er ljóst, að ekki er möguleiki að ráðning Páls hafi veirð pólitísk nema í gangi sé risastórt samsæri.  Verið sé að launa Framsókn fyrir stuðning við eitthvað sem ekki er ljóst ennþá hvað er.  Einnig er ljóst að Steingrímur J. hefur ekki verið að koma "sínum manni" að í stöðuna.  Hann gerði það ekki þegar Elín Jónsdóttir var ráðin og gerði það ekki heldur núna.  (Svona út frá kómísku hliðinni, þá er gott að vinna fyrir Kópavog, ætli menn að komast í forstjórastól Bankasýslunnar.  Elín var tilsjónarmaður með Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavaogsbæjar og Páll er bæjarritari í Kópavogi.)  Ekki er Páll stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, þannig að sú tenging er farin.  Við getum því nokkuð örugglega útilokað pólitíska spillingu.

Mér sýnist flest benda til þess að ákvörðun Bankasýslunnar hafi verið tekin á hreinum faglegum forsendum.  Þá á ég við faglegum út frá aðferðafræði mannauðsstjórnunar.  Stillt var upp ferli, því fylgt eftir og ákvörðun um ráðningu byggð á því.  Að ráðast á stjórn Bankasýslunnar fyrir að vera fagleg er hreinlega ósanngjarnt.  Ég viðurkenni alveg, að þegar ég sá nafn Páls á lista yfir umsækjendur, þá átti ég ekki von á því að hann fengi djobbið.  Reyndin var önnur.

Eru allir bankamenn vanhæfir?

Mér finnst það hrein kaldhæðni, að loksins þegar einhver aðili vandar sig af slíkri kostgæfni við ráðniningarferli, eins og stjórn Bankasýslunnar virðist hafa gert, þá hrökklast hún frá.  Menn kalla hana vanhæfa og í henni hafi setið vanhæft fólk vegna þess m.a. að það hafi tengst gömlu bönkunum.  Steinunn Þórðardóttir fær á sig blammeringar sem standast ekki einu sinni skoðun og síðan er vitnað til þess að hún hafi starfað hjá Íslandsbanka II/Glitni.  Höfum í huga, að nær allir sem hafa alvöru þekkingu á bankamálum hér á landi, eru með tengsl við gamla fjármálakerfið.  Hinir eru svo ný byrjaðir í bransanum að þeir hafa ekki reynsluna til að taka að sér stjórnarstörf fyrir Bankasýsluna.  Hvað eigum við að gera í þessari stöðu?  Hvert eigum við að sækja hæfa einstaklinga?

Vandinn er ærinn og fyrst fyrrverandi stjórn Bankasýslunnar var talin vanhæf, þá fæ ég ekki betur séð en á hann hafi bætt.  Arion banki og Landsbankinn sóttu menn utan bankakerfisins til að gerast bankastjórar.  Ég hef heyrt ákaflega skiptar skoðanir á því hvernig það hefur tekist.  Um báða er sagt að ljóst sé að þá vanti reynslu af bankamálum.  Ég lít á það sem hrós, en ég held að undirmenn þeirra líti á það sem ókost.  Hæfisskilyrði stjórnarmanna í Bankasýslunni er að viðkomandi hafi þekkingu og reynslu tengda fjármálakerfinu.  Hvar er það fólk hér á landi sem er jafnframt "hreint" af hruninu?  Ég hreinlega veit það ekki.  Menn hafa lagt það til að sækja fólk til útlanda, en er ástandið eitthvað betra þar?  Allur fjármálaheimurinn er svo samofinn og þar sem hann er meira og minna allur í bulli, þá hefur fækkað allverulega í hópi "æskilegra".  Næst er að spyrja hvort fólk vilji setjast í þessi heitu sæti, þar sem ákvarðanir sem ekki þóknast fjöldanum munu leiða til þess að dregnar eru upp sögur um afglöp fjölskyldumeðlima.

Ég held að við verðum að fara að slaka aðeins á.  Gefið var út opið skotleyfi á mig fyrir tæpu ári, þar sem ég vogaði mér að krefjast þess að unnið væri af heilindum.   Fylgt væri réttum ferlum við úrlausn mála, en ekki ferlum sem hentuðu bönkunum.   Í dag var það stjórnarmaður í Bankasýslunni sem fékk skothríðina yfir sig, af þeirri einni ástæðu, að hún vann af heilindum.  Hvernig ætlum við að fá besta fólkið til að stíga fram og taka þátt í endurreisninni, ef ein "röng" ákvörðun verður til þess að viðkomandi er tekinn af lífi í fjölmiðlum eða bloggheimum.  Ef þetta er nýja Ísland, má ég þá biðja um það gamla aftur.


Færslan var skrifuð við fréttina: Stjórn Bankasýslu vill hætta