Góður hagnaður Íslandsbanka, en hvar eru afskriftirnar sem SFF talar um?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.9.2011.

Fyrstur kom Arion banki.

Hann læddist inn í lánsöfnin

og fann þar hagnað feitan

furðu með reksturinn heitan.

 

Næstur kom Íslandsbanki.

Hann tók til í bókhaldi

og hefur hverfandi afskriftir að sýna

hversu mikið sem menn rýna.

 

Þriðji kemur Landsbankinn.

Sagan hans er ekki þekkt

þegar þessi færsla rituð er.

Því er ekki vitað hvernig fer.

 

Ætli Jóhannes í Kötlum hefði ekki orðað þetta betur, en í dag eigum við þrjá bankajólasveina, sem líkt og venjulegu jólasveinarnir læðast inn á heimili fólks og hafa þaðan fé og eignir sem þeir eiga ekki rétt til (a.m.k. að mínu mati).

Árshlutauppgjör Íslandsbanka III.

Íslandsbanki III. sendi frá sér fallegt árshlutauppgjör fyrir fyrri hluta þessa árs.  Hagnaðurinn er upp á 8 ma.kr., þannig að hagnaður bankans og Arion banka nær 18 ma.kr. á sex mánuðum.  Ekki er þröngt í búi hjá þessum.

Áhugavert er að skoða afskriftir eða öllu heldur afskriftaleysi Íslandsbanka.  Lán bankans til viðskiptavina og kröfur á þá eru sögð standa í 509,9 ma.kr.  Í skýringu 5 á bls. 13 er þessi tala birt án þess að nokkur tilvísun sé í varúðarfærslu  heldur er sagt að upphæðin sé raunvirði lánanna (total carrying amount).  Hafði virði lánsafnanna lækkað um 5,2 ma.kr. frá því 31.12.2010 sem er óveruleg breyting og rúmar alls ekki meintar afskriftir sem Samtök fjármálafyrirtækja og Árni Páll Árnason börðu sér á brjósti með.  Það sem meira er að í skýringu 7 kemur fram að breytingar á virði (net valuation changes) frá áramótum hafi verið neikvæð um 255 m.kr., en jákvæð um 409 m.kr. frá 1. apríl 2011.

Þegar skoðaðar eru varúðarfærslur vegna lána (impairment allowance) í skýringu 21 á bls. 20, þá kemur í ljós að þær hafa hækkað um 3,5 ma.kr. frá áramótum og standa í 65,2 ma.kr. (65,8 ma.kr. samkvæmt skýringu 22).  Í skýringu 22 á sömu blaðsíðu eru færslur innan tímabilsins skýrðar.  Staðan var 62,3 ma.kr. í upphafi árs, afskriftir voru tæplega 7,6 ma.kr., leiðréttingar á höfuðstóli (principal credit adjustment) var upp á 4,5 ma.kr. og síðan er sagt að 15,6 ma.kr. hafi verið færðir á rekstrarreikning (charged to the comprehensive income).  Eina sem ég finn í rekstrarreikningnum er upphæðin 155 m.kr., þannig að líklega eru 15,6 ma.kr. færslan uppsöfnuð tala frá stofnun bankans.

Hvernig sem ég leita í árshlutareikningi Íslandsbanka III., þá sé ég hvergi meintar afskriftir sem SFF fullyrða að hafi átt sér stað hjá nýju bönkunum og ég sé heldur hvergi meintar afskriftir sem Árni Páll kynnti fyrir þingheimi um daginn.  Hvernig geta hátt í 623 ma.kr. bara horfið í bókum bankanna?  Vissulega hefur Íslandsbanki afskrifað eitthvað og Arion banki líka, en þær afskriftir nema kannski, já, kannski 130 - 150 ma.kr. sem safnast hafa upp frá stofnun bankanna.  Hvorugur bankinn sýnir nokkurn vott að því að hafa afskrifað 20 ma.kr. frá áramótum, hvað þá 120 ma.kr. eins og SFF heldur fram.

Þáttur fjölmiðla og meðvirkni

Ég skil ekki fjölmiðla þessa lands.  Nú er ég búinn að vera í samskiptum við tvo af þeim á undanförnum dögum, þar sem ég hef hvatt þá til að fletta ofan af lyginni varðandi afskriftir í nýju bönkunum.  Lygi sem SFF og Árni Páll Árnason hafa borið fyrir almenning í landinu.  Nei, þeir þegja þunnu hljóði.

Því miður er meðvirkni alveg að drepa þetta þjóðfélag.  Ekki má segja sannleikann vegna þess að það gæti sært einhvern í valdastétt landsins.  Útrásargosarnir munu fá að komast um glæp sinn, banksterarnir munu fá að komast upp með glæp sinn, stjórnmálamenn munu fá að komast upp með að hagræða sannleikanum vegna þess að, eins og einn þeirra sagði, "ég kann ekki að reikna".  Eru fjölmiðlar að gera í buxurnar af hræðslu við þessa aðila og þora því ekki að fletta ofan af lygunum?  Af hverju kemst Árni Páll Árnason upp með að ljúga að Alþingi?  Hann sagði í svari sínu að stærstu bankarnir þrír hefðu afskrifað 503,3 ma.kr. frá hruni.  Árni Páll, hvar birtast þær tölur í ársreikningum bankanna?  Þú ert efnahags- og viðskiptaráðherra og getur ekki falið þig bak við að þú kunnir ekki að reikna.

Fjölmiðlar leyfa allt of oft aðilum í "valdastétt" þjóðarinnar að komast hjá því að svara spurningum.  Það sem meira er, að þeir fylgja málum ekki eftir, þegar svarið vantar.  Í Bretlandi kæmist efnahags- og viðskiptaráðherra ekki upp með að veita þinginu rangar upplýsingar líkt og hér.  Fjölmiðlar væru á bakinu á honum þar til hann annað hvort segði af sér eða bæðist afsökunar og leiðrétti svör sín.  Nei, svo er ekki hér.  Hér eru sendiboðarnir teknir af lífi, en sökudólgunum hampað.

Banksterarnir ollu meira tjóni allir glæpamenn Íslands frá upphafi

Ég var með hóp af Bandaríkjamönnum í leiðsögn um daginn.  Kanar eru einstaklega forvitnir um glæpi og glæpatíðni og fékk ég því hina klassísku spurningu:  What is the crime rate in Iceland?  Svar mitt var álíka klassískt: 

Jú, við höfum flutt inn baltnesku mafíuna, Hells Angels væru hér og Black Pistons, Outlaws og fleiri hópar sem þekktir eru fyrir annað en að vera bara fyrirmyndarborgarar.  En þrátt fyrir allt sem þessir aðilar og aðrir krimmar hafa kostað heimilin í landinu, þá komast þeir ekki með tærnar þar sem banksterarnir væru með hælana.  Ætli menn að fremja glæpi, þá sé öruggast að gera það í nafni fjármálafyrirtækis, þar sem það virðist vera löglegt að sýna vanhæfni, blekkingar, spillingu, svik og pretti sé það gert innan fjármálafyrirtækis.  Almenningur borgar brúsann.

Viðbrögðin létu ekki standa á sér.  Fólk tók allt undir þetta, enda er þetta það sama alls staðar í heiminum.  Háttsemi bankamanna, hversu vitlaus hún er og röngu megin við línuna, virðist ekki talin glæpsamleg, en detti einhverjum ólánsmanni það í hug að stela einum súpupakka í 10-11, þá skal stinga honum í fangelsi.

En merkilegast við þessa bankstera er að sumir misstu ekki einu sinni vinnuna!  Aðrir hafa beðið í skjóli í tæp þrjú ár, halda að við séum búin að gleyma glæpum þeirra og eru komnir á fullt að endurskrifa söguna.  Aumkunarvert, svo ekki sé meira sagt.